Marek Moszczynski var í dag sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins fyrir brennu, tilraun til manndráps og þrefalt manndráp. Hann var metinn ósakhæfur og skal sæta vistun á viðeigandi réttargæslustofnun. Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn í Héraðsdómi Reykjavíkur klukkan 15:00 í dag.
Ákærða er gert að greiða fyrrverandi íbúum á Bræðraborgarstíg bætur, sem nema allt frá 500 þúsund krónum upp í 11 milljónir. Allur sakarkostnaður verður greiddur upp úr ríkissjóði. Hægt er að lesa dóminn hér.
Þetta er í fyrsta skipti sem maður er ákærður fyrir að bana þremur en tvær konur og einn karlmaður létust í eldsvoðanum. Þetta er því stærsta manndrápsmál sem komið hefur fyrir íslenska dómstóla.
Í dómnum segir að ákærði hafi „verið fundinn sekur um mjög alvarleg brot sem höfðu hrikalegar afleiðingar“. Þá sé hafið yfir skynsamlegan vafa að nokkur annar en ákærði hafi getað verið valdur að brunanum.
Jafnframt kemur fram að útilokað sé að segja fyrir um það með vissu hvernig andlegri heilsu ákærða verði háttað til framtíðar. „Það liggur því fyrir að nauðsynlegt er að fylgjast náið með geðrænu ástandi hans, meta einkenni hans og þróun þeirra, stilla af lyfjameðferð og gera áhættumat. Telur dómurinn, sem skipaður er sérfróðum meðdómsmanni, að nauðsynlegt sé vegna réttaröryggis að ákærði sæti öryggisgæslu á viðeigandi stofnun. Þá þykir rétt að á þeim tíma gangist ákærði undir viðeigandi meðferð vegna veikinda sinna.“
Niðurstaðan kom varahéraðssaksóknara ekki á óvart
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari sagði við blaðamenn eftir dómsuppkvaðningu að niðurstaðan kæmi sér ekki á óvart og nú yrði dómurinn skoðaður og staðan metin. Ekki lægi fyrir hvort dómnum yrði áfrýjað.
Stefán Karl Kristjánsson, verjandi Mareks Moszczynski, sagði í samtali við blaðamenn að dómurinn um sýknu hefði verið niðurstaðan sem þeir bjuggust við. „Hann er metinn ósakhæfur og á ég eftir að skoða forsendur dómsins betur og fara yfir hann. Við hreyfðum við ákveðnum sjónarmiðum sem kalla á skýrari svör við en það er manía af völdum lyfja sem er mjög fátítt en eins og ég hef sagt áður þá er alltaf einhver sem veikist af sjaldgæfu sjúkdómunum.“
Hann sagðist ætla að heyra í skjólstæðingi sínum í dag, fara yfir dóminn og taka ákvarðanir um næstu skref. „Mér finnst grundvöllur fyrir því að skoða áfrýjun í ljósi þess að hann hefur ætíð haldið fram sakleysi sínu. Það kæmi mér á óvart ef ekki væri skoðað alvarlega að fara með málið áfram.“
Réttarhöldin hófust í lok apríl en ákæruvaldið fór fram á ævilangt fangelsi en öryggisvistun yrði hann dæmdur ósakhæfur. Marek sagðist saklaus og verjandi hans lagði meðal annars áherslu á að enginn hefði séð hann kveikja í og að á honum og fötum hans hefði ekki fundist ummerki á borð við bensín- eða reykjarlykt við handtöku.
Stefán Karl beindi sjónum að pari sem bjó á jarðhæð hússins og því að svo kynni að vera að Marek hefði verið í maníu vegna sýklalyfja daginn sem bruninn varð. Því ætti ekki að vista hann í öryggisgæslu, yrði hann fundinn sekur.
Neitaði alltaf sök
Marek Moszczynski er fæddur í Póllandi í desember árið 1957. Hann flutti til Íslands fyrir nokkrum árum til að vinna en í lok júnímánaðar síðasta sumar bárust tvær alvarlegar tilkynningar til neyðarlínunnar nær samtímis: Það var mikill eldur í húsi á Bræðraborgarstíg og karlmaður lét ófriðlega við rússneska sendiráðið í Garðastræti. Fljótlega var ljóst að atburðirnir tveir tengdust. Sá sem lögreglan handtók við sendiráðið bjó að Bræðraborgarstíg – í húsinu sem stóð í björtu báli að því er virtist á örskotsstundu.
Hinn handtekni var Marek. Þegar vaknaði grunur um að hann hefði kveikt eld í húsinu og notað til þess bensín, yfirgefið það svo strax og lagt leið sína að sendiráðinu í Garðastræti.
Hann hefur verið í varðhaldi síðan en héraðssaksóknari ákærði hann í haust fyrir brennu, manndráp og tilraun til manndráps sem og fyrir brot gegn valdstjórninni. Þá neitaði hann sök.
Glíma enn við afleiðingar áfallsins
Kjarninn hefur ítarlega fjallað um brunann á Bræðraborgarstíg en í þeirri umfjöllun kom meðal annars fram að bruninn hefði afhjúpað þær slæmu aðstæður sem útlendingar búa hér oft við. Í umfjölluninni var fjallað um húsið sjálft, eigendur þess og sögu og viðbrögð opinberra stofnanna og annarra við atburði sem á sér enga hliðstæðu á síðari tímum. Varpað var ljósi á framlag erlends verkafólks í aukinni hagsæld íslensku þjóðarinnar, á kjör þess og þær aðstæður sem það er látið búa við og hvernig þær aðstæður gátu skapast.
Fjallað var um samfélagið í Gamla Vesturbænum sem stóð þétt saman og reyndi eftir fremsta megni að rétta fórnarlömbunum, sem mörg hver hafa lítið tengslanet hér á landi, hjálparhönd og sagðar sögur þeirra sem komu fyrst á vettvang brunans.
Þungamiðja umfjöllunarinnar voru frásagnir þeirra sem lifðu af. Fólks sem kom til Íslands í leit að betra lífi en glímir nú við afleiðingar áfallsins sem á eftir að fylgja því alla ævi. „Ég hugsa stundum um það hvort að ég hefði getað leikið ofurhetju og bjargað þeim,“ sagði Vasile Tibor Andor sem komst út úr brennandi húsinu á síðustu stundu. „En ég veit innst inni að ég gat það ekki. Að þegar ég vissi af eldinum var það orðið of seint.“
Til stendur að rífa húsið í vikunni
RÚV greindi frá því í gær að rífa ætti það sem eftir stendur af húsinu við Bræðraborgarstíg 1 annað hvort í dag eða á morgun. Íbúar í hverfinu væru orðnir langþreyttir á að hafa rústirnar fyrir augunum.
„Þorpið vistfélag keypti húsið af félaginu HD verk sem var eigandi hússins þegar kviknaði í. Sigurður Smári Gylfason framkvæmdastjóri Þorpsins segir í samtali við fréttastofu að öll leyfi séu komin í hús til að hefja niðurrif og undirbúningur sé á lokametrunum,“ segir í fréttinni.