„Við höfum séð íbúa ríku þjóðanna flykkjast aftur á fótboltaleiki, á veitingahús og listviðburði. Þar er fólk jafnvel að mótmæla því að þurfa að framvísa bóluefnaskírteini áður en það fer inn á viðburð. Það sýnir að lífið er öðruvísi þar. Þar sem bólusetningarhlutfallið er hátt höfum við líka séð dánartíðni lækka stórkostlega. En við, íbúar Afríku, þurfum að hafa takmarkanir áfram og leggja mikið á okkur til að fá aðgang að bóluefni. Við þurfum að berjast fyrir því að staðið verði við þau loforð sem efnaðri þjóðir hafa gefið.“
Þetta sagði Matshidiso Moeti, læknir, sérfræðingur í lýðheilsu og yfirmaður Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) í Afríku, á blaðamannafundi sem fram fór á netinu í morgun. Blaðamaður Kjarnans fylgdist með og heyrði helstu sérfræðinga álfunnar segja frá stöðunni – ekki aðeins á faraldri COVID-19 heldur einnig faraldri heilahimnubólgu sem blossað hefur upp í Austur-Kongó og tilfelli ebólu á Fílabeinsströndinni sem vakið hefur upp skelfilegar minningar um faraldur þess banvæna sjúkdóms fyrir nokkrum árum. „Á hverjum einasta degi erum við að berjast við hópsýkingar af völdum alls konar sjúkdóma í Afríku,“ sagði Moeti.
Gjáin sem einkennt hefur skiptingu bóluefna milli heimshluta frá því að þau urðu aðgengileg hefur lítið grynnkað. Það er engu líkara en að sérfræðingar WHO séu að hrópa út í tómið. Lítil viðbrögð urðu við ákalli framkvæmdastjóra stofnunarinnar á dögunum sem biðlaði til efnaðri þjóða, sem vel væru komin á veg í bólusetningum, að bíða með að gefa örvunarskammta þar til í október. Hann gefst þó ekki upp og segir nú áríðandi að örvun bólusetninga verði frestað til næsta árs og að umframskammtar verði settir til þeirra sem meira þurfi á því að halda: Viðkvæmum hópum í fátækustu ríkjum heims.
COVAX-samstarfið, sem þjóðir heims gengu flestar inn í fyrir ári síðan með stórum loforðum um jafna dreifingu bóluefna, sendi frá sér dapurlega tilkynningu í gær. Markmiðið um að ná að bólusetja 40 prósent allra jarðarbúa fyrir árslok myndi ekki nást. Milljarður skammta sem efnaðri ríki hétu að gefa þeim fátækari væri langt utan seilingar. Að ná tíu prósent bólusetningarhlutfalli í Afríku fyrir lok september er ennfremur út úr myndinni. COVAX, sem ekki aðeins dreifir gjafaskömmtum heldur hefur einnig fjármagnað mikil bóluefnakaup biðlaði til þjóða sem von ættu á stórum bóluefnaskömmtum samkvæmt samningum við framleiðendur að gefa eftir sæti sitt í röðinni. Hleypa COVAX framfyrir. Og bjarga mannslífum.
Moeti tók undir þess áskorun COVAX á fundinum í morgun og ítrekaði, líkt og sérhver sérfræðingur sem hefur tjáð sig um málið, að það sé allra hagur, líka Vesturlandanna, að sem flestir verði bólusettir sem fyrst – alls staðar. Sú staðreynd að bólusetningarmarkmiðin náist ekki í Afríku þýðir einfaldlega, að hennar sögn, að framlengja þurfi samfélagslegar takmarkanir, bæði einstaklingsbundnar, s.s. grímunotkun og nálægðarreglum, og í stærra samhengi, s.s. með fjölda- og ferðatakmörkunum.
Bóluefni hent
Í síðustu viku dreifði COVAX fimm milljónum skammta til Afríkuríkja. „Þrefalt fleiri skömmtum hefur verið hent í Bandaríkjunum einum saman,“ segir Moeti. „Þeir skammtar hefðu dugað til að bólusetja alla yfir átján ára aldri í Líberíu, Máritaníu og Gambíu. Hver einasti skammtur er dýrmætur og getur bjargað mannslífi. Ef þau lönd sem framleiða bóluefni og fyrirtækin sem það gera myndu forgangsraða með jöfnuð að leiðarljósi væri hægt að stöðva faraldurinn fljótt.“
Fyrr í vikunni ítrekuðu leiðtogar G20-ríkjanna, sambands tuttugu efnuðustu ríkja heims, stuðning sinn við það markmið að bólusetja 40 prósent íbúa allra þjóða. „Þessum góðu áformum þurfa að fylgja skýrar aðgerðir og fjármögnun til baráttunnar gegn COVID-19,“ segir Moeti.
Yfir 40 prósent jarðarbúa hafa fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni. En aðeins 5,5 prósent allra Afríkubúa hafa fengið einn skammt og aðeins 3,2 prósent þeirra eru fullbólusettir.
Meira en áríðandi
Til að ná því að bólusetja tíu prósent allra Afríkuþjóða þarf 240 milljónir skammta af bóluefni. Bjartsýnasta spáin er sú að 50 milljónir skammta muni vanta upp á. „Þetta er meira en áríðandi,“ sagði Richard Mihigo, sérfræðingur í ónæmisfræðum hjá WHO í Afríku á fundinum í morgun. „Við verðum að tryggja að viðkvæmustu hóparnir okkar verði bólusettir fyrir árslok.“
Að minnsta kosti 200 þúsund manns hafa dáið úr COVID-19 í álfunni hingað til. Heilbrigðisupplýsingar eru oft ekki áreiðanlegar í löndum Afríku og því ber að taka slíkri tölfræði með ákveðnum fyrirvara. Líklega er alvarleikinn meiri.
Delta-afbrigðið er langútbreiddast en þar sem fæst lönd hafa aðstöðu til að raðgreina veirurnar er útbreiðsla þess og annarra afbrigða ekki að fullu ljós. „Að vita hvaða afbrigði eru að breiðast út og hvar er nauðsynlegt til að meta hvaða viðbragða er þörf,“ segir Moeti og tilkynnti að WHO hefði ákveðið að setja fjármuni og tækniþekkingu til uppbyggingar raðgreiningarmiðstöðvar í Suður-Afríku sem myndi þjóna allri álfunni.
Spurð um andstöðu fólks við að láta bólusetja sig segir hún hana miklu minna vandamál en skort á bóluefnum. Andstaðan hafi verið áberandi í einstökum löndum, til dæmis í Austur-Kongó. Þar hafi hún verið svo mikil að stjórnvöld hafi ákveðið að láta af hendi bóluefni til annarra ríkja svo þau færu ekki til spillis. En viðsnúningur hefur orðið hvað þetta varðar í flestum ríkjum álfunnar. Það sýna nýlegar kannanir. Flestir vilja þiggja bóluefni. Moeti segir að lykilatriði sé að fræða fólk um mikilvægi bólusetninga og koma til þess réttum upplýsingum og reyna að hefta útbreiðslu falsfrétta. „Stóra vandamálið er að fá bóluefni.“
Í þriðju bylgjunni sem gekk yfir Afríku í sumar, sem er sú skæðasta frá upphafi faraldursins, stóðust heilbrigðisstofnanir margra landanna ekki álagið. Þær voru veikar fyrir, að berjast við slæman aðbúnað á alla þá vegu sem hugsast getur: Það er skortur á menntuðu starfsfólki. Grundvallar tækjabúnaði. Súrefni. Hlífðarfatnaði. Og svo framvegis og svo framvegis.
Hvað skýrir niðursveiflu?
Þessi bylgja virðist nú almennt í rénun. Nýgreindum tilfellum hefur fækkað um fjórðung á einni viku. „Þetta er uppörvandi,“ segir Moeti en minnir á að staðan núna sé þó enn verri en á hápunkti fyrri tveggja bylgjanna. „Við erum að sjá niðursveiflu núna almennt í álfunni en hún telur 54 ríki og í sumum þeirra er faraldurinn í vexti.“
Kjarninn spurði Moeti hvað gæti helst skýrt niðursveifluna og nefndi hún tvennt: Bólusetningar, þótt þær væru vissulega skammt á veg komnar í flestum ríkjum, og svo samfélagslegar aðgerðir sem gripið var til innan einstakra landa. Þar má nefna útgöngubann að kvöldi og nóttu, lokun þjónustufyrirtækja á borð við veitingastaði og bann við fjöldasamkomum. Fólk hafi einnig þurft að ástunda ítarlegar, persónubundnar sóttvarnir. „En það er farsóttarþreyta, fólk er þreytt á því að þurfa að bera grímur, halda fjarlægð. Það þráir eðlilegt líf á ný. Og þess vegna þarf stöðugt að minna fólk á til að halda því við efnið. Því miður þá þurfum við að halda þessum aðgerðum áfram lengur en ef við hefðum fengið bóluefni fyrr til Afríku.“