Eitt mál er varðar kynferðislega áreitni eða ofbeldi hefur borist til stjórnenda Vegagerðarinnar á síðustu fjórum árum en engar ásakanir um slíkt hafa komið fram hjá Samgöngustofu.
Þetta kemur fram í svari stofnananna við fyrirspurn Kjarnans.
Samkvæmt svari Vegagerðarinnar var málið tekið mjög alvarlega og var fenginn utanaðkomandi ráðgjafi til að vinna úr málinu fyrir þau. „Það er ferill um viðbrögð sem verið að endurskoða hann núna, líkt og alla aðra ferla mannauðs- og öryggisdeildar,“ segir jafnframt í svari Vegagerðarinnar.
Verklagið í endurskoðun hjá Samgöngustofu
Ekkert mál hefur hins vegar borist á borð stjórnenda Samgöngustofu, eins og áður segir. „Hjá Samgöngustofu er fyrir hendi skýrt verklag um meðferð mála sem upp kunna að koma, svo sem um einelti eða áreitni,“ segir í svarinu. Áætlun Samgöngustofu gegn einelti og áreitni hefur verið í gildi frá árinu 2014. Endurskoðun verklagsins er í ferli „eins og eðlilegt er að gera með reglubundnum hætti“, segir í svarinu.
Í eineltisáætlun Samgöngustofu kemur fram að markmið hennar sé að stuðla að forvörnum og aðgerðum gegn einelti hjá stofnuninni og leggi stofnunin áherslu á að starfsmenn sýni samstarfsfólki sínu alltaf kurteisi og að komið sé fram við sérhvern starfsmann af virðingu.
„Einelti og kynferðisleg áreitni verður undir engum kringumstæðum umborin á vinnustaðnum og er meðvirkni starfsmanna í einelti fordæmd,“ segir meðal annars í áætluninni.