Ekki hefur komið til tals að krefja bólusett ferðafólk um að skila neikvæðum niðurstöðum PCR prófs við komuna til landsins en frá 1. júlí hefur nægt að framvísa fullgildu bólusetningarvottorði við komu. Þetta segir Hjördís Guðmundsdóttir upplýsingafulltrúi Almannavarna í samtali við Kjarnann. Ferðafólk sem ekki er fullbólusett þarf engu að síður að fara í tvöfalda skimun við komuna til landsins með fimm daga sóttkví á milli. Hjördís segir fyrirkomulagið haldast óbreytt á meðan staðan sé góð en gildandi takmarkanir og sóttvarnir séu stöðugt til endurskoðunar.
Tvö smit greindust innanlands í gær og voru þeir einstaklingar báðir bólusettir. Engin augljós tengsl eru þeirra á milli.
Spurð að því hvort aukning hafi orðið í greindum smitum á landamærunum upp á síðkastið segir Hjördís að lændamærasmitum hafi fjölgað eitthvað á síðustu dögum og vikum en ekki mikið og vísaði í viðtal fréttastofu RÚV við Þórólf Guðnason sóttvarnalækni frá því í gær. Þar kom fram að 29 ferðamenn hefðu greinst við landamærin, þar af var um helmingur bólusettur. Sex innanlandssmit í júlí hefði mátt rekja til þessara landarmærasmita.
Líkt og áður segir þá þurfa fullbólusettir ferðamenn, íslenskir sem erlendir, ekki að skila vottorði um neikvætt PCR próf við komuna til landsins. Hins vegar er gerð krafa um neikvætt PCR próf við komu til annarra landa og það er þá sem að bólusettir ferðamenn greinast. „Fólk er að fara aftur erlendis eða heim til sín og þá fer það í PCR próf því það land óskar eftir því prófi og þá kemur það inn í tölurnar okkar,“ segir Hjördís. Smit sem greinist þannig telst til landamærasmits en ekki sem innanlandssmit þrátt fyrir að hinir smituðu hafi verið á ferð um landið.
Vikuleg uppfærsla á covid.is
Spurð að því hvort til greina komi að uppfæra tölulegar upplýsingar á covid.is oftar en einu sinni í viku líkt og verið hefur að undanförnu segir Hjördís ekki stefnt að því í bráð. „Meðan smit í samfélaginu var eins og það var og er búið að vera þá teljum við ekki þurfa að gefa upp þessi fáu smit sem hafa verið,“ segir Hjördís.
Hún bendir þó á að þegar upp komi smit utan sóttkvíar, líkt og gerðist í gær, þá sé send út tilkynning. Það sé gert vegna þess að smit sem greinist utan sóttkvíar geti haft samfélagsleg áhrif. „Eins og er ætlum við að halda þessu svona,“ segir Hjördís um vikulega uppfærslu talna á covid.is.