„Það er ekki til neinnar sérstakrar skoðunar að lengja tímann á milli fyrstu og annarrar sprautu hjá Pfizer og Moderna,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í svari við fyrirspurn Kjarnans. Tólf vikur eru látnar líða hér á landi á milli fyrstu og annarrar sprautu af bóluefni AstraZeneca en aðeins þrjár vikur í tilfelli Pfizer og Moderna.
Í Bretlandi hafa yfir 32 milljónir fengið fyrri sprautuna og um sjö milljónir þær báðar og eru því fullbólusettar. Þar í landi er stefnt að því að í lok mánaðar verði allir fimmtíu ára og eldri búnir að fá fyrri skammtinn og í lok júlí verði allir fullorðnir í þeirri stöðu. Snemma í janúar tóku stjórnvöld þá ákvörðun að hraða bólusetningu sem mest og gefa sem flestum fyrri sprautuna af bóluefni Pfizer og seinna AstraZeneca sem fengið hafa markaðsleyfi þar í landi. Allt að tólf vikur eru látnar líða á milli fyrri og seinni sprauta sem er mun lengri tími en í fyrstu var ráðlagt af Pfizer miðað við niðurstöður klínískra rannsókna.
Þessi stefnubreyting varð til þess að nær hvergi í heiminum hafa hlutfallslega fleiri verið bólusettir með fyrri skammti en í Bretlandi. Rúmlega sextíu prósent allra íbúa Englands, átján ára og eldri, hafa fengið fyrri skammtinn en aðeins um 11 prósent báða skammtana. Í Wales og Skotlandi er hlutfallið svipað en nokkru lægra á Norður-Írlandi þar sem um 55 prósent fullorðinna hafa fengið fyrri skammtinn.
Þessi leið er nú einnig farin í Kanada. Heilbrigðisyfirvöld þar ákváðu nýverið að skipta um kúrs og gefa sem flestum fyrri skammtinn. Ýmsir sérfræðingar í smitsjúkdómum hafa bent á að þessa sömu leið væri nú farsælast að fara í Bandaríkjunum. Í grein New York Times um málið er því haldið fram að ein helsta ástæða

þess að svo stuttur tími var ráðlagður milli skammta af Pfizer og Moderna bóluefnunum sé sú að þannig hafi skammtarnir verið gefnir í klínískum rannsóknum og þá til að flýta því ferli. Í þessum rannsóknum var því ekki prófað hvort að lengri tími milli skammta gæfi sömu raun – eða jafnvel betri. Þetta varð til þess að bólusetningar gegn COVID-19 gátu hafist þegar í desember.
Í Bandaríkjunum hefur bæði tilfellum af kórónuveirunni og innlögnum á sjúkrahús fjölgað á síðustu dögum. Dauðsföllum hafði farið fækkandi en nú haldast dánartölurnar svipaðar dag frá degi. Því er það mat nokkurra sérfræðinga að breyta um stefnu og feta í fótspor Breta og Kanadamanna.
Spurður um þetta bendir Þórólfur sóttvarnalæknir á að það geti haft kosti að lengja tíma milli sprauta þar sem útbreiðsla á faraldrinum er mikil líkt og átt hefur við bæði Bandaríkin og Bretland. „En það getur líka haft ókosti,“ segir hann, „til dæmis minni vörn og hugsanlega meiri líkur á að fram komi ný og verri afbrigði. Það er þó ósannað.“

Fleiri vísindamenn hafa viðrað þessar áhyggjur. Þess vegna hefur Anthony Fauci, helsti ráðgjafi Joe Bidens forseta í baráttunni við kórónuveiruna, lagst gegn því að lengja tíma milli skammta. Aðrir sérfræðingar hafa bent á að þetta séu aðeins kenningar, engar sannanir séu fyrir því að afbrigði kórónuveirunnar séu líklegri til að þróast í fólki sem hafi aðeins fengið fyrri skammt bóluefnis og hafa bent á að breska-leiðin sé að skila árangri. Svipaður fjöldi skammta af bóluefnum hefur verið gefinn í Bretlandi og Bandaríkjunum miðað við höfðatölu. Munurinn er hins vegar sá að Bretar hafa vísvitandi seinkað seinni sprautunni. Þar er faraldurinn á niðurleið í augnablikinu, mun hraðar en vestanhafs. Bæði nýjum smitum og dauðsföllum hefur fækkað hratt. Óvissuþættirnir felast þó í nýjum afbrigðum kórónuveirunnar líkt og Þórólfur nefnir, og eins því að svo virðist sem það sé misjafnt eftir aldri fólks hversu lengi virkni af fyrri skammti t.d. Pfizer-bóluefnisins helst án þess seinni og hversu góð hún er. Því eldra sem fólk er þeim mun minni virðist vörnin af fyrri skammti vera og vara skemur.