Svarhlutfall einstaklinga með erlendan bakgrunn í lífskjararannsókn Hagstofu er tæplega helmingi lægra en hjá öðrum sem valdir eru í rannsóknina. Hagstofan segist þó taka tillit til þessa misræmis í rannsókninni með því að vigta svör þeirra meira svo þau endurspegli samsetningu aldurs, kynja, bakgrunns og heildarlauna í samfélaginu. Þetta kemur fram í svari stofnunarinnar við fyrirspurn Kjarnans.
Kjarninn hefur áður fjallað um lífskjararannsóknina, en hún er framkvæmd árlega og er hluti af samræmdri lífskjararannsókn Evrópusambandsins, sem ber saman lífskjör milli Evrópulanda á milli ára. Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum úr rannsókninni fækkaði þeim heimilum sem áttu erfitt með að ná endum saman hér á landi í fyrra og hafa þau hlutfallslega aldrei mælst færri, en tæplega 19 prósent þjóðarinnar segja að húsnæðiskostnaður sé þung fjárhagsleg byrði.
Rannsókn Hagstofu byggir á svörum frá einstaklingum sem eru valdir í hátt í fimm þúsund manna slembiúrtak úr Þjóðskrá um heimilisaðstæður sínar. Nýtt úrtak er valið á hverju ári, en einstaklingar og heimilin þeirra eru í úrtaki í fjögur ár í senn.
Anton Örn Karlsson, deildarstjóri hjá Hagstofu, sagði í samtali við Kjarnann að lækkandi svarhlutfall væri vandamál í úrtakskönnunum um allan heim. Einnig sé markverður munur á svarhlutfalli eftir bakgrunni fólks í úrtakinu, en líkt og sést hér að neðan hefur það verið tæplega helmingi lægra hjá einstaklingum með erlendan bakgrunn, miðað við aðra, síðustu þrjú árin.
Samkvæmt Antoni er tekið tillit til misræmis á svarhlutfalli á milli hópa með því að finna réttar vigtir fyrir svör viðmælenda eftir aldri, kyni, bakgrunni og heildarlaunum þeirra. Þvi sé ekki þar með sagt að niðurstöður lífskjararannsóknarinnar séu bjagaðar þótt misræmi sé á svarhlutfalli eftir bakgrunni einstaklinga.
Innflytjendur í verri félagslegri stöðu
Aðspurður um hvort lífskjör þeirra sem svöruðu könnuninni væru mismunandi eftir bakgrunni þeirra sagði Anton að deildin hafi ekki rannsakað það sérstaklega og að það stæði ekki til á næstunni.
Þó benti hann á samantekt frá árinu 2019 um stöðu innflytjenda hérlendis, en samkvæmt henni eru meðaltekjur að jafnaði lægri hjá innflytjendum. Enn fremur séu þeir líklegri til að vera á leigumarkaði en innfæddir, auk þess sem fleiri þeirra búa þröngt. Sömuleiðis hafa hlutfallslega fleiri innflytjendur upplifað íþyngjandi húsnæðiskostnað heldur en innfæddir.
Eftir hrun ferðaþjónustugeirans vegna heimsfaraldursins hefur atvinnuleysi innflytjenda einnig stóraukist. Í janúar í fyrra, þegar almennt atvinnuleysi mældist 11,6 prósent samkvæmt Vinnumálastofnun, var það í 24 prósentum á meðal innflytjenda.
Í lok desember 2021 voru svo rúmlega 42 prósent allra atvinnulausra á Íslandi erlendir ríkisborgarar, þrátt fyrir að vera innan við 15 prósent af mannfjöldanum. Erlendum ríkisborgurum fjölgaði svo í hópi atvinnulausra í jólamánuðinum.
Mikil fjölgun innflytjenda á síðustu árum
Á áratug hefur erlendum ríkisborgurum sem búa hérlendis fjölgað um 33.840 alls, eða 162 prósent, samkvæmt samantekt Hagstofu Íslands. Rúmlega 44 prósent þeirra settist að í Reykjavík og tæplega 12 prósent í Reykjanesbæ, en þar hefur erlendum ríkisborgurum fjölgað um úr 1.220 í 5.130 á áratug, eða um 320 prósent.
Á sama tíma fjölgaði erlendum ríkisborgurum í Garðabæ, Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi samanlagt um 1.590. Það þýðir að tæplega fimm prósent þeirra erlendu ríkisborgara sem fluttu til Íslands frá árslokum 2011 hafa sest að í þeim sveitarfélögum.
Landsmönnum öllum hefur fjölgað um 56.440 síðastliðinn áratug og voru 376.000 um síðustu áramót. Það þýðir að 60 prósent fjölgunar landsmanna á síðastliðnum áratug hefur verið vegna aðflutnings fólks hingað til lands sem er af erlendu bergi brotið.
Mest var fjölgunin á árunum 2017 og 2018, þegar ferðaþjónustugeirinn var í mestum vexti, en á þeim tveimur árum fjölgaði erlendum ríkisborgurum sem búa hér um 13.930 alls. Á sama tíma fjölgaði landsmönnum öllum um 18.600. Því voru innflytjendur ábyrgir fyrir 75 prósent af mannfjöldaaukningu á þessum tveimur árum.
Brottfallsskekkja áður leitt til misræmis
Hagstofan hefur áður átt í vandræðum með mælingar sínar vegna brottfallsskekkju, en mikill munur var á atvinnuleysistölum úr vinnumarkaðskönnun hennar og mældu atvinnuleysi samkvæmt Vinnumálastofnun stuttu eftir að faraldurinn hófst. Samkvæmt Hagstofunni var ein útskýring á því misræmi sú að um var að ræða mismunandi mælingar byggðar á mismunandi skilgreiningum, en einstaklingar sem fengu atvinnuleysisbætur voru einnig ólíklegri til að svara könnuninni heldur en þeir sem fengu ekki þess háttar bætur.
Til þess að leiðrétta þessa skekkju breytti Hagstofan úrvinnsluaðferðum sínum í vinnumarkaðskönnuninni í fyrra, en samkvæmt stofnuninni bentu nýjar mæliaðferðir til þess að atvinnuleysi hafi verið nokkuð vanmetið fram að því.