Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ákvað á miðvikudaginn að veita undanþágu á reglum um ríkisstuðning svo aðildarríki sambandsins geti stutt fyrirtæki sem hafa orðið fyrir miklum tekjumissi vegna hærra orkuverðs eða viðskiptaþvingana við Rússland. Stuðningurinn getur annað hvort verið í formi styrkja eða ríkisábyrgðar á lánum. Þetta kemur fram í frétt Reuters sem birtist í gær.
Samkvæmt fréttinni geta fyrirtækin sem viðskiptaþvinganirnar hafa bitnað á nú fengið allt að 400 þúsund evrur í ríkisstyrki, en það jafngildir um 57 milljónum króna. Hámarksstyrkurinn hjá hverju sjávarútvegs-, landbúnaðar- og fiskeldisfyrirtæki nemur aftur á móti 35 þúsundum evra, eða um fimm milljónum króna.
Til viðbótar við þetta mega fyrirtæki sem eru í lausafjárvandræðum vegna ástandsins nú fá ríkisábyrgð á lánum sínum.
Meiri styrkur vegna hærri orkukostnaðar
Fyrirtæki sem eru í fjárhagsvandræðum vegna hærri orkukostnaðar geta hins vegar fengið enn meiri stuðning frá hinu opinbera, en Reuters greindi frá því á þriðjudaginn að ríkið gæti greitt allt að 30 prósent af kostnaði þeirra. Þó má styrkurinn ekki vera meiri en tvær milljónir evra, eða um 284 milljónir íslenskra króna.
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Evrópusambandið slakar á reglum um ríkisstuðning, en fyrir tveimur árum síðan veitti framkvæmdastjórn sambandsins undanþágu á þeim svo að aðildarríki þess gætu stutt við fyrirtæki sem urðu illa úti vegna heimsfaraldursins.
Orkufyrirtæki skattlögð
Líkt og Kjarninn greindi frá fyrr í vikunni mega orkufyrirtæki í álfunni sem græddu á hækkandi orkuverði hins vegar búast við eingreiðsluskatti. Tekjurnar af þeirri skattheimtu yrðu síðan nýttar í stuðningsaðgerðir fyrir tekjulág heimili og fyrirtæki til að sporna gegn neikvæðum áhrifum orkuverðshækkananna.
Ríkisstjórn Ítalíu hefur nú þegar ákveðið að skattleggja orkufyrirtækin þar í landi til að fjármagna aðgerðaráætlun fyrir tekjulág heimili, samkvæmt frétt Bloomberg frá því fyrir helgi. Þar munu fyrirtæki í geiranum sem juku hagnað sinn um meira en fimm milljónir evra – sem jafngildir um 715 milljónum íslenskra króna – þurfa að greiða 10 prósenta eingreiðsluskatt á hagnaðinn sinn.