Dimitris Avromopoulos, yfirmaður flóttamannamála hjá Evrópusambandinu (ESB), átelur Ungverjum fyrir harkaleg viðbrögð við straumi flóttamanna og hælisleitenda til landsins. Ungverjar hafa lokað landamærum sínum að Serbíu og sigað óeirðalögreglu á flóttamenn svo þeir komist ekki til landsins. Fréttastofan Reuters greinir frá þessu.
Á blaðamannafundi með utanríkis- og innanríkisráðherrum Ungverjalands sagði Avromopoulos megnið af flóttafólkinu sem kemst til Evrópu „Sýrlendinga sem þurfa á okkar aðstoð að halda“. „Það er ekki til sá veggur eða það haf sem þú reyndir ekki að komast yfir ef þú flýrð ofbeldi og hrylling,“ sagði hann og bætti við að girðingar Ungverja gætu aðeins verið skammtímalausn og aðeins til þess fallnar að senda flóttafólkið annað. Um leið eykst ósættið.
Dimitris Avramopoulos (fyrir miðju) ræðir við innanríkisráðherran Sandor Pinter (til vinstri) og utanríkisráðherran Peter Szijjarto.
Kjarninn greindi frá því í morgun að Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, væri brugðið vegna aðgerða Ungverja gegn flóttamönnum við landamæri landsins. Sú meðferð væri óásættanleg.
Utanríkisráðherran ungverski, Peter Szijjarto, gagnrýndi hins vegar embættismenn Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna. Hann sagði stofnanirnar taka stöðu með flóttafólkinu sem stæði aðeins fyrir uppþoti með því að grýta ungverska lögreglumenn í átökum þar sem 20 særðust. Flóttafólkið væri með því að hvetja til ofbeldis.
Djúpur ágreiningur um það hvernig á að takast á við straum fólks sem flýr átök og stríð fyrir botni Miðjarðarhafs og í Mið-Austurlöndum er milli aðildarríkjanna 28 í Evrópusambandinu. Nýverið kynnti Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar sambandsins, viðbragðsáætlun um það hvernig lönd sambandsins dreifi ábyrgðinni á að hjálpa flóttafólkinu. Lang flestir komast inn fyrir landamæri ESB í Grikklandi, Ítalíu og Ungverjalandi.