Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandins, hefur kynnt enn frekari viðurlög vegna innrásar Rússlands í Úkraínu, í kjölfar fundar framkvæmdastjórnarinnar fyrr í dag þar sem var ákveðið að Evrópusambandið myndi fjármagna og koma til skila hergögnum til Úkraínu.
Tilkynnir von der Leyen um aðgerðirnar á Twitter-aðgangi sínum, þar sem segir Evrópusambandið ætla að bæta enn við þær víðtæku þvingunaraðgerðir sem kynntar voru í gær.
Í fyrsta lagi verði lofthelgi Evrópusambandsins lokað fyrir umferð flugvéla skráðra í Rússlandi, sem muni ekki geta lent eða tekið á loft á landsvæði sambandsins eða flogið yfir lofthelgi þess. Þetta eigi einnig við um einkaflugvélar rússneskra ólígarka.
Í öðru lagi verði lagt algert bann við því sem hún kallar fjölmiðlamaskínu Kreml í Evrópu. Þannig muni ríkisreknu rússnesku fjölmiðlarnir Russia Today og Sputnik, og undirmiðlar þeirra, ekki geta dreift lygum sínum til að réttlæta stríð Vladimírs Pútín Rússlandsforseta.
Í þriðja lagi verði ráðist í aðgerðir gegn hinum árásaraðila stríðsins, stjórn Alexanders Lukashenko Hvíta-Rússlandsforseta, með áherslu á helstu atvinnugreinar landsins.
Þá hælir hún hugrekki Volodymyrs Zelenzkyy, forseta Úkraínu, sem og seiglu úkraínsku þjóðarinnar og segir Evrópusambandið taka opnum örmum á móti fólki á flótta frá Úkraínu vegna átakanna, auk þess sem sambandið muni styðja við þær nágrannaþjóðir Úkraínu sem tekið hafi við flóttafólki.
We are stepping up our support for Ukraine.
— Ursula von der Leyen (@vonderleyen) February 27, 2022
For the first time, the EU will finance the purchase and delivery of weapons and equipment to a country under attack.
We are also strengthening our sanctions against the Kremlin.
https://t.co/qEBICNxYa1