Facebook, eitt verðmætasta fyrirtæki í heimi, hefur breytt nafni sínu í Meta. Mark Zuckerberg, forstjóri og stofnandi Facebook, tilkynnti þetta í dag á viðburði á vegum fyrirtækisins.
Zuckerberg sagði að Facebook-nafnið fangaði ekki lengur allt sem fyrirtækið gerir og heildin væri of tengd við eina vöru, þ.e. Facebook samfélagsmiðilinn. Hann vonast til þess að með tíð og tíma verði litið á Meta sem svokallað „metaverse“ fyrirtæki.
Hagnaður Facebook á þriðja ársfjórðungi nam níu milljörðum dollara, eða sem nemur rúmum 1.166 milljörðum króna. Þá hefur notendum samfélagsmiðilsins fjölgað um sex prósent síðustu tólf mánuði og eru nú 2,9 milljarðar. Hagnaðurinn á sama tíma í fyrra var 7,8 milljarðar dollarar, eða sem nemur rúmum 1.010 milljörðum króna.
Samspil raunveruleika og sýndarveruleika
Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að til stæði að tilkynna nafnabreytingu fyrirtækisins á árlegri ráðstefnu Facebook, Connect, sem fór fram í dag, 28. október. Samfélagsmiðillinn Facebook eins og við þekkjum hann mun þó ekki breytast mikið. Nafn fyrirtækisins, Facebook, er það sem breytist en samfélagsmiðillinn Facebook fer undir hatt fyrirtækisins líkt og Instagram, Whatsapp og Oculus, smáforrit og samfélagsmiðlar sem eru í eigu Facebook.
Hugtakið Metaverse á rætur sínar að rekja í vísindaskáldsöguna Snow Crash eftir Neal Stephensen sem kom út árið 1992. Metaverse vísar í samspil raunveruleika og sýndarveruleika. Facebook sér metaverse fyrir sér sem veröld á netinu þar sem notendum er nánast ekkert óviðkomandi. Í metaverse er hægt að sinna vinnu, leikjum og samskiptum í sýndarveruleika. „Metaverse“ „verður það sem skiptir máli, og ég held að þetta verði stór hluti af þróun internetsins eftir að það varð aðgengilegt í símum,“ sagði Zuckerberg í samtali við The Verge í sumar.
Þróunin er hafin. Í dag starfa um 10 þúsund starfsmenn Facebook að uppbyggingu sem snýr að „metaverse“, meðal annars við þróun og hönnun á sýndarveruleikagleraugum sem verða ómissandi hluti af „metaverse“.
Zuckerberg er því sannfærður um að gleraugun verði jafn ómissandi og snjallsímar áður en langt um líður.
Ein helsta áskorun Facebook verður án efa að sannfæra notendur um ágæti „metaverse“, hugtaks sem hefur í raun ekki fengið merkingu meðal almennings enn sem komið er.
Það gæti þó breyst nú, þegar þetta risastóra fyrirtæki, Facebook, hefur breytt nafninu sínu í Meta.