Jenis av Rana, utanríkis- og menntamálaráðherra landsstjórnarinnar í Færeyjum, hyggst ekki láta bólusetja sig við COVID-19. Í samtali við færeyska vefmiðilinn Vágaportalurin segir Jenis að of mikil óvissa sé um langtímaáhrif bóluefnis og að hann vilji ekki þiggja bóluefni fyrr en langtímaáhrif þeirra hafa verið rannsökuð.
Jenis gengur þar með gegn tilmælum sinnar eigin ríkisstjórnar sem hefur hvatt fólk til að láta bólusetja sig. Spurður að því hvort Janis telji færeysku ríkisstjórnina hafa gert mistök með því að mæla með bólusetningum segir Janis svo ekki vera. Það sé hans ákvörðun að þiggja ekki bóluefnið og hans skoðun endurspegli ekki skoðun ríkisstjórnarinnar til bólusetningar.
Ráðherrann er einnig spurður að því hvort hann ráðleggi fólki frá því að láta bólusetja sig. Það gerir Jenis ekki, hann segist hvorki geta mælt með eða gegn bóluefni á þessu stigi málsins. Aftur á móti hvetur hann fólk til þess að taka sjálft ákvörðun um hvort það þiggi bólusetningar.
Rúmlega helmingur Færeyinga fengið bóluefni
Allir Færeyingar, 16 ára og eldri, eiga rétt á bólusetningum án endurgjalds. Rúmlega helmingur Færeyinga hafa fengið að minnsta kosti eina sprautu af bóluefni en allir Færeyingar, 16 ára og eldri, eiga rétt á ókeypis bólusetningum. Samkvæmt upplýsingum á vef færeyskra heilbrigðisyfirvalda sem uppfærðar voru í vikunni hafa tæp 15 prósent Færeyinga fengið seinni skammt bóluefnis en 36 prósent fyrri skammt.
Nú hafa alls 670 greinst með COVID-19 í Færeyjum. Eins og staðan er núna eru tvö virk smit í eyjunum og fimm í sóttkví. Frá upphafi kórónuveirufaraldursins hefur einn einstaklingur látist af völdum veirunnar í Færeyjum.
Neitaði að sitja til borðs með Jóhönnu Sigurðardóttur
Jenis av Rana rataði í fréttirnar hér heima fyrir rúmum tíu árum síðan vegna framkomu sinnar í garð Jóhönnu Sigurðardóttur sem þá var forsætisráðherra. Jenis ákvað að mæta ekki í kvöldverðarboð sem haldið var með Jóhönnu og eiginkonu hennar þegar Jóhanna fór í opinbera heimsókn til Færeyja í september árið 2010.
Jenis hefur verið formaður kristilega Miðflokksins í Færeyjum frá árinu 2001 en flokkurinn hefur barist gegn réttindum samkynhneigðra í Færeyjum. Framkoma hans vakti mikla athygli hér á landi en í viðtali við Vágaportalurin sagði Jenis að honum dytti ekki í hug að sitja veisluna, heimsókn Jóhönnu væri hrein ögrun og ekki í samræmi við boðskap Biblíunnar. Kaj Leo Johannessen, þáverandi lögmaður Færeyja, sagði Jenis av Rana að hann ætti að skammast sín fyrir ummælin.