Talið er að gas sé hætt að leka út um göt á gasleiðslunum Nord Stream 1 og 2 í Eystrasalti. Engin ummerki sjást lengur á yfirborði sjávar um gasstreymi. Gríðarlegt magn metangass hefur sloppið beint út í andrúmsloftið síðustu daga eða frá því að sprengingar urðu á hafsbotni í byrjun síðustu viku. Fjögur göt hið minnsta eru á leiðslunum sem liggja frá Rússlandi og til Þýskalands. Sprengingarnar urðu í nágrenni dönsku eyjunnar Borgundarhólms og eitt gatanna er innan efnahagslögsögu Dana og annað innan lögsögu Svía. Tvö eru talin vera á alþjóðlegu hafsvæði.
Nú þegar gas er hætt að leka út úr leiðslunum hefst nýr kafli í rannsókn málsins. Dönsk og sænsk stjórnvöld hafa tekið höndum saman við rannsóknina og hafa skip á vegum herja landanna þegar verið send á vettvang.
Danska ríkisútvarpið greindi frá því í morgun að her-, strandgæslu- og lögregluyfirvöld í Danmörku haldi spilunum nú þétt að sér og vilji ekkert gefa upp um hver næstu skref í rannsókninni séu. Ljóst er að senda þarf kafara eða kafbáta niður að götunum á leiðslunum því talið er að lögun gatanna og önnur ummerki á svæðinu gætu gefið vísbendingar um hvað olli sprengingunum. Danskir stjórnmálamenn hafa þegar sagt um viljaverk hafi verið að ræða en ekki óhapp af einherju tagi. Spjótin beinast að Rússlandi og hafa m.a. úkraínsk og pólsk stjórnvöld óhikað sagt að Rússar beri ábyrgð á verknaðinum.
Danska orkustofnunin segir að þrátt fyrir að engin ummerki um gasleka sjáist á yfirborði sjávar og að gas sé hætt að leka út um götin þýði það ekki að leiðslurnar séu orðnar tómar heldur að þrýstingur inni í þeim og umhverfis þær sé orðinn jafn.
Í síðustu viku voru sérfræðingar opinberra stofnanna ákafir í að tjá sig um gaslekann mikla. Nú er hins vegar komið annað hljóð í strokkinn – það er að segja ekkert hljóð – því þessir sömu sérfræðingar vilja ekkert segja núna. „Við munum ekki tjá okkur um atburðina í Eystrasalti vegna öryggissjónarmiða,“ hefur DR eftir samskiptastjóra dönsku varnarmálastofnunarinnar. Sömu svör hafa fréttamenn sænskra fjölmiðla fengið í morgun. Enginn vill tjá sig um stöðuna í augnablikinu þar sem rannsókn málsins er sögð á viðkvæmu stigi.
Frá því að lekinn uppgötvaðist hefur hafsvæðið verið lokað allri umferð skipa og flugfara í ákveðinni hæð.
Meðal skipa sem nú eru á svæðinu þar sem gaslekinn átti sér stað er freigátan Absalon. Hún er í eigu danska hersins og er útbúin bæði vopnum og ratsjám til rannsókna á hafsbotni. Einnig eru þar sænsk, norsk, þýsk og og frönsk herskip. Þá hafa herþyrlur sveimað yfir svæðinu í dag. „Ég tjái mig ekki um hvernig rannsókninni verður háttað en ég get greint frá því að þetta er glæpavettvangur að mati sænskra yfirvalda og að öryggislögreglan og embætti saksóknara hafa yfirumsjón með rannsókninni,“ segir Jimmie Adamsson, samskiptastjóri sænska sjóhersins.
Bent hefur verið á að þar sem að minnsta kosti tvö göt gasleiðslunnar eru á alþjóðlegu hafsvæði sé óvissa um hver eigi að bera ábyrgð og framkvæma rannsókn á því sem gerðist. Fleiri ríki gætu talið sig eiga rétt að rannsaka vettvanginn, m.a. Rússar.
Hins vegar þykir víst að sprengingarnar urðu innan efnahagslögsögu Danmerkur og Svíþjóðar og því borðleggjandi að yfirvöld í þeim löndum leiði rannsóknina.