Bandaríska leik- og söngkonan Jennifer Hudson hlaut í gærkvöldi Tony-verðlaun fyrir aðkomu sína að söngleiknum A Strange Loop en Hudson var ein af framleiðendum söngleiksins sem var valinn besti söngleikur ársins. Tony-verðlaunin eru ein eftirsóttustu sviðslistaverðlaun Bandaríkjanna og eru veitt þeim leiksýningum og söngleikjum sem þykja skara fram úr á Broadway.
Söngleikurinn A Strange Loop var tilnefndur til alls 11 verðlauna og hlaut tvenn verðlaun, áðurnefnd verðlaun fyrir besta söngleik ársins sem og verðlaun fyrir besta söngleikjahandrit ársins. Í hópi framleiðanda ásamt Hudson má finna fleiri þekkt nöfn úr bandarískri dægurmenningu, til dæmis þau RuPaul Charles, Don Cheadle, Mindy Kaling, Billy Porter og Alan Cumming.
Með sigri A Strange Loop komst Hudson í ansi eftirsóttan og fámennan félagsskap þeirra sem hlotið hafa alslemmu á stærstu verðlaunahátíðunum í skemmtanabransanum vestanhafs, hinna svokölluðu EGOT-verðlaunahafa. EGOT er skammstöfun fyrir virtustu verðlaun í sjónvarpi, tónlist, kvikmyndum og sviðslistum í Bandaríkjunum: Emmy, Grammy, Oscar og Tony. Hópur EGOT-verðlaunahafa telur nú alls sautján eftir að Hudson bættist í hópinn, ellefu verðlaunahafar eru á lífi en sex látnir.
Richard Rodgers fyrstur til að klára EGOT árið 1962
Hudson hlaut Óskarsverðlaun fyrir besta leik í aukahlutverki í kvikmyndinni Dreamgirls sem kom út árið 2006. Hún hefur hlotið tvenn Grammy verðlaun, árið 2009 hlaut hún verðlaunin fyrir bestu ryþmablús plötu ársins sem einfaldlega hét Jennifer Hudson og árið 2017 hlaut plata með tónlist úr söngleiknum The Color Purple verðlaunin fyrir bestu söngleikjaplötu ársins en Hudson var á meðal einsöngvara á plötunni. Í fyrra hlaut Hudson Emmy-verðlaun sem framleiðandi fyrir teiknimyndina Baba Yaga. Hún lokaði svo EGOT hringnum í gærkvöldi þegar hún hlaut Tony-verðlaunin fyrir A Strange Loop.
Fyrsti maðurinn til að hljóta öll EGOT-verðlaunin var tónskáldið Richard Rodgers sem er einna helst þekktur fyrir frjótt samstarf sitt með Oscar Hammerstein. Saman sömdu þeir suma af þekktustu söngleikjum sem settir hafa verið upp á Broadway, söngleiki á borð við Oklahoma!, South Pacific og The Sound of Music. Richard Rodgers hlaut Óskarsverðlaun árið 1945 fyrir besta lag ársins, lagið It Might as Well Be Spring úr kvikmyndinni State Fair. Hann varð EGOT-verðlaunahafi árið 1962 þegar hann hlaut sín fyrstu Emmy-verðlaun fyrir tónlist sem hann samdi fyrir sjónvarpsþáttaseríuna Valient Years sem fjallaði um líf og störf Winstons Churchills. Til viðbótar við Emmy- og Óskarsverðlaunin hlaut Richard Rodgers tvenn Grammy-verðlaun og alls sex Tony-verðlaun.
Ætlaði að hreppa EGOT á fimm árum - ekki fengið eina tilnefningu
Þrátt fyrir að Rodgers hafi verið orðinn handhafi allra EGOT-verðlaunanna árið 1962 varð skammstöfunin ekki þekkt fyrr en á níunda áratugnum. Philip Michael Thomas sem vann sér það helst til frægðar að hafa leikið rannsóknarlögreglumanninn Rico Tubbs í sjónvarpsþáttunum Miami Vice hafði mikinn augastað á EGOT-nafnbótinni. „Vonandi verð ég búinn að vinna öll þess verðlaun innan fimm ára,“ lét Thomas hafa eftir sér í viðtali árið 1984, sama ár og Miami Vice fór í loftið. Thomas gekk meira að segja um með hálsmen með áletruninni EGOT, svo áfjáður var hann í verðlaunin.
Nú, tæpum fjörutíu árum síðar, hefur Thomas ekki hlotið eina einustu tilnefningu til þeirra verðlauna sem saman mynda skammstöfunina EGOT. Honum má samt að miklu leyti þakka það að nafnbótin sé þekkt í dag, ásamt höfundateymi sjónvarpsþáttanna 30 Rock. Það var fyrst eftir að Tracy Jordan, ein af aðalpersónum þáttanna, lék háttsemi Thomas að miklu leyti eftir sem að EGOT-nafnbótin náði inn í meginstrauminn og varð þekkt. Einn handritshöfunda 30 Rock mundi eftir Thomas og hálsmeni hans og höfundateymi þáttanna fannst það mjög fyndin hugmynd að láta áðurnefndan Jordan verða gagntekinn af tilhugsuninni um að vinna EGOT. Hálsmen með skammstöfuninni varð meira að segja hluti af gervi Tracy Jordan í þáttunum.
Þegar Thomas talaði fyrstur manna um þessa nafnbót sem hann langaði svo mikið í, árið 1984, hafði EGOT-verðlaunahöfum fjölgað um tvo frá því að Rodgers kláraði EGOT árið 1962. Þær Helen Hayes og Rita Moreno bættust báðar í hópinn árið 1977. Hayes var önnur í röð EGOT-verðlaunahafa en það hefur enginn verðlaunahafi verið jafn lengi að ná sér í öll verðlaunin og hún. Hayes hlaut Óskarsverðlaun árið 1932 fyrir besta leik í aðalhlutverki í kvikmyndinni The Sin of Madelon Claudet sem kom út ári áður. Hún lokaði hringnum 45 árum síðar þegar hún hlaut Grammy-verðlaun í flokki platna með mæltu máli fyrir plötuna Great American Documents. Á ferli sínum hlaut Hayes sitthvor Emmy- og Grammy-verðlaunin og tvenn Óskars- og Tony-verðlaun.
Heiðursverðlaun ekki talin með
Í hópi þeirra 17 stórstjarna sem geta stært sig af því að vera EGOT-verðlaunahafar má meðal annars nefna Audrey Hepburn, Mike Nichols, Andrew Lloyd Webber, Tim Rice, Mel Brooks, Whoppi Goldberg og John Legend.
Þau 17 sem talin eru til EGOT-verðlaunahafa eiga það sameiginlegt að hafa unnið verðlaun á öllum hátíðunum fjórum í flokkum þar sem keppt er til verðlauna. Verðlaun sem ekki er keppt um telja ekki með. Væru slík verðlaun talin með myndu fimm nöfn til viðbótar bætast í pottinn. Nöfnin í þeim hópi eru ekki af verri endanum; Barbra Streisand, Liza Minnelli, James Earl Jones, Harry Belafonte og Quincy Jones. Þau eiga það öll sameiginlegt að hafa hlotið verðlaun á þremur af fjórum verðlaunahátíðum í flokkum þar sem keppt er til verðlauna og sérstök verðlaun sem ekki er keppt um á þeirri fjórðu.
Hildur Guðnadóttur búin með þrjár hátíðir af fjórum
Hópur þeirra sem vantar aðeins ein verðlaun upp á til að klára EGOT er ekki stór, telur alls 104 einstaklinga. Í þeim hópi er eitt tónskáld sem Íslendingar kannast vel við, Hildur Guðnadóttir. Hún hlaut bæði Emmy- og Grammy-verðlaun fyrir tónlist sína í sjónvarpsþáttunum Chernobyl sem fóru í loftið á HBO árið 2019. Fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Joker frá árinu 2019 hlaut Hildur bæði Grammy- og Óskarsverðlaun. Þar að auki hefur Hildur hlotið tvenn BAFTA verðlaun, ein fyrir Chernobyl og ein fyrir Joker, auk þess sem hún hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs fyrir tónlistina í Chernobyl.
Hildur, ásamt 30 öðrum hafa fengið Grammy-, Emmy- og Óskarsverðlaun en vantar aðeins Tony-verðlaunin til að fullkomna EGOT fernuna. Með henni í hópi þeirra sem vantar einungis Tony-verðlaun í safnið til að klára EGOT má til dæmis nefna Julie Andrews, Burt Bacharach, Cher, John Williams, Kate Winslet, Randy Newman og Martin Scorsese.