Daði Freyr Pétursson og Gagnamagnið eru fjarri góðu gamni í kvöld, eins og alþjóð veit, vegna kórónuveirusmita sem komu upp í íslenska Eurovision-hópnum í vikunni. Veiran náði alla leið inn í þann hóp sem hefði undir eðlilegum kringumstæðum átt að stíga á sviðið í Rotterdam í Hollandi og flytja lagið 10 Years, sem er framlag Íslands í ár.
Sem betur fer er upptakan frá æfingu hópsins á dögunum vel heppnuð og samkvæmt veðbönkum líkleg til þess að skila laginu ofarlega á lista í kvöld, þó reyndar séu sumir búnir að afskrifa með öllu að Daði og Gagnamagnið standi uppi sem sigurvegarar í kvöld, eins og sagt var frá á Kjarnanum fyrr í dag.
Veiran sennilega á töluverðu flugi í Hollandi
Hins vegar þarf ef til vill þarf ekki að koma á óvart að smit láku inn í íslenska teymið, þrátt fyrir að það hafi reyndar verið bólusett áður en haldið var af stað.
Miðað við opinbera tölfræði frá Hollandi má ætla að veiran leiki nokkuð lausum hala í hollensku samfélagi, en þar í landi eru um þessar mundir um og yfir 12 prósent COVID-19 sýna að reynast jákvæð, sem er eitt hæsta hlutfallið í Evrópu.
Hollendingar virðast nefnilega ekki verið að taka mikið af COVID-prófum til þess að hafa hemil á veirunni. Þrátt fyrir að hlutfall jákvæðra sýna sé hátt í evrópskum samanburði þessa dagana hefur það verið enn hærra, fyrr í faraldrinum.
Til samanburðar hefur hlutfall jákvæðra sýna úr einkennasýnatökum hér á landi ekki farið yfir nema einu sinni yfir 3 prósent það sem af er þessu ári. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) gaf í maí í fyrra út kríteríu, þar sem sagði að hlutfall jákvæðra sýna undir 5 prósent væri eitt merkja um að faraldurinn væri undir stjórn.
Þegar lítið er skimað fyrir COVID-19 er líklegt að mörg tilfelli uppgötvist alls ekki – og þegar hlutfallið er jafn hátt og það er í Hollandi í dag er sennilega einungis verið að greina lítinn hluta þeirra tilfella sem sannarlega eru út í samfélaginu. En þar, rétt eins og hér á landi, gengur ágætlega að bólusetja almenning og verið er að aflétta sóttvarnaráðstöfunum í áföngum. Það að veiran sé á flugi er því ekki jafn mikið áhyggjuefni og áður.
Alls lögðust þó 239 manns inn á gjörgæslu í Hollandi í síðustu viku vegna veirunnar og 90 manns létust.
Stíft skimað í kringum keppnina
Það breyti því þó ekki að Eurovisionfarar og aðrir sem eru á vettvangi keppninnar í Rotterdam þurfa að undirgangast skimun á tveggja daga fresti. Samkvæmt því sem sagði í tilkynningu á vef Eurovision-keppninnar í fyrradag var alls búið að taka fleiri en 24.400 COVID-próf hjá starfsfólki, sjálfboðaliðum, Eurovision-förum og fjölmiðlafólki á rúmum mánuði, eða allt frá því að undirbúningur í Ahoy-höllinni hófst 6. apríl.
Einungis 16 manns höfðu þá greinst með veiruna – eða 0,06 prósent af þeim sem höfðu verið skimuð. Þar af eru tveir úr íslenska teyminu.