Tamson „Fitty“ Hatuikulipi, einn hinna ákærðu í Samherjamálinu, segist aldrei hafa þegið mútugreiðslur frá Samherja. „Guð minn góður, af hverju hefði ég átt að fá greiddar mútur? Ég var ekki handhafi kvóta. Ég fékk greitt samkvæmt þeirri vinnu sem ég vann. Peningarnir voru greiddir með löglegum hætti fyrir þjónustu sem var veitt.“
Þetta er meðal þess sem fram kom í vitnisburði hans í Fishrot-málinu svokallaða, sem Íslendingar kalla Samherjamálið, fyrir dómi í höfuðborg Namibíu í gær. Kjarninn rakti í morgun hluta af vitnisburði Hatuikulipi sem namibískir fjölmiðlar höfðu þá greint frá. Í dag voru fleiri fréttir sagðar af vitnisburðinum ytra.
Hatuikulipi segist hafa fengið greiddar um 78 milljónir namibískra dollara, um 700 milljónir íslenskra króna, fyrir störf sín fyrir Samherja. Þau hefðu falist í því að sannfæra handhafa aflaheimilda um að semja við Samherja um notkun þeirra. Hatuikulipi bað frænda sinn, James Hatuikulipi, um aðstoð við verkið. Frændinn hafi verið stjórnarformaður Fischor, namibísku ríkisútgerðarinnar, og því vel tengdur.
Samherjamálið, sem snýst m.a. um meinta skattasniðgöngu og peningaþvætti Samherja og tengdra aðila, hófst með umfjöllun Kveiks, Stundarinnar, Wikileaks og Al Jazeera í nóvember árið 2019. Þar var rakið hvernig viðskiptahættir Samherja í Afríku, nánar tiltekið í Namibíu og Angóla, voru árin á undan er fyrirtækið náði undir sig mjög verðmætum hrossamakrílskvóta í löndunum. Samkvæmt umfjölluninni var það gert með mútugreiðslum til ráðamanna og annarra manna úr þeirra nánasta hring. Upphaflega var sagt að þær hefðu numið 1,4 milljarði króna hið minnsta og hófust með því að reiðufé var afhent í íþróttatöskum en tóku svo á sig faglegri mynd og fóru fram í gegnum millifærslur á reikninga í Dúbaí.
Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, hrinti málinu af stað er hann lét Wikileaks í té gögn er vörðuðu meintar mútugreiðslur og annað í rekstri Samherja í Namibíu.
Í vitnisburði sínum í dómssal í gær sagði Hatuikulipi að Jóhannes hafa tengt sig við Samherjamálið þar sem hann hefði neitað að aðstoða Jóhannes við að sverta og eyðileggja fyrir Samherja. „Ég vildi ekki vinna skítverkin fyrir hann því í mínum huga var Samherji ekki slæmt fyrirtæki.“ Jóhannes hafi verið reiður, viljað Samherja burt úr Namibíu þar sem hann hefði áform um að koma þar að öðru íslensku útgerðarfyrirtæki. Reiðina mátti að sögn Hatuikulipi rekja til þess að Samherji hafi neitað að greiða honum bónusa sem hann taldi sig eiga inni vegna starfa fyrir félagið í Namibíu og Angóla.
Fékk greitt fyrir að sinna Jóhannesi
Hatuikulipi sagði að vegna „stöðugrar fíkniefnanotkunar“ Jóhannesar hafi hann skaðað alvarlega samninga sem gerðir voru milli Samherja og kvótarétthafa í Namibíu. Hann hafi líka ítrekað þurft að borga tryggingu til að losa hann úr fangelsi. Þetta hafi hann gert, að því er fram kemur í frétt New Era, vegna þess að það var hluti af þeirri vinnu sem hann gerði fyrir Samherja. Vinnu sem hann hafi fengið greitt fyrir.
Saksóknari mótmælti þeirri mynd sem Fitty dró upp af Jóhannesi. Hann verður áfram í vitnastúkunni í dag en gærdagurinn var að miklu leyti helgaður spurningum frá verjendum hans.
Réttarhöldin halda áfram næstu daga. Í málinu, sem hefur marga anga, eru m.a. tveir fyrrverandi ráðherrar í Namibíu ákærðir.