Helgi Seljan, sem hefur starfað hjá fréttaskýringaþættinum Kveik hjá RÚV á undanförnum árum og þar áður hjá Kastljósi, hefur sagt upp störfum.
Helgi hefur verið í leyfi frá störfum um hríð en mun ekki snúa aftur til RÚV, þar sem hann hefur starfað frá árinu 2006, þegar því lýkur.
Stundin tilkynnti skömmu eftir að þessi frétt fór fyrst í loftið að Helgi hefði verið ráðinn til starfa hjá fjölmiðlinum, í hlutverk rannsóknarritstjóra.
Í stöðuuppfærslu sem Helgi birti inni lokuðu vefsvæði starfsmanna RÚV, þar sem hann greindi frá ákvörðuninni, segir hann að hún hafi hvorki tekin í skyndi eða af neinni vonsku. „Ég mat það bara sem svo að nú væri rétti tíminn til að takast á við nýjar áskoranir á nýjum stað. Ég ætla þó ekki að halda því fram að atburðarrás undanfarinna missera hafi ekki haft nein áhrif á að ég yfirleitt fór að velta þessum möguleika fyrir mér. Ég skil þó við RÚV sáttur við allt og alla, vitandi það að öll höfum við lært og munum draga lærdóm af því sem gengið hefur á.“
Atburðarrásin sem Helgi vísar í er sú sem átt hefur sér stað eftir umfjöllun Kveiks um Samherjaskölin í nóvember. Hún hefur meðal annars falist í því að starfsmaður Samherja elti og áreitti Helga mánuðum saman, „Skæruliðadeild Samherja“ vann skipulega að því að reyna að draga úr trúverðugleika hans, Samherji kærði hann fyrir siðanefnd RÚV og ýmis konar aðdróttanir voru settar fram gegn honum í þáttum sem Samherji lét framleiða og sýna á netinu. Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri RÚV, sagði í yfirlýsingu sem send var út í mars í fyrra, að Helgi hefði búið við „fordæmalausar árásir“ af hálfu Samherja“.
Helgi hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín, þar á meðal þrenn blaðamannaverðlaun og fjölda tilnefninga, meðal annars fyrir umfjöllun um Samherjaskjölin, samkeppnislagabrot Mjólkursamsölunnar, áratugalanga brotasögu kynferðisbrotamanns og þöggun trúfélaga og stofnana um þau, umfjöllun um bókhaldsbrellur og skattasniðgöngu stóriðjufyrirtækja á Íslandi, lögbrot og aðgerðarleysi eftirlitsstofnanna í sjávarútvegi, mannréttindabrot gegn geðsjúkum í íslenskum fangelsum og brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði.
Flótti fagmanna af RÚV
Helgi segir í stöðuuppfærslu sinni að hann geri sér grein fyrir því að undanfarna mánuði hafi kvarnast hressilega úr hópi starfsmanna RÚV. Sú staðreynd geri ákvörðun hans ekki auðveldari. „Að lokum vil ég segja þetta: Ríkisútvarpið og starfsfólk þess á ekki að þurfa að stilla upp í vörn. Alls ekki. Ríkisútvarpið á að sækja á. Innan þessarar stofnunar er ótæmandi bunki af hæfileikum, dugnaði og elju sem skilar sér til fólks á hverjum degi. Og þannig á það að vera áfram. Auk þess að vera fræðandi og skemmtilegt, á Ríkisútvarpið líka að vera ögrandi og erfitt. Hlustendum og áhorfendum er enginn greiði gerður með því að sitja undir kurteisishjali við skoðanir þess og heimsmynd öllum stundum. Þannig hefur það ekki verið og má ekki verða.“
Félagar hans úr Kveik, sem unnu umfjöllunina um Samherjaskjölin með Helga, þeir Aðalsteinn Kjartansson og Stefán Drengsson, hættu báðir störfum í fyrra og réðu sig annað. Aðalsteinn sagði í stöðuuppfærslu sem hann setti á Facebook af þessu tilefni að eftir margra mánaða umhugsun hafi hann komist að þeirri niðurstöðu að RÚV „sé ekki vinnustaður fyrir mig eins og stendur.“ Annar samstarfsfélagi þeirra úr Kveik, Lára Ómarsdóttir, hætti störfum í febrúar í fyrra og réð sig sem samskiptastjóra fjárfestingafélags.
Á meðal annarra sem hafa hætt störfum hjá RÚV nýverið eru Rakel Þorbergsdóttir, fyrrverandi fréttastjóri, Sunna Valgerðardóttir, sem réð sig til samkeppnisaðila, Þórhildur Þorkelsdóttir, sem réð sig til BHM, Einar Þorsteinsson, einn umsjónarmanna Kastljóss, og Fanney Birna Jónsdóttir, sem var annar umsjónarmanna Silfursins um árabil.
Aðrir sem hafa horfið á braut eru meðal annars Sigyn Blöndal, sem stýrði margskonar barnaefni hjá RÚV, íþróttafréttamaðurinn Haukur Harðarson og Milla Ósk Magnúsdóttir, sem gerðist aðstoðarmaður ráðherra.