Niðurstaða rýni alþjóðlegs hóps sérfræðinga, m.a. frá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (WHO) og Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) er sú að þrátt fyrir útbreiðslu delta-afbrigðis kórónuveirunnar sé virkni bóluefna gegn alvarlegum veikindum af COVID-19 svo mikil að „ekki er viðeigandi“ að gefa almennt örvunarskammtar á þessum tímapunkti í faraldrinum.
Niðurstöðurnar eru birtar í nýjasta hefti læknablaðsins The Lancet. Rýnin er byggð á niðurstöðu úr tilviljanakenndu úrtaki fyrirliggjandi prófunum og rannsóknum sem gefnar hafa verið út um virkni bóluefnanna.
Allar rannsóknirnar sem rýnt var í benda til þess að vörn bóluefna gegn alvarlegum veikindum af COVID-19, líka veikindum af völdum nýjustu afbrigða veirunnar, er mikil.
Meðaltal úr rannsóknunum er að bólusetning veiti 95 prósent vörn gegn alvarlegum veikindum, bæði af völdum delta-afbrigðisins og alpha og yfir 80 prósent vörn almennt gegn sýkingu af völdum þessara afbrigða. Rýnin leiddi einnig í ljós að bóluefnin veita betri vörn gegn alvarlegum veikindum en mildari einkennum sjúkdómsins.
Í grein vísindahópsins kemur fram að þrátt fyrir að bóluefnin veiti minni vörn gegn smiti og einkennalausri sýkingu heldur en alvarlegum veikindum, jafnvel í samfélögum þar sem bólusetningarhlutfall er hátt, er það hinn óbólusetti minnihluti sem er helsti drifkraftur útbreiðslu sýkinga. Auk þess eru óbólusettir í mun meiri hættu á að veikjast alvarlega.
„Samantekið þá veita þær rannsóknir sem eru fyrirliggjandi á þessari stundu ekki trúverðugar sannanir á raunverulegri dvínandi vörn gegn alvarlegum veikindum sem er frummarkmið bólusetninga,“ segir aðalhöfundur rannsóknarinnar, Ana-Maria Henao-Restrepo, sem fer fyrir rannsóknar- og þróunarverkefnum hjá WHO. „Hið takmarkaða magn af þessum bóluefnum mun bjarga flestum mannslífum ef það verður gert aðgengilegt fyrir fólk sem er í mestri hættu á alvarlegum veikindum og hefur ennþá ekki fengið bóluefni. Jafnvel þótt að einhver ávinningur gæti náðst með örvun mun hann ekki vega meira en sá ágóði sem fæst með frumbólusetningu óbólusettra.
Ef bóluefnum væru dreift þangað sem þeim gerist mest þörf geta þau flýtt fyrir því að við sjáum fyrir endann á faraldrinum með því að koma í veg fyrir frekari þróun afbrigða.“
Um 80 prósent alls þess bóluefnis sem framleitt hefur verið hefur endað hjá ríkustu þjóðum heims. Þær hafa því náð að bólusetja meirihluta íbúa sinna. Staðan er allt önnur í fátækustu löndum. Þar er bólusetningarhlutfall enn undir 2 prósentum að meðaltali. Á annan tug þjóða í Evrópu eru byrjaðar eða með það í undirbúningi að örva bólusetningar. Á Íslandi býðst þeim sem fengu bóluefnið Janssen, á sama hvaða aldri þeir eru, að fá örvun með bóluefnum Pfizer og Moderna. Einnig býðst öllum yfir sextugu, sama hvaða bóluefni það fékk, að fá örvunarskammt.
Fleira en mótefnasvar skiptir máli
Höfundar greinarinnar benda ennfremur á að þrátt fyrir að mótefni dvíni með tímanum hjá fólki sem fengið hefur bólusetningu þurfi það ekki að hafa áhrif á virkni bóluefnanna gegn alvarlegum veikindum. Fleira en mótefnasvar skipti máli. Ef nota eigi örvunarskammta af bóluefnum gegn COVID-19 á endanum þurfi að rannsaka til hlítar í hvaða tilvikum þeir gagnist best.
Einnig vekur vísindafólkið athygli á því að smám saman hækki hlutfall bólusettra í samfélögum og á heimsvísu sem verði til þess, eðli málsins samkvæmt, að það fækki í hópi óbólusettra. Þetta mun að endingu hafa þau áhrif að hlutfallslega fleiri tilfelli alvarlegra veikinda verði hjá bólusettum. Inn í þann reikning verði að taka breytta hegðun fólks samhliða því að finna til öryggis með bólusetningu. Hins vegar, segir vísindafólkið, kalla bóluefnin svo gott mótefnasvar fram gegn þeim afbrigðum sem þegar eru á kreiki að ólíklegt verður að teljast að þau hafi stökkbreyst það mikið að þau komist framhjá þeim vörnum sem bóluefnin veita.
Bóluefni til örvunar, sem þróað yrði sérstaklega til að gagnast gegn mögulegum veiruafbrigðum framtíðarinnar gætu orðið áhrifaríkari og langvinnari en núverandi bóluefni. Svipuð nálgun er notuð við þróun bóluefna gegn inflúensu. Ár hvert er þróað nýtt bóluefni byggt á öllum þeim vísindaupplýsingum sem eru tiltækar um þau afbrigði sem eru á stjái.
„Þau bóluefni sem nú eru aðgengileg eru örugg, árangursrík og þau bjarga mannslífum,“ segir Soumya Swaminathan, aðalvísindamaður WHO og meðhöfundur greinarinnar í Lancet. „Jafnvel þótt að hugmyndin um að draga enn frekar úr tilfellum COVID-19 með því að örva ónæmi þegar bólusettra einstaklinga sé heillandi ætti að taka hverja slíka ákvörðun á vísindalegum grunni og íhuga ávinninginn og áhættuna fyrir einstaklinga og samfélög. Þessar áhættusömu ákvarðanir ætti að byggja á sterkum sönnunum og alþjóðlegri, vísindalegri umræðu.“
Rannsóknarýnin var gerð af sérfræðingum frá eftirtöldum stofnunum:
Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna
Háskólanum í Washington
Háskólanum í Oxford
Háskólanum í Flórída
Háskólanum í Vestur-Indíum á Jamaíka
Háskólanum í Bristol
Háskólanum Universidad Nacional Autonoma de Mexico
Frjósemis- og HIV-rannsóknarstofnuninni Wits í Suður-Afríku
Háskólanum í París
Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni.