Hreinn Loftsson, sem hætti sem aðstoðarmaður Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra í desember síðastliðnum, um tveimur vikum eftir að hafa verið ráðinn í starfið, er aftur orðinn aðstoðarmaður ráðherra. Hann hefur tekið tímabundið við starfi aðstoðarmanns Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Hreinn, sem aðstoðaði Áslaugu Örnu á síðasta kjörtímabili þegar hún var dómsmálaráðherra, hleypur í skarðið fyrir Eydísi Örnu Líndal, sem verður í fæðingarorlofi þar til um næstu áramót. Eydís Arna aðstoðaði Áslaugu Örnu einnig á síðasta kjörtímabili.
Í tilkynningu frá stjórnarráðinu kemur einnig fram að Áslaug Hulda Jónsdóttir, sem sóttist eftir því að verða oddviti Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ í síðustu sveitarstjórnarkosningum en hafði ekki erindi sem erfiði, sé orðin fastráðin aðstoðarmaður Áslaugar Örnu. Áslaug Hulda, sem er fyrrverandi formaður bæjarráðs Garðabæjar en hætti þátttöku í sveitarstjórnarmálum eftir að hafa tapað oddvitaslagnum þar fyrr á þessu ári, bauð sig fram til ritara Sjálfstæðisflokksins á flokksráðs- og formannafundi flokksins 2019. Hún tapaði naumlega fyrir Jóni Gunnarssyni, fékk 117 atkvæði en Jón 135.
Áslaug Hulda tók tímabundið við starfi aðstoðarmanns ráðherrans í apríl eftir að Eydís Arna fór í fæðingarorlof. Sú vending hefur orðið síðan þá að hinn aðstoðarmaður Áslaugar Örnu, Magnús Júlíusson, lét af störfum eftir að hafa verið kjörinn í stjórn Festi í júlí. Hann hafði verið aðstoðarmaður ráðherra frá því í desember í fyrra.
Því liggur fyrir að Áslaug Arna hefur haft fjóra mismunandi aðstoðarmenn það sem af er kjörtímabili, en annað ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur tók til starfa 28. nóvember 2021, eða fyrir tæpum níu mánuðum síðan.
Var of fljótur á sér
Þegar Hreinn hætti sem aðstoðarmaður Jóns Gunnarssonar, eftir tveggja vikna starf, birti hann stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann sagðist hafa verið of fljótur á sér að þiggja boð Jóns. Í millitíðinni, frá því að Hreinn var ráðinn og þar til hann hætti, var Brynjar Níelsson ráðinn í hina aðstoðarmannastöðuna sem Jón má fylla samkvæmt lögum.
Jón hefur síðan ráðið Teit Björn Einarsson í þá aðstoðarmannastöðu sem Hreinn skildi eftir opna.
Aðstoðarmönnum fjölgað 2011
Lögum um Stjórnarráð Íslands var breytt árið 2011 með þeim hætti að heimild til að fjölga aðstoðarmönnum ráðherra var útvíkkuð þannig að hver og einn þeirra má ráða tvo slíka. Auk þess var sett inn heimild fyrir ríkisstjórnina að ráða þrjá aðstoðarmenn til viðbótar ef þörf krefur. Í lögunum segir að „meginhlutverk aðstoðarmanns ráðherra er að vinna að stefnumótun á málefnasviði ráðuneytis undir yfirstjórn ráðherra og í samvinnu við ráðuneytisstjóra.“
Ekki þarf að auglýsa aðstoðarmannastöður heldur eru þeir sem sinna þeim störfum valdir af hverjum ráðherra fyrir sig, enda oftast um að ræða nánustu samstarfsmenn ráðherra á meðan að hann gegnir embætti.
Skömmu eftir að lögunum var breytt var ráðherrum fækkað í átta, en þeir höfðu verið tólf þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók við völdum árið 2009.
Síðan hefur ráðherrum verið fjölgað aftur jafnt og þétt með hverri ríkisstjórninni og í dag eru þeir orðnir tólf. Það þýðir að fjöldi leyfilegra aðstoðarmanna hefur líka aukist.
Alls má ríkisstjórnin því ráða 27 aðstoðarmenn sem stendur. Laun og starfskjör aðstoðarmanna ráðherra miðast við kjör skrifstofustjóra í ráðuneytum samkvæmt ákvörðunum kjararáðs.
Kostnaður við rekstur ríkisstjórnar aukist
Rekstur ríkisstjórnar Íslands, sem í felast launagreiðslur ráðherra og aðstoðarmanna þeirra, er áætlaður 714,9 milljónir króna á þessu ári samkvæmt fjárlögum. Það er um fimm prósent meiri kostnaður en áætlun vegna ársins 2021 gerir ráð fyrir, en þá átti reksturinn að kosta 681,3 milljónir króna.
Á fyrsta heila ári fyrri ríkisstjórnarinnar Katrínar Jakobsdóttur við völd, árið 2018, var kostnaður vegna launa ráðherra og aðstoðarmanna áætlaður 461 milljónir króna. Kostnaðurinn á þessu ári er því 55 prósent hærri í krónum talið.
Kostnaðurinn á þessu fyrsta starfsári ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks reyndist á endanum hærri, eða 597 milljónir króna. Því hefur kostnaðurinn vegna launa ráðherra og aðstoðarmanna þeirra alls vaxið um 117,9 milljónir króna frá 2018, eða 20 prósent.