Hugmyndir um nýtingu vindorku hér á landi eru að óraunhæfar að mati Bjarna Bjarnasonar fráfarandi forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur sem var í viðtali í Silfrinu á RÚV á sunnudag. Hann segir ekki rétt að það liggi verulega á að koma hér upp vindorkuverum í þágu orkuskipta og segir að það versta sem gæti gerst væri ef hér yrðu reistar þúsund vindmyllur á einu bretti.
Bjarni ræddi um orkuskiptin, orkuþörf og hugmyndir um uppbyggingu vindorkuvera, eða vindmyllugarða hér á landi. Ýmis fyrirtæki hafa sóst eftir því að fá að beisla vindinn, alla liggja fyrir hugmyndur um slíka uppbyggingu á 34 stöðum víða um landið.
Meðalvindorkuver gnæfir 150 metra yfir umhverfið
„Fyrirtækin sem sækjast eftir að komast í þetta eru norsk og dönsk og frönsk og einhver íslensk að auki. Ég held að það þurfi svona um það bil 30 vindmyllur á hverju svæði bara til þess að tryggja lágmarks hagkvæmni. Og það þýðir á þessum svæðum samanlagt svona um eitt þúsund vindmyllur. Eitt þúsund vindmyllur.
Vindmyllur í dag eru engin smásmíð. Ég bendi á að meðalvindmylla í dag, sem er þrjú megavött, hún er 100 metra há, bara stólpinn undir henni. Með spaða í hæstu hæð þá bætast við 50 metrar þannig að hún mun hún gnæfa 150 metra yfir umhverfið.
En tækninni fleygir fram þannig að líkast til verða vindvirkjanir fjögur til fimm megavött og þeim mun hærri, kannski 250 metrar á hæð,“ segir Bjarni.
Orkugeirinn myndi valta yfir ferðaþjónustuna
Hann var spurður að því í þættinum hvort áform um vindvirkjanir hér á landi væru raunhæfar að hans mati.
„Ég tel að þær séu alls ekki raunhæfar. Þarna væri orkugeirinn að valta yfir ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan er í dag sá atvinnuvegur sem skilar mestum gjaldeyri í þjóðarbúið, gerði það fyrir Covid og það stefnir í það aftur núna, þannig að atvinnuvegir þurfa að sjálfsögðu að búa saman í sátt og samlyndi, það er ekki annað hægt. Einn atvinnuvegur getur ekki valtað yfir annan.”
Ekkert liggi á
Bjarni segir æskilegt að eyða allri notkun á jarðefnaeldsneyti út úr orkubúskap Íslands og eðlilegt sé að nýta vindinn til að framleiða orku, en það sé ekki sama hvernig staðið sé að málum.
„Ég tel í fyrsta lagi að okkur liggi alls ekki á. Það versta sem gæti gerst er að við færum af stað og byggðum 1.000 vindmyllur samtímis. Sporin hræða og hjarðhegðun er ekki góð,” segir Bjarni og bendir á að hér á landi hafi í gegnum tíðina verið gengið of langt í ýmsum atvinnugreinum með slæmum afleiðingum, t.d. í fiskeldi, loðdýrarækt og svo í bankastarfsemi fyrir hrun.
„Ef við gefum okkur ekki tíma til að læra af reynslunni, af fyrstu vindorkugörðunum, þá er ver af stað farið en heima setið,“ segir Bjarni.
Gera þarf vindmælingar á hverjum stað
Hann segir mjög mikilvægt að fara ekki of hratt í uppbygginguna. „Við verðum að gefa okkur tíma. Í fyrsta lagi þarf að gera 2-3 ára mælingar á hverjum stað, það er algjörlega nauðsynlegt. Það þarf að velja rétta tækni og það er mikilvægt hvar við veljum þeim stað.“
Hann bendir á að það getu haft kosti að staðsetja vindorkuver á röskuðum svæðum, þ.e. við núverandi virkjanir. Að tylla vindmyllum upp á fjall er afar óheppilegt að mati Bjarna, enda sjáist víða langar leiðir hér á landi. Nálægð við virkjanir hafi einnig þann kost að aðgengi að dreifikerfi sé betra.
Mikil pressa er víða lögð á sveitarstjórnarfólk að taka ákvarðanir um vindorkuver, Bjarni var beðinn að gefa þeim ráð um hvað skyldi gera.
„Andið með nefinu. Megni þessara fyrirtækja eru erlend fyrirtæki sem eru ekki að hugsa um loftslagið heldur fyrst og fremst að hugsa um ágóða. Málflutningur þeirra er dálítið í þeim dúr, og jafnvel að þeir séu að vekja sektarkennd meðal heimamanna að þeir verði að taka þátt í að bjarga heiminum. Þetta er ekki góður málflutningur finnst mér. Með því að bjarga heiminum megum við ekki fórna náttúru heimsins heldur.”