Flokkur fólksins hefur á undanförnum dögum verið að kynna framboðslista sína fyrir komandi Alþingiskosningar. Flokkurinn, sem fékk fjóra þingmenn kjörna eftir kosningarnar 2017 þrátt fyrir að einungis tveir standi nú eftir innan raða flokksins, hefur verið að mælast undir kjörfylgi í skoðanakönnunum að undanförnu og jafnvel undir fimm prósenta fylgi á landsvísu, sem myndi þýða að flokkurinn þyrfti að treysta á að fá kjördæmakjörna þingmenn.
Flokkurinn hefur sótt sér nokkra nýja oddvita, sem eiga það sameiginlegt að vera allir þekktir af öðrum störfum, jafnvel þjóðþekktir einstaklingar. Tómas Tómasson veitingamaður á Hamborgarabúllunni leiðir flokkinn í Reykjavíkur norður, Ásthildur Lóa Þórsdóttir formaður Hagmunasamtaka heimilanna er oddviti í Suðurkjördæmi, Jakob Frímann Magnússon tónlistar- og athafnamaður í Norðausturkjördæmi og Eyjólfur Ármannsson formaður hópsins Orkan okkar í Norðvesturkjördæmi.
Þessi fjögur ásamt þeim Ingu Sæland formanni og Guðmundi Inga Kristinssyni varaformanni leiða flokkinn fram til kosninga, en ennþá er flokkurinn þó bara búinn að kynna þrjá heila framboðslista. En fyrir hvað stendur Flokkur fólksins og hverju lofar hann kjósendum fyrir komandi kosningar? Kjarninn kíkti á það sem flokkurinn býður kjósendum upp á.
Á vef flokksins má finna yfirlit yfir þau mál sem Flokkur fólksins hyggst setja í forgang. Þar eru þónokkur loforð, sum nákvæmlega útfærð, en önnur síður. Sérstök áhersla er lögð á málefni eldri borgara, öryrkja og lágtekjuhópa í íslensku samfélagi.
350 þúsund króna lágmarksframfærsla
Flokkur fólksins vill nýtt almannatryggingakerfi sem tryggi lágmarksframfærslu, 350 þúsund krónur á mánuði, skatta- og skerðingalaust. Flokkurinn vill auk þess að öllum öryrkjum sem treysta sér til verði leyft „reyna fyrir sér á vinnumarkaði í tvö ár án skerðinga“ og án þess að örorka þeirra sé endurmetin.
Flokkurinn segist einnig vilja beita sér fyrir því að skattleysismörk verði hækkuð í 350 þúsund krónur á mánuði. Skattleysismörk launa eru í dag 168.230 kr. svo um er að ræða tæplega 180 þúsund króna hækkun skattleysismarkanna. Flokkurinn segist vilja „færa persónuafsláttinn frá þeim ríku til hinna efnaminni“, það sé „sanngjarnt, réttlátt og eðlilegt“.
Þá segist flokkurinn vilja hækka frítekjumark ellilífeyris vegna lífeyristekna úr 25 þúsund upp í 100 þúsund og heitir því að „leggja niður skerðingar á ellilífeyri vegna atvinnutekna.“
Afnám verðtryggingar
Flokkur fólksins hefur lengi haft það á stefnuskrá sinni að afnema verðtryggingu húsnæðislána og er það á meðal forgangsmála flokksins nú. Flokkurinn segist einnig vilja að almenningi verði heimilt að endurfjármagna verðtryggð lán með óverðtryggðum lánum án þess að undirgangast lánshæfis- og greiðslumat.
Flokkurinn heitir því einnig að „afnema með öllu himinhá uppgreiðslugjöld á lánasamningum sem Íbúðalánasjóður gerði á sínum tíma“ og berjast gegn húsnæðisskorti með því að „skapa hvata til aukinnar uppbyggingar á nýju húsnæði“. Þá segir flokkurinn að verð íbúðalóða eigi að „miða við raunkostnað, en ekki duttlunga markaðarins.“
Í sjávarútvegsmálum segist Flokkur fólksins vilja að „fullt verð“ verði greitt fyrir aðgang að sjávarauðlindum og styður að kveðið verði á um að auðlindir séu í þjóðareign í stjórnarskránni. Flokkurinn vill „nýja nýtingarstefnu fiskimiðanna“ sem feli í sér að íbúar sjávarbyggða fái aukinn rétt til að nýta sjávarauðlindina með jákvæðum áhrifum fyrir sjávarpláss víða um land, með stórefldum strandveiðum og frjálsum handfæraveiðum.
Engar skerðingar á námslán
Flokkur fólksins vill að þeir sem eru á námslánum frá Menntasjóði námsmanna verði ekki fyrir neinum skerðingum, þrátt fyrir að laun þeirra séu hærri en sem nemur frítekjumarki námslána. Í stefnuskrá flokksins segir að það eigi að veita námsfólki frelsi til að afla sér aukatekna. Í dag eru reglurnar þannig að námsmaður má hafa allt að 1.410.000 kr. í tekjur á árinu 2021 án þess að námslán hans á námsárinu 2021-2022 skerðist.
Í heilbrigðismálum ætlar Flokkur fólksins sér stóra hluti. Flokkur fólksins segir að hann muni tryggja „fjármögnun heilbrigðiskerfisins að fullu,“ „útrýma öllum biðlistum eftir nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu“ og tryggja að fólk sem fæðist með lýti fái læknisaðgerðir niðurgreiddar frá Sjúkratryggingum Íslands. Flokkurinn segist enn fremur að hann muni aldrei sætta sig við að börn þurfi að bíða eftir brýnni læknishjálp.
Loftslagsaðgerðir án þess að íþyngja almenningi
Í umhverfismálum vill Flokkur fólksins að Ísland axli ábyrgð hvað loftslagsbreytingar varðar, án þess þó að aðgerðir í þágu umhverfisverndar bitni á almenningi. „Við munum beita okkur gegn grænum sköttum sem auka misskiptingu og fátækt,“ segir flokkurinn, sem boðar að „hreinar orkulindir landsins“ verði „nýttar af skynsemi svo draga megi úr mengun.“
Í umhverfismálum segist flokkurinn einnig standa gegn þjóðgarði á hálendinu. „Hálendið er unaðsreitur sem má ekki stofnanavæða í formi þjóðgarðs með tilheyrandi ráðherraræði á kostnað almannaréttar. Það hafa ekki allir efni á utanlandsferðum,“ segir flokkurinn.
Heita því að fjármagna loforðin
Flokkur fólksins segir að þau kosningaloforð sem sett hafa verið fram af hálfu flokksins muni flokkurinn einnig fjármagna, með aðgerðum sem er tíundaðar í stefnuskrá flokksins.
Þannig segist flokkurinn ætla sér að sækja tugi milljarða í ríkissjóð með því að „afnema undanþágu lífeyrissjóða til að halda eftir staðgreiðslu skatta við innborgun í sjóðina.“ Flokkurinn segir að þannig muni staðgreiðslan verða tekin „strax við innborgun en ekki þegar greitt er úr sjóðunum eins og nú er.“
Auk þess segir flokkurinn ætla að innheimta fullt verð fyrir aðgang að sjávarauðlindinni, innleiða bankaskattinn á ný og „hreinsa til í kerfinu og draga úr hvers konar óþarfa útgjöldum ríkissjóðs“ án þess að nánar sé útlistað hvaða útgjöld ríkissjóðs séu óþörf með öllu.