„Í sjávarútvegi ríkir djúpstæð tilfinning meðal almennings um óréttlæti. Sú tilfinning tel ég að stafi aðallega af tvennu; samþjöppun veiðiheimilda og þeirri tilfinningu að ágóðanum af sameiginlegri auðlind landsmanna sé ekki skipt á réttlátan hátt.“
Þetta segir Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra, sem fer með málefni sjávarútvegs, í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Þar segist Svandís þó ekki vilja umbylta þeim kerfum sem Íslendingar hafi búið sér til, enda sé þar margt gott. „En ég tel gríðarlega mikilvægt að rýna þessi kerfi og ráðast í nauðsynlegar breytingar sem ég hef trú á að komi okkur upp úr hjólförum sem við virðumst föst í. Með því bætum við um leið líf fólksins í landinu, með beinum og óbeinum hætti, og það er alltaf lokatakmarkið.“
Í greininni segir Svandís að stjórnvöld reyni iðulega að koma til móts við umbreytingar í atvinnuháttum og þannig hafi byggst upp flókið net bútasaumslausna bæði í sjávarútvegi og landbúnaði. „En þessi bútasaumur verður feyskinn með tímanum og vinnur jafnvel á köflum gegn þeim markmiðum sem stjórnvöld hafa sett sér; að skapa gott umhverfi fyrir fólk sem hefur lífsviðurværi sitt af nýtingu auðlinda lands og sjávar.“
Það sé eitt þeirra stóru markmiða sem hún hafi sett sér í embætti matvælaráðherra að rýna í það með skipulögðum hætti hvernig hægt sé að gera annars vegar nauðsynlegar umbætur á stjórnkerfi fiskveiða og hins vegar búvörusamninga þannig að markmið stjórnvalda og stefnumörkun nái fram að ganga. „Áskoranirnar eru ólíkar. Óviðunandi afkoma hefur verið um hríð hjá hluta bænda. Það ríkir almenn sátt um að landbúnaður hljóti opinberan stuðning, ágreiningurinn snýst fyrst og fremst um útfærslur.“ Öðru máli gegni um sjávarútveg þar sem ágreiningurinn sé mun djúpstæðari.
Greiða meira í arð en í sameiginlega sjóði
Kjarninn greindi frá því í fyrrahaust að á árinu 2020 greiddu útgerðir landsins eigendum sínum alls arð upp á 21,5 milljarða króna á sama tíma og þau greiddu samtals 17,4 milljarða króna í öll opinber gjöld: tekjuskatt, tryggingagjald og veiðigjald. Það var hæsta arðgreiðsla sem greinin hefur greitt eigendum sínum frá upphafi innan eins árs á sama tíma og greiðslan til hins opinbera var sú næst lægsta frá árinu 2011. Þetta var auk þess í fyrsta sinn frá bankahruni sem umfang greiddra opinberra gjalda var minna en arðgreiðsla sjávarútvegsfyrirtækja til eigenda sinna innan árs.
Þá á eftir að taka tillit til þess að ríkissjóður hefur umtalsverðan kostnað af eftirliti og rannsókna vegna fiskveiða og -vinnslu. Í fyrra voru heildarútgjöld hans vegna eftirlits og rannsókna vegna fiskveiða og -vinnslu um sjö milljarðar króna í ár. Árin 2015-2020 voru álögð veiðigjöld að meðaltali 7,4 milljarðar á verðlagi ársins 2020. Því fara veiðigjöld að uppistöðu í að greiða kostnað ríkissjóðs af eftirliti og rannsóknum, sem nýtast sjávarútveginum.
Eigið fé geirans er stórlega vanmetið þar sem virði kvóta, sem útgerðir eignfæra, er bókfært á miklu lægra verði en fengist fyrir hann á markaði.
Frá 2009 hefur sjávarútvegurinn greitt alls 196,7 milljarða króna í opinber gjöld, þar af 78 milljarða króna í veiðigjöld. Sú tala dregst frá áður en hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja er reiknaður.
Heildarhagnaðurinn á árinu 2020, fyrir skatta og gjöld, var því um 665 milljarðar króna. Af þeirri upphæð fór undir 30 prósent til íslenskra ríkisins, eiganda auðlindarinnar, í formi tekjuskatts, tryggingagjalds og veiðigjalda, en rúmlega 70 prósent sat eftir hjá eigendum fyrirtækjanna.
Ofangreindar tölur komu fram í árlegum sjávarútvegsgagnagrunni Deloitte sem kynntur er á Sjávarútvegsdeginum og fyrirtækið heldur í samstarfi við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök atvinnulífsins.
Stóraukin samþjöppun
Samkvæmt lögum má engin ein blokk í sjávarútvegi halda á meira en tólf prósent af úthlutuðum heildarkvóta á hverjum tíma. Þegar Fiskistofa, sem hefur eftirlit með því að yfirráð einstakra aðila yfir aflahlutdeildum fari ekki umfram lögbundin mörk, birti nýja samantekt á samþjöppun aflahlutdeildar í nóvember í fyrra kom í ljós að Brim, eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, var komið yfir það mark. Það var leyst með því að Brim seldi annarri útgerð, Útgerðarfélagi Reykjavíkur, hluta af úthlutuðum veiðiheimildum sínum. Útgerðarfélags Reykjavíkur, sem er að uppistöðu í eigu Guðmundar Kristjánssonar forstjóra Brim, er stærsti eigandi Brim.
Í tölum Fiskistofu kom líka fram að heildarverðmæti úthlutaðs kvóta sem tíu stærstu útgerðir landsins halda á hafði farið úr því að vera 53 prósent í að vera rúmlega 67 prósent. Auknar heimildir til að veiða loðnu skiptu þar umtalsverðu máli.
Samanlagt halda fjórar blokkir: Þær sem kenndar eru við Samherja, Brim, Kaupfélag Skagfirðinga og Ísfélagið á rúmlega 60 prósent af öllum úthlutuðum kvóta á Íslandi.
Afstaða almennings skýr samkvæmt könnunum
Í aðdraganda kosninganna í fyrrahaust voru gerðar ýmsar kannanir á skoðun almennings á þeim kerfum sem Ísland hefur komið sér upp í sjávarútvegi. Á meðal þeirra var könnun sem Gallup gerði fyrir þrýstihópinn Þjóðareign. Í henni var fólk spurt hvort það styddi að markaðsgjald væri greitt fyrir afnot af fiskimiðum þjóðarinnar. Niðurstaðan var sú að 77 prósent aðspurðra var fylgjandi því og einungis 7,1 prósent var andvígt slíkri kerfisbreytingu. Afgerandi meirihluti kjósenda allra flokka var fylgjandi breytingunni þótt stuðningurinn væri minni hjá kjósendum Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Miðflokks en þeim sem ætla að kjósa aðra flokka.
Í sömu könnun sögðu 64 prósent landsmanna, næstum tveir af hverjum þremur, að núverandi útfærsla á kvótakerfinu ógni lýðræðinu.
Ríkisstjórnin ætlar að skipa nefnd
Í stjórnarsáttmála sitjandi ríkisstjórnar er boðað að skipa nefnd til að „kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum og meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins. Nefndinni verði falið að bera saman stöðuna hér og erlendis og leggja fram tillögur til að hámarka möguleika Íslendinga til frekari árangurs og samfélagslegrar sáttar um umgjörð greinarinnar. Nefndin fjalli einnig um hvernig hægt er að auka gagnsæi í rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi og þá sérstaklega meðal stærstu fyrirtækja landsins. Þá meti nefndin árangur af atvinnu- og byggðakvóta og strandveiðum til að styðja við atvinnulíf í landsbyggðunum.“
Nefndin hefur enn ekki verið skipuð en Svandís lagði fram greinargerð sem lýsir áherslum og fyrirhuguðu verklagi matvælaráðherra við stefnumótun á sviði matvæla, meðal annars í sjávarútvegi, í samráðsgátt stjórnvalda í febrúar. Þar voru drögin til umsagnar til 22. mars síðastliðins. Því eru liðnir rúmir tveir mánuðir frá því að umsagnartímabilið rann út.