Ísland: Fyrsta sæti.
Danmörk: Annað sæti.
Ástralía: Þriðja sæti.
Þegar kemur að einu helsta tæki sem mannkynið hefur til að fylgjast með þróun kórónuveirufaraldursins og mögulega bregðast við með áhrifaríkum hætti á hverjum tíma er Ísland fremst í flokki. Hér hafa 56,2 prósent allra jákvæðra sýna verið raðgreind. Danir sem koma næstir hafa greint 46,6 prósent.
Um þetta er fjallað í fréttaskýringu Washington Post.
Mannfjöldi og þar af leiðandi fjöldi sýktra er vissulega misjafn milli okkar Íslendinga og t.d. Bandaríkjanna en þar í landi hafa aðeins 3,6 prósent jákvæðra sýna verið raðgreind. Þar hafa hins vegar greinst um 48 milljónir tilfella en hér eru þau 17.770 talsins.
Raðgreining varpar ljósi á gerð veirunnar og breytingar sem á henni verða. Veirur breytast stöðugt en aðeins er farið að tala um ný afbrigði þegar þessar breytingar eru orðnar umfangsmiklar. Þannig hefur Alþjóða heilbrigðismálastofnunin skilgreint afbrigði og gefið þeim nafn: Alfa. Beta. Gamma. Delta.
Og nú Ómíkron.
Lestu meira
Í næsta mánuði verða tvö ár liðin frá því að kórónuveiran greindist fyrst í Wuhan í Kína. Síðan þá hafa fjölmörg afbrigði skotið upp kollinum, nokkur orðið ráðandi á ákveðnum svæðum eða um ákveðinn tíma en ekkert þó í líkingu við Delta, afbrigðið sem fyrst greindist á Indlandi fyrir um ári.
Veirur greindar og gögnum deilt með öðrum
Þekking á afbrigðum fæst með raðgreiningu og slíkum upplýsingum er deilt með öðrum, m.a. í gegnum fyrirbæri sem kallast GISAID. Í Suður-Afríku, þar sem Ómíkron var fyrst greint, eru raðgreiningar ekki stundaðar af sama kappi og hér á landi. Þar hafa aðeins um 0,8 prósent allra jákvæðra sýna verið raðgreind en tilfelli COVID-19 frá upphafi faraldursins eru um þrjár milljónir.
Í greiningu Washington Post á gögnum um raðgreiningar kemur fram að þótt aðeins um 3,6 prósent af jákvæðum sýnum í Bandaríkjunum séu raðgreind sé það framför frá því fyrir tæpu ári er hlutfallið var aðeins 0,3 prósent. Á Indlandi er hlutfallið aðeins um 0,2 prósent. Í apríl, er Delta-faraldurinn reis sem hæst, var það 0,06 prósent.
Þetta hlutfall skiptir máli og vísindamenn telja að það verði að vera ákveðið hátt svo hægt sé að grípa til aðgerða tímanlega.
Það er sama hvort horft er til raðgreininga eða bóluefnaskammta. Fátækustu ríki veraldar eru á botninum. Á meðan örvunarskammtar eru gefnir á Vesturlöndum er aðeins búið að bólusetja um 6 prósent þeirra 1.200 milljóna manna sem búa í Afríku. Aðeins um 3 prósent íbúa fátækustu ríkja heims hafa verið bólusett.
Vísindamenn og alþjóðastofnanir, m.a. WHO, hafa frá upphafi varað við því að misskiptingin ætti eftir að koma í bakið á þeim sem keyptu sig fremst í forgangsröðina. „Þangað til að við bólusetjum nægilega marga mun þetta gerast aftur og aftur,“ hefur Washington Post eftir Glendu Gray, sem fer fyrir læknaráði Suður-Afríku. Óbólusettir munu alltaf dreifa veirunni meira og hraðar en bólusettir og eftir því sem veiran hefur fleiri líkama að sýkja mun hún halda áfram að stökkbreytast – jafnvel til hins verra.