Stærstur hluti þess fjár sem sjávarútvegsfélagið Samherji greiddi til færeyskra skattayfirvalda, í kjölfar þess að fram kom að félagið hefði skráð sjómenn sem voru við veiðar í Namibíu sem farmenn á flutningaskipum í Færeyjum, hefur verið sendur til íslenskra skattayfirvalda.
Færeyska Kringvarpið sagði frá þessu fyrir helgi. Tindholmur, færeyskt dótturfélag Samherja, greiddi tæpar 17 milljónir danskra króna til TAKS, færeyska skattsins, síðasta vor.
Þá hafði komið fram í færeysku heimildaþáttunum Teir ómettiligu, sem unnir voru í samstarfi við Kveik Ríkisútvarpsins og Wikileaks, að Íslendingur úr áhöfn togara í eigu Samherja, sem gerður var út í Namibíu, fékk laun sín greidd frá færeyska félaginu og hefði auk þess verið ranglega skráður í áhöfn færeysks flutningaskips í eigu Samherja, en útgerðum býðst 100 prósent endurgreiðsla á skattgreiðslum áhafna slíkra skipa.
Þannig er talið að málum hafi verið háttað með fleiri sjómenn sem unnu fyrir Samherja í Namibíu. Fyrir vikið greiddu sjómennirnir ekki skatta í Namibíu og Samherji þurfti því ekki að bæta þeim upp tekjutap vegna slíkra skattgreiðslna.
Samherji sagði „mistök“ hafa verið gerð
Í yfirlýsingu og afsökunarbeiðni sem birtist á vef Samherja 22. júní í fyrra sagði að í ljós hefði komið að „mistök“ hefðu verið gerð í rekstri Samherja, sem tengst hefðu alþjóðlegri skipaskrá sem haldin væri í Færeyjum.
„Ekki liggur enn fyrir af neinni nákvæmni hver þau mistök eru en Samherji hefur greitt tryggingarfjárhæð sem verður til staðar þegar niðurstaða er fengin. Við viljum leiðrétta þau mistök sem þarna voru gerð og biðjast velvirðingar á þeim. Vonandi fæst nánari niðurstaða í þessi mál fljótt og greiðlega,“ sagði í yfirlýsingu fyrirtækisins.
Síðar var sagt frá því að Samherji hefði gert kröfu upp á tæpar 17 milljónir danskra króna í þrotabú færeyska dótturfélagsins Tindholms, er það var tekið til gjaldþrotaskipta í ágúst í fyrra.
Aðilarnir sem um ræðir skattskyldir á Íslandi
Í frétt Kringvarpsins frá því á fimmtudag er vísað til skriflegs svars frá TAKS þar sem fram kemur að af þeim 16,9 milljónum danskra króna sem greiddar hafi verið til skattayfirvalda eyjanna í maí árið 2021 hafi 13,1 milljón danskra króna verið fluttar til Íslands þar sem einstaklingarnir sem málið snerti séu skattskyldir á Íslandi. „Þetta er gert í samræmi við samninga á milli Norðurlandanna um aðstoð í skattamálum,“ segir í svari færeyska skattsins til Kringvarpsins.
Á núvirði er 13,1 milljón danskra króna jafnvirði 250 milljóna íslenskra króna. Kjarninn hefur sent fyrirspurn til íslenskra skattayfirvalda og óskað eftir því að fá afhentar allar fyrirliggjandi upplýsingar og samskipti Skattsins við færeysk skattayfirvöld vegna þessa máls.
Lögreglurannsókn í biðstöðu
Færeysk skattayfirvöld tilkynntu málið til lögreglu síðasta vor, en sagt er frá því í frétt Kringvarpsins að rannsóknin sé ekki komin af stað. Samkvæmt fréttinni átti málið að fara í hendur deildar innan dönsku lögreglunnar sem skoðar alþjóða- og fjármálaglæpi, en sú deild ku hafa verið lögð niður og ný deild stofnuð til að sinna málum af þessum toga.
Lagabreytingu þarf til í færeyska þinginu til þess að færeyska lögreglan geti sent mál til hinnar nýju deildar. Samkvæmt frétt Kringvarpsins er búist við að slík lagabreyting verði afgreidd á yfirstandandi þingi – og þá verði hægt að rannsaka málið.