Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherja í Namibíu sem gerðist síðan uppljóstrari, hefur hlotið sænsku sjálfbærniverðlaunin WIN WIN Gothenburg Sustainability Award fyrir árið 2021.
Jóhannes fer með þessu í flokk með fólki á borð við Gro Harlem Brundtland fyrrverandi framkvæmdastjóra Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar WHO, Kofi Annan fyrrverandi leiðtoga Sameinuðu þjóðanna og Al Gore fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, sem öll hafa hlotið þessi sömu verðlaun. Sjá má lista yfir alla fyrri vinningshafa hér.
Fær tæpar 15 milljónir króna í verðlaun
Fram kemur á vef verðlaunanna að Jóhannes fái 1 milljón sænskra króna, tæpar 15 milljónir íslenskra króna, í sinn hlut og að verðlaunin verði afhent við hátíðlega athöfn í Gautaborg í Svíþjóð í október.
Þema verðlaunanna er breytilegt á milli ára. Í ár er það spilling. Aðrir sem voru tilnefndir voru Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna (ICIJ), nígeríski aktivistinn Hamzat Lawal, samtökin IWA sem berjast gegn spillingu í Afganistan og Nicola Gratteri, saksóknari á Ítalíu sem hefur leitt málarekstur gegn yfir 350 manns sem tengjast Ndrangheta, alræmdum mafíusamtökum á Suður-Ítalíu. Kjarninn fjallaði um þau réttarhöld í janúar.
Sagður hafa sýnt fádæma hugrekki
Í umsögn dómnefndar segir að Jóhannes hafi, frá því að hann gerðist uppljóstrari þurft að þola hótanir og jafnvel banatilræði, en Jóhannes telur að reynt hafi verið að eitra fyrir sér. Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja kærði Jóhannes til lögreglu snemma í marsmánuði fyrir að hafa látið að því liggja að fyrrverandi vinnuveitendur hans hjá Samherja hafi á einhvern hátt tengst meintri eitrun.
Framganga Jóhannesar er sögð til merkis um mikilvægi gjörða einstaklinga, ekki síst innan heims iðnaðar og viðskipta. „Jóhannes Stefánsson hefur sýnt mikið hugrekki og ósérhlífni í baráttu sinni gegn misbeitingu valds og spillingu,“ segir dómnefndin.
WIN WIN-verðlaunin eru veitt í samstarfi við Gautaborg, sænska lénið Vestur-Gautland, Gautaborgarháskóla og fjölmargar fleiri stofnanir og sænsk stórfyrirtæki, til dæmis SEB-bankann.
Sérstakur samstarfsaðili verðlaunanna þetta árið, sökum þess að þemað var spilling, er Svíþjóðardeild samtakanna Transparency International.