Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður Mohammed Bakri umsækjanda um alþjóðlega vernd, hefur kært ákvörðun Útlendingastofnunar að svipta hann þjónustu en honum var vísað á götuna í vikunni og hann sviptur fæðisgreiðslum. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans var umrædd ákvörðun ekki skrifleg.
„Þessi ákvörðun er kærð til kærunefndar útlendingamála og þess krafist að hún verði felld úr gildi og stofnunni gert að veita umbjóðanda mínum þjónustu á nýjan leik. Þá er þess krafist að kæran fái flýtimeðferð með vísan í brýna hagsmuna umbjóðanda míns,“ segir í kærunni sem Kjarninn hefur undir höndum.
Magnús bendir á í samtali við Kjarnann að umræddur aðili hafi endað allslaus á götunni. „Um er að ræða nokkurs konar refsingu af hálfu Útlendingastofnunar þar sem viðkomandi aðilar hafa ekki viljað aðstoða við eigin brottvísun með því að undirgangast COVID-próf sem er forsenda þess að hægt sé að framkvæma brottvísun. Það er alveg kýrskýrt í okkar huga að þetta er kolólöglegt.“
Enn ekki hitt þann hælisleitanda sem sjálfviljugur aðstoðar við eigin brottvísun
Segir Magnús að á öllum hans ferli sem lögmaður hælisleitanda hafi hann ekki enn hitt þann hælisleitanda sem sjálfviljugur aðstoðar við eigin brottvísun. „Það er eðli þessara mála að fólk vill ekki fara úr landi enda var það að flýja aðstæður þar sem líf þeirra var í hættu. Að setja viðkomandi á götuna allslausan við slíkar aðstæður er ómannúðlegt, siðferðilega rangt og að mínum dómi ólögmætt.“
Vísar hann í reglugerðarákvæði um útlendinga þar sem segir að svipta megi hælisleitanda þjónustu þegar ákvörðun um brottvísun sé komin til framkvæmdar. Magnús segir að þegar viðkomandi aðili er enn á landinu sé ljóst að slík ákvörðun hafi enn ekki verið framkvæmd og því ólögmætt að svipta aðilann þjónustu. Útlendingastofnun brjóti þannig klárlega gegn umræddu reglugerðarákvæði.
„Nokkuð margir í þessum hópi sem nú eru á götunni hér á landi eru frá Palestínu. Eins og allir vita er heimaland þeirra að verða fyrir loftárásum þessi misserin þar sem saklaust fólk lætur lífið í hrönnum. Palestínumenn á flótta utan heimalands upplifa að sjálfsögðu mikla og sorg og reiði við slíkar aðstæður og eru þannig enn viðkvæmari en ella nú um stundir. Allt að einu finnst Útlendingastofnun í fínu lagi að vísa umræddum aðilum á götuna. Þessu verður að linna,“ segir hann.
Í kærunni er jafnframt vísað til þess að Mohammed hafi ekki notið andmælaréttar áður en umrædd ákvörðun var tekin. „Þegar af þeirri ástæðu ætti að fella ákvörðunina úr gildi.“
Óskað er eftir því að kæran fái flýtimeðferð þar sem brýnir hagsmunir Mohammed krefjist þess enda sé hann án húsnæðis og fæðis eftir sviptingu þeirrar þjónustu sem hann áður naut.