Að minnsta kosti tveir hafernir hafa drepist í árekstrum við vindmyllur á hinni norsku Haramseyju úti fyrir Álasundi. Íbúa- og náttúruverndarsamtök sem börðust gegn því að vindorkuver yrði reist á eyjunni, hafa kært vindorkufyrirtækið Harams Kraft fyrir brot á lögum um dýravelferð og lögum um verndun líffræðilegs fjölbreytileika. Krefjast samtökin þess að yfirvöld rannsaki hin meintu brot á grundvelli sömu laga. Þess er jafnframt krafist að forsvarsmenn fyrirtækisins verði ákærðir fyrir vanrækslu sem valdið hefði dauða hafarnanna.
Talsmenn Harams Kraft, dótturfélags Zephyr, hafa svarað því til að á tveggja vikna fresti sé leitað með hundum á virkjunarsvæðinu, líkt og yfirvöld kröfðust við útgáfu framkvæmdaleyfa. Það vill hins vegar ekki tjá sig um hvernig brugðist er við tilkynningum um slasaða fugla.
Íbúasamtökin segja að fuglar særist, örkumlist og drepist með reglubundnu millibili og í miklum mæli vegna vindmyllanna. Þau telja að vöktun virkjunaraðilans sé ekki í samræmi við lög.
Vindorkuverið á Haramsfjalli hóf að rísa í lok maí í fyrra. Íbúasamtökin höfðu barist gegn byggingu þess fyrir dómstólum en allt kom fyrir ekki. Átta 150 metra háar vindmyllur standa nú á fjallinu.
Á þessu sama fjalli eru tvö friðlönd fyrir fugla. Svæðið er ennfremur vinsælt til útivistar.
Samtökin vilja að Harams Kraft verði gert að grípa til aðgerða til að draga eins mikið og hægt er úr árekstrum fugla á vindmyllurnar. Þau hafa m.a. bent á að á öðru svæði, Smøla, hafi spaðar myllanna verið málaðir svartir.
„Málið er nú komið til lögreglunnar og þá kemur í ljós hversu hátt Hamars-eyja er skrifuð á forgangslistanum,“ sagði í fréttatilkynningu frá íbúasamtökunum.