Næstum átta af hverjum tíu landsmönnum, eða 77 prósent, telja að auðugasta fólkið á Íslandi, það sem tilheyrir því eina prósenti sem á mest, eigi að greiða hærri skatta. Einungis fimm prósent telja að skattar á ríkasta fólkið ættu að lækka.
Þetta kemur fram í könnun sem MMR gerði fyrir Sósíalistaflokk Íslands. Könnunin var netkönnun og gerð dagana 18. til 24. ágúst. 932 manns, 18 ára og eldri, voru spurðir og gáfu 850 upp afstöðu. Spurt var: „Finnst þér skattar sem auðugasta fólkið á Íslandi greiðir ættu að vera hærri, lægri eða óbreyttir?“
Kjósendur Sjálfstæðisflokks sér á báti
Kjósendur Sjálfstæðisflokksins skera sig úr þegar kemur að vilja til að hækka skatta þeirra sem mest eiga. Alls segjast 37 prósent þeirra að það eigi að hækka skatta á auðugustu Íslendinganna. 45 prósent þeirra vilja að skattar séu óbreyttir en 18 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks vilja að skattar á efsta prósentið verði lækkaðir, eða næstum einn af hverjum fimm kjósendum flokksins.
Stjórnendur og æðstu embættismenn hafa minnstan áhuga á að hækka skatta á efsta lagið, en þó segjast 62 prósent þeirra styðja slíka hækkun. Þá er stuðningurinn við skattahækkanir á ríkustu Íslendinganna minnstur á meðal þeirra sem hafa milljón krónur eða meira í heimilistekjur á mánuði en þar mælist hann samt sem áður 74 prósent, sem þýðir að þrír af hverjum fjórum úr efsta tekjuhópnum sem er mældur er hlynntur hækkunum.
Í nýjustu kosningaspá Kjarnans, sem birt var í gærkvöldi, mældist Sjálfstæðisflokkurinn með 24,1 prósent fylgi en önnur framboð með 75,9 prósent fylgi.
Ríkasta eitt prósentið tók til sín 30 prósent af nýjum auð
Ríkasta eitt prósentið, alls um 2.400 fjölskyldur, bættu 37,3 milljörðum króna við eigið fé sitt í fyrra, eða um 30 prósent af öllum nýjum auð sem varð til á því ári. Þessar fjölskyldur áttu samtals 902,2 milljarða króna í lok árs 2020. Þetta kom fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, um skuldir og eignir landsmanna sem birt var í sumar.
Eigið fé ríkustu hópanna hérlendis hefur verið stórlega vanmetið, og er mun meira en þær tölur sem hér eru til umfjöllunar hér að ofan. Hluti verðbréfaeignar, hlutabréf í innlendum og erlendum hlutafélögum, er metin á nafnvirði, en ekki markaðsvirði. Þá eru fasteignir metnar á samkvæmt fasteignamati, ekki markaðsvirði, sem er í flestum tilfellum hærra.
Það þýðir að ef verðbréf í t.d. hlutafélögum hafi hækkað í verði frá því að þau voru keypt þá kemur slíkt ekki fram í þessum tölum. Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands hefur til að mynda hækkað um 110 prósent frá því í mars á síðasta ári.
Meginþorri verðbréfa sem eru í beinni eigu einstaklinga tilheyra þeim tíu prósentum landsmanna sem eru ríkastir. Sá hópur átti 86 prósent allra verðbréfa sem eru í beinni eigu einstaklinga í lok árs 2019.
Öfluðu 44,5 prósent allra fjármagnstekna
Kjarninn greindi frá því í fréttaskýringu í apríl að að eitt prósent framteljenda á Íslandi sem var með hæstu tekjurnar á árinu 2019 voru samanlagt með 142 milljarða króna í tekjur. Um er að ræða 3.133 einstaklinga. Þessi hópur aflaði 7,2 prósent allra tekna sem Íslendingar öfluðu í hitteðfyrra.
Þetta eina prósent landsmanna var með 58 milljarða króna í fjármagnstekjur á árinu 2019, sem þýðir að hópurinn aflaði 44,5 prósent allra tekna sem urðu til vegna ávöxtunar á fjármagni á því ári.
Þetta kom fram í umfjöllun um álagningu einstaklinga á árinu 2020 í Tíund, fréttablaði Skattsins, sem Páll Kolbeins rekstrarhagfræðingur skrifaði.
Þar sagði að tekjuhæsta eitt prósent landsmanna greiddi 37 milljarða króna í skatta á umræddu ári og var meðalskattbyrði hópsins 26 prósent. Skattbyrði þessa rúmlega þrjú þúsund einstaklinga var aðeins meiri en meðalskattbyrði allra Íslendinga á árinu 2019 – sem var 23 prósent – en hún var minni en t.d. næsta prósents fyrir neðan það í tekjuöflunarstiganum, sem greiddi 27,2 prósent tekna sinna í skatta og langt undir meðalskattbyrði tíu prósent ríkustu Íslendinganna, sem greiddi 35,2 prósent í skatta. Alls greiddu tekjuhæstu fimm prósentin síðan 27,9 prósent í skatt af tekjum sínum, eða hlutfallslega umtalsvert meira en ríkasta prósentið.
Í umfjöllun Páls í Tíund sagði orðrétt: „Ástæða þess að skattbyrði tekjuhæsta eina prósents landsmanna er lægri en skattbyrði tekjuhæstu fimm prósentanna er sú að fjármagnstekjur vega þyngra í tekjum þeirra sem eru tekjuhærri á hverjum tíma en skattur af fjármagnstekjum var 22 prósent en staðgreiðsla tekjuskatts og útsvars af launum, lífeyri og tryggingabótum yfir 11.125 þús. kr. var 46,24 prósent.“