Vitneskja var innan KSÍ um alls fjórar frásagnir um að leikmenn eða aðrir sem starfa fyrir sambandið hefðu beitt kynbundnu eða kynferðislegu ofbeldi árin 2010 til 2021. Þetta kemur fram í niðurstöðum nefndar sem fengin var til að gera úttekt á viðbrögðum og málsmeðferð KSÍ vegna kynferðisofbeldismála sem tengst hafa leikmönnum í landsliðum Íslands. Í nefndinni sitja Kjartan Bjarni Björgvinsson, héraðsdómari, Rán Ingvarsdóttir og Hafrún Kristjánsdóttir en þau kynntu niðurstöðurnar í beinni útsendingu á RÚV klukkan 14 í dag.
Nefndin telur ljóst að KSÍ hafi brugðist strax við þremur þessara frásagna. Annaðhvort með því að leikmaðurinn sem átti í hlut hafi verið sendur heim úr landsliðsverkefnum eða þannig að viðkomandi hafi ekki starfað aftur fyrir hönd KSÍ.
Kjartan Bjarni hóf mál sitt á að segja að nefndin hefði fengið óheftan aðgang að skjalasöfnum KSÍ við vinnu sína og kannað hundruð skjala, tölvupósta og gagna sem ekki hefðu birst opinberlega.
„Eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að rannsaka hvort þöggunarmenning hafi ríkt um kynferðislegt eða annarskonar ofbeldi innan KSÍ eða hvort KSÍ hefði reynt að kveða slíkt niður án þess að ræða við sem flesta aðila sem hefðu mögulega vitnesku um frásagnir af slíkum brotum.“
Talaði nefndin við yfir fimmtíu einstaklinga sem tengjast KSÍ frá árinu 2010, suma oftar en einu sinni. Nefndin ræddi einnig við tugi annarra einstaklinga sem tengjast þessari atburðarás sem nefndin hefur haft til athugunar. Allir hafi verið viljugir til að tala við nefndina.
Í skýrslu úttektarnefndarinnar eru gerðar athugasemdir við að upplýsingar sem þáverandi formaður KSÍ, Guðni Bergsson, veitti fjölmiðlum og almenningi í ágúst síðastliðnum um vitneskju KSÍ af frásögn um ofbeldismál hafi verið villandi enda hafi formaðurinn á sama tíma haft vitneskju um frásögn starfsmanns KSÍ um alvarlegt kynferðisofbeldi gagnvart tengdadóttur starfsmanns. Yfirlýsingarnar hafi heldur ekki samræmst vitneskju um eldri tilkynningu frá árinu 2018 um kæru á hendur öðrum leikmanni vegna ofbeldis.
Formaðurinn sagði af sér
Málið hefur heldur betur valdið titringi innan KSÍ en það hófst þegar Hanna Björg Vilhjálmsdóttir skrifaði grein í Vísi þar sem hún sakaði KSÍ um þöggun varðandi kynferðisofbeldi af hendi landsliðsmanna. Vísaði hún til frásagnar ungrar konu af kynferðislegu ofbeldi sem hún varð fyrir árið 2010 sem hún birti á samfélagsmiðlum í byrjun maí en gerendurnir voru sagðir hafa verið landsliðsmenn Íslands í fótbolta. „Fleiri frásagnir eru um landsliðsmenn sem eru sagðir beita konur ofbeldi – bæði kynferðislegu og heimilisofbeldi. Þetta virðist ekki hafa haft nein áhrif á velgengni þessara manna. Þeim er hampað og njóta mikilla vinsælda meðal þjóðarinnar. Þöggunin er alger, og KSÍ ber vitaskuld ábyrgð á henni,“ sagði meðal annars í grein Hönnu Bjargar.
Guðni Bergsson, þáverandi formaður KSÍ, sagði í samtali við fjölmiðla dagana 25. og 26. ágúst að sambandið hefði ekki fengið inn á sitt borð tilkynningar um að leikmenn landsliða Íslands hefðu undanfarin ár beitt einhvers konar ofbeldi. „Við höfum ekki fengið neinar tilkynningar né ábendingar um slíkt inn á okkar borð síðan ég tók við formennsku en hins vegar erum við meðvituð um frásagnir á samfélagsmiðlum,“ sagði hann við Fréttablaðið.
Í Kastljósviðtali á RÚV endurtók Guðni þá staðhæfingu að engar kvartanir eða tilkynningar um kynferðisbrot hefðu komið inn á borð KSÍ. „Okkur er mjög umhugað um öryggi okkar iðkenda og almennings og hegðun okkar iðkenda gagnvart umhverfinu. Við höfum vissulega ekkert farið varhluta af þeirri umræðu sem hefur verið upp á síðkastið og undanfarin ár, við tökum mið af því, en við verðum að fá einhvers konar tilkynningu eða eitthvað slíkt, frá vitnum eða þolendum, og ef það gerist gætum við þess að þolandinn fái ákveðna aðstoð og hjálp og við tökum á því af ábyrgð og festu, og við stöndum svo sannarlega gegn öllu ofbeldi, ekki síst kynbundnu og kynferðisofbeldi, við gerum það.“
Guðni sagði enn fremur að gagnrýni á KSÍ vegna þessa væri ómakleg. Eftir krísufund stjórnar KSÍ vegna málsins í lok ágúst sagði Guðni af sér formennsku eftir að hafa gegnt embættinu síðan árið 2017.
Framganga stjórnar og framkvæmdastjóra beri ekki einkenni þöggunar
Úttektarnefndin telur ekki tilefni til að fullyrða að framganga stjórnar, framkvæmdastjóra eða annarra starfsmanna KSÍ um málið beri einkenni þöggunar og/eða nauðgunarmenningar umfram „það sem almennt gerist í íslensku samfélagi“.
Fyrir liggur að stjórnarfólk, framkvæmdastjóri KSÍ og starfsfólks sem kom að málinu hafi gert „verulegar athugasemdir við þær yfirlýsingar sem formaður þáverandi lét frá sér,“ að því er fram kemur hjá nefndinni.
Að öðru leyti telur nefndin ekki forsendur til þess að segja að fyrir hendi séu atvik í formannstíð Guðna Bergssonar sem beri sérstök einkenni þöggunar og nauðgunarmenningar. Úttektarnefndin hafi til dæmis engin gögn fundið eða aðrar vísbendingar fengið sem gefa til kynna að KSÍ hafi boðið kæranda í ákveðnu máli sem kom til kasta KSÍ í mars 2018 þagnaskyldusamning eða komið með öðrum hætti að slíkum tilboðum.
Úttektarnefndin gerir þó athugasemd við að Geir Þorsteinsson þáverandi formaður KSÍ hafi árið 2016 leitað til almannatengils í kjölfar þess að hann frétti af því að lögregla hafi verið kölluð að dvalarstað landsliðsmanns með grunsemd um heimilisofbeldi. „Rétt er þó að taka fram að nefndin telur sig þó ekki hafa staðreynt að Geir hafi haft vitneskju um ofbeldi,“ sagði Kjartan Bjarni að lokum.