Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri lögreglunnar á Suðurnesjum, segir löggæslu á Suðurnesjum ekki kynþáttamiðaða. „Og þekki ég ekki dæmi um slíka löggæslu,“ segir hann í svari við fyrirspurn Kjarnans um kynþáttamörkun og verklag lögreglu í kjölfar ítrekaðra afskipta lögreglu af 16 ára dreng í apríl í tengslum við leit hennar að strokufanga.
Í kjölfarið kom upp umræða um kynþáttamiðaða löggæslu eða kynþáttamörkun (e. racial profiling), það er þegar kynþáttur og/eða húðlitur er notaður til þess að skilgreina einstaklinga eða hópa fólks og mismunum gagnvart þeim réttlætt á þeim forsendum.
Hvorki lögreglan á höfuðborgarsvæðinu né lögreglan á Suðurnesjum halda sérstaklega utan um mál þar sem afskipti lögreglu má mögulega rekja til kynþáttamörkunar.
Líkt og fram hefur komið í umfjöllun Kjarnans um kynþáttamörkun er hægt að nálgast upplýsingar um slík mál, þar sem kynþáttamiðuð löggæsla eða kynþáttamörkun hafi mögulega komið við sögu, með leit í kerfi lögreglu þar sem öll verkefni lögreglu eru skráð, samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra. Því er hægt að leita í öllum gagnagrunninum að slíkum málum, það muni taka tíma, en í svari ríkislögreglustjóra við fyrirspurn Kjarnans segir að ekki sé hægt að fara í slíka vinnu.
Ríkislögreglustjóri: Verðum að vera vakandi fyrir kynþáttamiðaðri löggæslu
Umræða um kynþáttamörkun og kynþáttamiðaða löggæslu hefur verið áberandi eftir að lögregla hafði í tvígang á tveimur dögum afskipti af ungum dreng í tengslum við leit að strokufanga. Báðir eru dökkir á hörund og með svipaða hárgreiðslu.
Móðir drengsins átti fundi með Sigríði Björk Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra eftir að lögregla hafði afskipti af drengnum í fyrra skiptið, í strætó, og í kjölfarið sendi ríkislögreglustjóri frá sér yfirlýsingu þar sem sagði að í samtalinu hefðu komið fram mikilvægar áherslur sem ríkislögreglustjóri ætlaði að bregðast við, meðal annars með því að eiga „samtal við samfélagið um fordóma“.
Ríkislögreglustjóri ræddi málið einnig á opnum fundi allsherjar- og menntamálanefndar að lögreglan verði að vera vakandi fyrir kynþáttamiðaðri löggæslu. Þau skilaboð virðast ekki hafa komist til skila til lögreglunnar á Suðurnesjum sem kannast ekki við kynþáttamiðaða löggæslu í umdæminu.