Á meðal þeirra fjölmörgu sem stóðu á torgi við kastalann í gamla bænum í Varsjá á laugardag og biðu þess að útsending frá ávarpi Joe Bidens Bandaríkjaforseta hæfist þar á risaskjá, voru mæðginin Júlía og Daníl. Þau eru nýlega komin til Varsjár eftir að hafa flúið heimaborg sína Karkív í Úkraínu.
Þau voru í skoðunarferð um borgina og að velta því fyrir sér hvenær þetta ávarp bandaríska forsetans ætti eiginlega að hefjast. Blaðamaður Kjarnans gat ekki svarað því, þegar Júlía spurði. Það var fremur kalt og unglingspilturinn sagðist á báðum áttum með hvort það væri þess virði að húka á torginu og bíða eftir ræðu forsetans, sem enn átti eftir að láta bíða eftir sér í rúma tvo tíma til viðbótar.
Heimaborg þeirra hefur orðið illa úti í árásum Rússa og sum hverfi hennar eru nú alveg mannlaus og stórskemmd. „Þar sem við bjuggum heyrðum við í sprengjunum og sáum þær. Í herbergi sonar míns brotnaði glugginn,“ segir Júlía.
„Heima hjá mömmu rigndi sprengjum niður. Það lentu þrjár á húsinu hennar. Húsið var rýmt og hún flutt út fyrir borgina í skjól. Hún grætur á hverjum degi. Ég tala við hana á hverjum degi,“ bætir Júlía við.
Búa inni á fjögurra manna fjölskyldu fram á sumar
Hún og Daníl flúðu Karkív akandi alla leið til borgarinnar Lviv í vesturhluta Úkraínu. Ferðin þangað er rúmir þúsund kílómetrar og sóttist þeim hægt, tók fjóra daga allt í allt. Í Lviv voru mæðginin í sex daga og settust síðan upp í rútu sem flutti þau beint til Varsjár, þar sem þau fengu inni á heimili sjálfboðaliða sem hjálpuðu þeim við komuna til borgarinnar.
„Við vitum ekki hvað við verðum hérna lengi, sjálfboðaliðarnir sögðu að við mættum vera hérna fram á sumar. Við búum inni á þeim og þau eiga tvö börn. Fjölskyldan er mjög góð og indæl,“ segir Júlía, en hér í Varsjá segja heimamenn að það þekki allir einhverja eru að hýsa úkraínska flóttamenn á heimili sínu um þessar mundir.
Júlía þekkir fólk í Kanada og þangað hyggjast þau reyna að fara. Þau eru þegar búin að sækja um vegabréfsáritun og bíða þess að fá að heyra eitthvað meira. Vonast til þess að komast þangað með vorinu.
Eiginmaður Júlíu og faðir Daníl varð eftir í Karkív, en þar starfar hann sem lögreglumaður.
„Svo hann er þar. Ég elska hann, hann elskar mig,“ segir Júlía, brosir og þagnar.
Síðan bölvar hún Vladimír Pútín og kallar hann öllum illum nöfnum á móðurmáli þeirra beggja, rússnesku.
Vill að vestrið loki himninum
Júlía fékk, rétt eins og blaðamaður Kjarnans, óvænt miða inn í kastalagarðinn í Varsjá til þess að sjá ávarp Bidens berum augum. Daníl fór heim, ekki tilbúinn að bíða lengur í kuldanum eftir bandaríska forsetanum.
Hún hnippti í blaðamann inni í kastalagarðinum og var þá komin með pólska og bandaríska pappafána í hönd, en starfsmenn Hvíta hússins gengu um með þá í stórum búntum og dreifðu til viðstaddra.
Hún fylgdist með ræðu Bandaríkjaforseta, þar sem hann meðal annars ítrekaði samstöðu Bandaríkjanna með Úkraínumönnum, og ræddi svo stuttlega við blaðamann að ræðunni lokinni.
„Ég skildi ekki alveg allt sem hann sagði en ég heyrði hann ekki segja neitt um að loka himninum,“ sagði Júlía, með tárin í augunum, en Úkraínumenn hafa kallað ákaft eftir því að Bandaríkin og önnur ríki Atlantshafsbandalagsins verji úkraínskar borgir, eins og Karkív, fyrir loftárásum Rússa með því að koma á flugbanni yfir landinu eða með því að láta af hendi mun öflugari loftvarnabúnað en úkraínski heraflinn hefur yfir að ráða í dag.
Flugbann hafa vestrænir leiðtogar þó útilokað með öllu, enda felst í því skuldbinding um að skjóta niður rússneskar flugvélar yfir Úkraínu, sem myndi án efa hleypa enn aukinni spennu í átökin við kjarnorkuveldi Pútins, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Í hugum Júlíu og annarra þeirra sem eiga ástvini í borgunum þar sem sprengjurnar hafa verið að falla og halda áfram að falla er óskin um flugbann og betri loftvarnir þó ofarlega í huganum.
„Ef ég væri Joe Biden myndi ég segja: Úkraínumenn, ég mun loka himninum,“ segir Júlía.
Ákall um að loka himninum var einnig áberandi á mótmælum sem haldin voru í Varsjá síðasta föstudag, um sama leyti og Biden Bandaríkjaforseti kom til borgarinnar. Þúsundir söfnuðust saman í miðborginni Úkraínu til stuðnings.