Sala á rósavíni, grillmat, viftum og ís hefur tekið kipp í vikunni í Bretlandi en nú þegar mikill hiti er í veðurkortunum. Spár gera ráð fyrir að hitamet gætu verið slegin eftir helgina og hafa stjórnvöld gefið út rauða veðurviðvörun vegna hita í fyrsta sinn. Veðurviðvaranir eru í gildi fyrir mánudag og þriðjudag á nær öllu Englandi og nær rauða viðvörun til stórs svæðis í mið- og vesturhluta Englands, allt frá London í Suðri til Manchester og York í norðri.
Svo virðist sem Bretar kjósi frekar að drekka rósavín í stað hvít- eða rauðvíns í miklum hita en sala á rósavíni hefur aukist um 50 prósent í þessari viku samanborið við síðustu viku í stærstu verslanakeðju landsins sem höndlar með vín, Majestic Wine. Verslanakeðjan Aldi gerir einnig ráð fyrir aukinni sölu á rósavíni en sala á ljósbleiku víninu hefur ekki verið jafn mikil í verslunum Aldi síðasta árið.
Frá þessu er greint á vef the Guardian en í frétt miðilsins er fjallað um hvaða áhrif hitinn hefur haft á kauphegðun Breta. Til að mynda varð um 150 prósent söluaukning á ís í síðustu viku samanborið við sömu viku í fyrra.
Líkur á að hitamet verði slegin
Gert er ráð fyrir því að viðskiptavinir verslunarkeðjunnar Tesco muni gæða sér á um níu milljón frostpinnum í vikunni sem er nýtt met og það sama er uppi á teningnum í verslunum Sainsbury’s. Þar er gert ráð fyrir að sala á ís muni margfaldast um helgina en í síðustu viku seldi verslunarkeðjan rúmlega fimmfaldaðist í síðustu viku samanborið við vikuna á undan.
Alls kyns vörur rata í ríkari mæli í verslunarkörfur Breta vegna komandi hitabylgju. Tilbúnir kokteilar, grillmatur, sólarvörn og svitalyktareyðir seljast nú sem aldrei fyrr og í netverslun Aldi hefur sala á rafmagnsviftum rúmlega fimmtíufaldast.
Í umfjöllun BBC um hitabylgjuna er haft eftir talsmanni bresku veðurstofunnar að líkur væri á að hitamet yrðu slegin í Bretlandi. Nú væru um helmingslíkur á að hitinn fari yfir 40 gráður í hitabylgjunni. Núverandi hitamet í Bretlandi er frá því árið 2019 þegar 38,7 gráðu hiti mældist í Cambridge.