Frá og með þriðjudegi, 27. júlí, munu allir farþegar sem koma til Íslands þurfa að skila inn neikvæðu COVID-prófi, ýmist PCR-prófi eða hraðprófi, áður en haldið er af stað. Þessi neikvæðu próf mega að hámarki vera 72 klukkustunda gömul. Þá verður einnig mælst til þess að þeir sem eru búsettir á Íslandi eða hafa tengslanet hér á landi fari í skimun við komuna til landsins, en það verður ekki skylda.
Kjarninn kannaði hvaða kröfur eru gerðar til ferðalanga frá Íslandi í þeim löndum sem Íslendingar sækja helst heim. Samkvæmt könnun Ferðamálastofu eru þetta markaðssvæðin Spánn og Portúgal, Danmörk, Bretland og Írland, Bandaríkin og Kanada og loks Þýskaland.
Um þessar mundir er Ísland talið vera svokallað grænt land hjá sóttvarnaryfirvöldum þessara landa. Þar af leiðandi eru ekki settar miklar kvaðir á ferðalög bólusettra Íslendinga til margra þessara landa. Þetta gæti þó breyst umtalsvert breytist staða Íslands til hins verra. Sé fólk óbólusett er yfirleitt gerð krafa um framvísun neikvæðs PCR-prófs og þá er gerð er krafa um forskráningu í þeim flestum. Bandaríkin og Kanada skera sig nokkuð úr enda er ferðabann í gildi til þessara landa með nokkrum undantekningum.
Vert er að taka fram að sóttvarnalæknir mælir gegn ferðalögum óbólusettra til áhættusvæða, líkt og tekið er fram á vef utanríkisráðuneytisins þar sem finna má ferðaráð vegna COVID-19.
Spánn og Portúgal
Allir farþegar á leið til Spánar þurfa að forskrá sig áður en þeir leggja af stað. Ferðamenn sem koma frá lágáhættusvæðum líkt og Íslandi þurfa ekki að framvísa neinum vottorðum. Eftir að forskráningu lýkur ættu íslenskir ferðamenn því að fá QR kóða sem segir að viðkomandi eigi að fá flýtimeðferð við komuna til landsins. Á Spáni er grímuskylda í almenningssamgöngum og þar sem ekki er hægt að halda 1,5 metra fjarlægð á milli fólks.
Frá 1. júlí hafa starfræn evrópsk COVID-19 vottorð verði tekin gild í Portúgal sem leyfa fullbólusettu fólki að ferðast þangað án þess að þurfa að framvísa neikvæðu PCR prófi. Óbólusettir ferðamenn þurfa sýna neikvætt PCR próf sem tekið hefur verið innan 72 klukkustunda fyrir brottför. Einnig er í boði að framvísa neikvæðu hraðprófi sem tekið er innan við 48 klukkustundum fyrir brottför. Þá þurfa allir farþegar að forskrá sig fyrir komuna til landsins.
Svipaðar reglur gilda fyrir ferðalanga á leið til Asoreyja og Madeira. Þó er í boði að fara í skimun við komu og fara í sóttkví á meðan beðið er eftir niðurstöðu, sem ætti að taka á bilinu 12 til 24 klukkustundir.
Mismunandi reglur innan Bretlandseyja
Allir sem koma frá grænum löndum geta sótt England heim. Þó þurfa allir, líka þeir sem eru fullbólusettir eða hafa smitast af COVID-19, að fara í PCR próf á öðrum degi eftir komuna til landsins. Á vef utanríkisráðuneytisins segir að þann 19. júlí, í gær, hafi flestum takmörkunum verið aflétt á Englandi. Þó þarf að nota grímur í almenningssamgöngum í London og einhverjar verslanir munu áfram krefjast grímunotkunar.
Áður en fólk frá grænum löndum ferðast til Skotlands, Wales og Norður-Írlands þarf það að taka COVID próf. Allir ferðalangar frá grænum löndum þurfa svo að fara í annað próf innan við tveimur dögum eftir komuna til landsins. Þá þurfa allir að forskrá sig fyrir brottför til þessara svæða.
Á Írlandi er nóg að framvísa bólusetningarvottorði eða vottorði sem sýnir fram á að ferðamaður hafi smitast af COVID-19 á síðustu 180 dögum við komuna til landsins. Aðrir þurfa að framvísa neikvæðri niðurstöðu úr PCR prófi sem var tekið innan við 72 klukkustundum fyrir brottför. Þá þurfa allir sem hyggja á ferðalög til landsins að forskrá sig fyrir brottför.
Regluleg próf í Danmörku...
Á vef utanríkisráðuneytisins segir að bólusettir einstaklingar frá grænum, gulum og appelsínugulum löndum þurfi ekki að fara í skimun við komu til Danmerkur en Ísland er skilgreint sem grænt land. Óbólusettir frá grænum löndum þurfa heldur ekki að fara í skimun.
Reglur innanlands í Danmörku eru frábrugðnar reglum á Íslandi. Til að mynda er víða gerð krafa um fólk framvísi sérstökum kórónuveirupassa. Fólk þarf að sýna passann ætli það sér að heimsækja söfn, kvikmynda- og leikhús, dýragarða og aðra samkomustaði. Þá er gerð krafa um framvísun slíks passa á veitingahúsum og börum. Í passanum er að finna QR kóða sem sýnir niðurstöðu úr síðastu skimun fyrir kórónuveirunni. Passarnir eru í gildi í 96 klukkustundir eftir síðasta PCR próf en í 72 klukkustundir eftir hraðpróf. Víðsvegar um landið er hægt að fara í slík próf en þau eru ókeypis.
...sem og í Þýskalandi
Staðan er nokkuð svipuð í Þýskalandi og í þeim löndum sem upp hafa verið talin. Þeir sem ekki eru fullbólusettir eða hafa smitast af veirunni þurfa að sýna neikvætt PCR próf sem tekið hefur verið innan við 48 klukkustundum fyrir brottför.
Almenn grímuskylda er í landinu innandyra, svo sem í búðum og á veitingastöðum og almenningssamgöngum. Þá þarf fólk að geta sýnt fram á nýlega neikvæða niðurstöðu úr sýnatöku ef það er ekki bólusett eða með vottorð um fyrra smit, svipað og tíðkast í Danmörku.
„Íbúum Þýskalands er boðið upp á ókeypis skyndipróf (Antigen eða „Schnelltest“ á þýsku) tvisvar viku og ferðamenn geta einnig nýtt sér það, stundum fyrir smá gjald. Stundum þarf niðurstöðu úr slíku prófi til þess að komast í verlanir sumar og á innisvæði veitingastaða, en bólusetningarvottorð og vottorð um fyrri smit eru oftast einnig tekin gild,“ segir á vef utanríkisráðuneytisins.
Bann við ferðalögum til Bandaríkjanna og Kanada
Bandaríkin eru töluvert sér á parti í þessari upptalningu en þar er í gildi ferðabann gagnvart ríkisborgurum Schengen-ríkjanna sem gildir þá einnig um Íslendinga. Þó geta handhafar ákveðinna áritana fengið undanþágu frá ferðabanninu sem sækja þarf sérstaklega um, líkt og fram kemur á vef utanríkisráðuneytisins.
Fyrir flug til Bandaríkjanna er gerð krafa um að allir, einnig þeir sem eru bólusettir, sýni fram á neikvætt próf sem er ekki eldra en 72 klukkustunda gamalt. Eftir komuna til landsins er mælt með því að ferðamenn fari í skimun þremur til fimm dögum eftir komuna til landsins. Óbólusettir farþegar þurfa hins vegar að sæta sóttkví í sjö daga eftir komuna til landsins og fara í COVID-19 próf þremur til fimm dögum eftir komu.
Svipað er uppi á teningnum í Kanada. Landamærin eru ekki opin fyrir fólk með búsetu á Íslandi, nema viðkomandi sé með búseturétt í Kanada, sé kanadískur ríkisborgari, náinn ættingi kanadísks ríkisborgara eða eigi brýnt erindi til landsins vegna vinnu.