Atvik sem áttu sér stað í apríl, þegar lögregla fylgdi í tvígang eftir ábendingu sem sneri að strokufanga sem lögregla leitaði að, er ekki til skoðunar hjá nefnd um eftirlit með lögreglu. Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri taldi svo vera, líkt og kom fram í viðtali við hana í Kjarnanum um helgina. Nefndin mun fá gögn frá ríkislögreglustjóra í vikunni og mun málið þannig komast formlega á dagskrá hjá nefndinni, tveimur mánuðum eftir að atvikin áttu sér stað.
Nokkurs misskilnings hefur gætt í málinu, ef marka má samskipti ríkislögreglustjóra og nefndar um eftirlit með lögreglu, sem Kjarninn hefur fengið upplýsingar um.
Málið sem um ræðir snýr að störfum og verklagi lögreglu sem var að bregðast við ábendingum tengdum tvítugum karlmanni sem slapp úr haldi lögreglu við Héraðsdóm Reykjavíkur í lok apríl. Í tvígang, á jafn mörgum dögum, brást lögregla við ábendingum þar sem reyndist svo ekki um að ræða strokufangann heldur sextán ára dreng. Drengurinn er dökkur á hörund líkt og strokufanginn og með svipaða hárgreiðslu.
Ríkislögreglustjóri taldi málið komið inn á borð nefndar um eftirlit með lögreglu
Atvikin ýfðu upp umræðu um kynþáttamörkun (e. racial profiling) og sat ríkislögreglustjóri fyrir svörum á opnum fundi allsherjar- og menntamálanefndar í maí þar sem hún ræddi verklag lögreglu í málinu sem og fræðslu og menntun lögreglumanna um fjölmenningu og fordóma. Á fundinum sagði hún að ekki hafi verið um kynþáttamiðaða löggæslu að ræða tilfelli 16 ára drengsins.
Nefndin taldi ekki ástæðu til að taka upp málið að eigin frumkvæði
Á þessum tímapunkti, í lok maí, var nefndin enn að skoða hvort rétt væri að taka málið upp að eigin frumkvæði. Nefndin komst stuttu síðar að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til þess að svo stöddu.
Svo virðist sem þeim skilaboðum hafi ekki verið komið til ríkislögreglustjóra, sem fullyrti í viðtali við Kjarnann um síðustu helgi að málið væri til skoðunar hjá nefnd um eftirlit með lögreglu.
„Við erum ekki rétta fólkið til að meta okkur. Það er enginn þar. Málið er komið til nefndar um eftirlit með lögreglu sem mun leggja óháð mat á þetta mál og afskipti lögreglu,“ segir Sigríður Björk meðal annars í viðtalinu.
Nefnd um eftirlit með lögreglu hafði samband við ríkislögreglustjóra eftir viðtal í Kjarnanum
Þegar Kjarninn spurðist fyrir hjá nefndinni um hvenær von væri á niðurstöðu sagði að engin kvörtun hefði borist vegna málsins og það væri því ekki til meðferðar hjá nefndinni. Eftir að viðtalið við ríkislögreglustjóra birtist um helgina hafði fulltrúi nefndarinnar samband við embættið. Nefnd um eftirlit með lögreglu ber ekki að upplýsa ríkislögreglustjóra um hvaða mál koma inn á borð til hennar. Í þessu tilviki láðist embætti ríkislögreglstjóra að upplýsa nefndina um kvörtun vegna málsins og framsendi henni erindið þegar upp komst um það.
Í svari ríkislögreglustjóra við fyrirspurn Kjarnans segir að misskilnings hafi gætt meðaal starfsmanna um að „málsaðili sjálfur ætlaði að leita til nefndarinnar, en það var ekki gert.“
Embætti ríkislögreglustjóra ætlar sjálft senda inn upplýsingar vegna málsins og beita sér fyrir að málið sé skoðað. „Embættið ákvað það þegar ljóst var að málið væri ekki komið til nefndar um eftirlit með lögreglu í kjölfar opins nefndarfund Alþingis,“ segir í svari embættisins.
Ríkislögreglustjóri hélt því, í tvígang, að málið væri komið til nefndar um eftirlit með lögreglu, en svo reyndist ekki vera. Úr því hefur nú verið bætt og verður formlegt erindi og upplýsingar frá embætti ríkislögreglustjóra sent í vikunni til nefndar um eftirlit með lögreglu vegna málsins, tveimur mánuðum eftir að atvikin áttu sér stað.
Fordæmi fyrir því að ríkislögreglustjóri beiti sér fyrir því að nefndin taki upp mál
Nefnd um eftirlit með lögreglu er sjálfstæði og óháð stjórnsýslunefnd og hefur verið starfandi frá 1. janúar 2017. Eitt af meginhlutverkum nefndarinnar er að taka við tilkynningum frá borgurum sem varða ætlaða refsiverða háttsemi starfsmanns lögreglu, starfsaðferðir lögreglu eða framkomu starfsmanns lögreglu.
„Í tilfelli þessa máls er um að ræða tilkynningu um meintar ámælisverðar starfsaðferðir lögreglu sem ríkislögreglustjóri fékk munnlega á fundi. Verið er að vinna erindi til nefndarinnar af fundinum, ásamt gögnum sem verður í kjölfarið sent til nefndarinnar í samræmi við lögreglulög og reglur um nefnd um eftirlit með lögreglu,“ segir í svari embættis ríkislögreglustjóra til Kjarnans um stöðu málsins. Ríkislögreglustjóri hefur áður beitt sér í að koma málum til nefndarinnar.
Nefndin er skipuð þremur nefndarmönnum. Skúli Þór Gunnsteinsson lögfræðingur er tilnefndur dómsmálaráðherra og er hann jafnframt formaður nefndarinnar. Þorbjörg Inga Jónsdóttir hæstaréttarlögmaður er tilnefnd af Mannréttindaskrifstofu Íslands og Kristín Edwald hæstaréttarlögmaður er tilnefnd af Lögmannafélagi Íslands.