„Því miður kemur það okkur ekki á óvart að varphænur séu með áverka og beinbrot þar sem þær eru ræktaðar og fóðraðar til að verpa mun fleiri eggjum en þeim er eðlislægt sem skerðir lífsgæði og styttir líftíma þeirra til muna,“ segir Valgerður Árnadóttir, formaður Samtaka grænkera á Íslandi. Kjarninn greindi frá því nýlega að gera megi ráð fyrir að um 85 prósent varphæna á íslenskum eggjabúum séu með skaða á bringubeini – brot eða sprungur – líkt og kom fram í niðurstöðu nýrrar, danskrar rannsóknar.
Aðbúnaður á dönskum og íslenskum eggjabúum er sambærilegur og því má, að sögn dýralæknis hjá Matvælastofnun, yfirfæra rannsóknarniðurstöðurnar á Ísland. Ástæður áverkanna eru nokkrar. Ein er sú að of litlar hænur eru látnar verpa of stórum eggjum og það um 300 stykkjum á ári. Önnur er sú að hænur eiga það til að fljúga á innréttingar í eldishúsunum. „Þær bara brotlenda,“ segir Brigitte Brugger, sérgreinadýralæknir í heilbrigði og velferð alifugla hjá MAST.
Valgerður segir það þekkt í þéttbærri eggjaframleiðslu að hænurnar deyi vegna einskærs álags og nái ekki einu sinni að þrauka fram á 15 mánaða aldur þegar þær eru aflífaðar. Hún bendir hins vegar á að náttúruleg lífsævi hænsna spanni vel yfir sjö ár. Í stórum búum megi hæglega gera ráð fyrir að á hverju ári komi hundruð, jafnvel þúsundir, hænsna til með að deyja langt fyrir aldur fram úr streitu. „Þessi [danska] rannsókn minnir okkur enn og aftur á að ekki er allt með felldu þegar kemur að eggjaframleiðslu og okkur þykir gagnrýnisvert að bringubeinsbrot hafi ekki verið rannsökuð á eggjabúum hér á landi.“
Samtökum grænkera á Íslandi þykja aðstæður varphæna hér á landi óásættanlegar. Leyfilegt sé samkvæmt reglugerðum að hafa níu hænur á hvern fermetra og rækta þær í „gluggalausum skemmum“ sem samtökin segja „með öllu óásættanlegt“. Valgerður bendir á að yfirvofandi bann við notkun á búrum í varphænuhúsum, sem tekur gildi um áramót og bændur hafa fengið nokkur ár til að aðlagast, bæti aðstæður hænanna lítið. Í stað búra koma pallar sem hænurnar fara um sem að sögn dýralæknis á MAST, sem Kjarninn ræddi nýverið við, dregur t.d. ekki endilega úr áflugshættu og þar með bringubeinsbrotum.
Dýr eiga að vera laus við þjáningu
Að mati Samtaka grænkera er einfaldlega ekki verið að framfylgja lögum um velferð dýra þar sem segir „að dýr eigi að vera laus við þjáningu og fá að sýna sitt eðlilega atgervi“. Valgerður segir að varphænur fái almennt „aldrei að fara undir bert loft, kroppa í gras, fara í rykbað eða sjá sólina. Þeim er stýrt af lömpum í gluggalausum skemmum, þar sem þær þjást af brunasárum á fótum eftir eigin skít og eru meðhöndlaðar eins og þær séu hlutir en ekki skyni gæddar verur sem finna til“.
Um 200 þúsund varphænur eru á íslenskum eggjabúum. Æviskeið hænanna er stutt. Er ungarnir koma úr eggi er eins og gefur að skilja um helmingurinn hanar. Ungarnir eru kyngreindir við útungun og hanarnir aflífaðir. Nota má tvenns konar aðferðir við það hér á landi; gösun með koldíoxíði og mölun (e. shredding). Samkvæmt upplýsingum frá MAST er báðum aðferðunum beitt. Við mölunina eru notuð tæki sem eru búin hnífum eða löngum plastþráðum sem snúast hratt og sjálfvirkt. Afköst tækisins skulu vera, að því er fram kemur í svari MAST við fyrirspurn Kjarnans, „nægilega mikil til að tryggja að öll dýrin séu deydd samstundis enda þótt um mikinn fjölda geti verið að ræða í einu“. Mölun er bæði notuð til aflífunar á óklökktum ungum í eggjum sem og til aflífunar á klöktum ungum. Matvælastofnun hefur eftirlit með þessum aflífunaraðferðum í útungunarstöðvum.
„Mölun er hryllileg iðja sem fjölmörg ríki hafa réttilega bannað,“ segir Valgerður. Að kæfa ungana með gasi sé „lítt skárri“ aðferð og geti valdið löngum og kvalarfullum dauðdaga. „Sögurnar sem við höfum heyrt frá eggjabúum eru þannig að ekki er mikið eftirlit haft með þessari framkvæmd. Jafnan eru ungar settir í gám sem útblástur vinnuvélar er tengdur við þar til þeir kafna. Það getur tekið marga klukkutíma.“
Valgerður segir að af þessu viti hinn almenni neytandi ekki „og heldur ekki að varphænur og kjöthænur sem ræktaðar eru til átu eru sitthvor stofninn og að allir karlkyns ungar sem fæðast í eggjaiðnaði eru drepnir stuttu eftir að þeir klekjast út“.
Þýskaland er meðal þeirra ríkja sem hafa ákveðið að banna mölun lifandi hænuunga. Bannið tekur gildi um næstu áramót. Frá þeim tíma þarf að kyngreina ungana meðan þeir eru enn í eggi áður en þeir eru malaðir. Áfram á að keppast við, líkt og segir í frétt Wall Street Journal um þetta málefni, að þróa aðferðir svo hægt sé að kyngreina snemma á fósturskeiði til að lágmarka þjáningar.
Eftirlitsaðilinn heitir Matvælastofnun
Um aðbúnað alifugla og þar með varphæna á Íslandi gildir reglugerð um velferð alifugla. Í henni kemur fram hversu þéttleikinn í eldishúsunum má vera mikill, hvernig verja skuli dýrin fyrir sýkingum, hvernig innréttingar skulu vera, fóðrun og svo framvegis. Í frétt Kjarnans um bringubeinsskaðann kom hins vegar fram að MAST sinnir ekki nákvæmri læknisskoðun á hænunum, t.d. hvort að þær séu með áverka á bringubeinum. Eftirlit stofnunarinnar felist í því að taka út húsin og fuglahópinn í heild og ganga úr skugga um að öll ákvæði reglugerðarinnar séu uppfyllt.
„MAST er eins og nafnið gefur til kynna Matvælastofnun,“ segir Valgerður. Stofnunin hafi ætíð sinnt eftirliti sínu á þann hátt „að dýr séu matvara og þeirra helstu áherslur liggja í að vernda neytandann og passa upp á hreinlæti matvöru. Velferð dýra er ekki í fyrsta sæti og verður það ekki á meðan þau eru meðhöndluð sem hlutir“.
Hún telur að MAST, eins og svo margar aðrar eftirlitsstofnanir á Íslandi, sé eflaust vanfjármögnuð og að þar sé of fátt starfsfólk til að sinna ítarlegu eftirliti. „Besta lausnin væri að færa eftirlit með velferð dýra í aðra stofnun sem lætur sér raunverulega annt um að aðbúnaður dýra uppfylli lög og reglur um að þau séu, líkt og kveðið er á um í dýravelferðarlögum, „laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur og að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt“.”
Er hægt að búa svo um hnútana að fólk geti keypt og neytt hænueggja án þess að þar búi að baki þjáningar dýra?
„Karlkyns ungar í eggjaiðnaði munu alltaf vera drepnir og munu því alltaf þjást,“ svarar Valgerður. „En það eru til minni bú og einstaklingar með hænur sem búa við góðar aðstæður í litlum hópum og fá að fara út og haga sér eins og þeim er eðlislægt. Þessi bú eru þó ekki mörg og framleiða ekki mikið af eggjum.“
Valgerður segir að á meðan fjárhagslegur gróði vegi þyngra en velferð hæna verði þessu ekki breytt. „Það var ekki fyrr en tiltölulega nýlega að fólk fór að neyta hænueggja í svona miklum mæli,“ segir hún. „Egg eru engin nauðsynjavara sem krefst þess að þau séu framleidd á þann hátt að þau séu sem ódýrust. Slík framleiðsla hér á landi hefur orðið til þess að fáeinir einstaklingar hafa hagnast fjárhagslega og það hefur komið sér illa við smærri framleiðendur sem vilja veita hænum betra líf að keppa við lágt vöruverð verksmiðjubúskapar.“
Enn mikið tabú
„Það er alls ekki nægur gaumur gefinn að dýravelferðarmálum á Íslandi,“ segir Valgerður. „Við erum langt á eftir ríkjum sem við viljum bera okkur saman við og enn ríkir mikið tabú yfir málefninu. Það hefur þó orðið einhver vitundarvakning, aðallega meðal ungs fólks, sem hefur leitt til þess að æ fleiri kjósa að lifa án þess að neyta dýraafurða eða gera þá kröfu að dýrin búi við góð skilyrði. Því miður þá er það reynsla okkar að fjárhagslegir hvatar ráða þegar kemur að dýraeldi á Íslandi og velferð þeirra mætir afgangi.“
Samtök grænkera á Íslandi vona að með auknu upplýstu samtali um málefni dýra verði umfangsmeiri vitundarvakning.
„Til að bæta aðstæður dýra þarf sameiginlegt átak ráðamanna og almennings, aukið eftirlit, strangari reglur og viðurlög.“ Hvað varðar getu neytenda til að hafa áhrif til að aðstæður dýra verði bættar segir Valgerður fólk til dæmis geta hætt að styðja slæmar aðstæður þeirra í svokölluðu þauleldi og hætta einfaldlega að versla vörur sem framleiddar eru með þeim hætti.