Yfirstandandi heimsfaraldur gæti leitt til mikils bakslags í baráttunni gegn kyndbundnu ofbeldi, en búist er við að það aukist um fimmtung þegar útgöngubann stendur yfir. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu hjálparsamtakanna Oxfam um stöðu ójafnaðar í heiminum sem kom út fyrr í dag.
Faraldur kynbundins ofbeldis
Samkvæmt samtökunum geisar nú faraldur kynbundins ofbeldis sem hefur magnast upp vegna ýmissa afleiðinga faraldursins. Þar nefna þau sérstaklega útgöngubann, en einnig hafi aukið efnahagslegt óöryggi, og erfiðara aðgengi að vörum og þjónustu leitt til þess að líkur á slíku ofbeldi hafi aukist.
Í skýrslunni er vitnað í niðurstöður mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna, en samkvæmt þeim myndi þriggja mánaða útgöngubann á heimsvísu leiða til 15 milljóna heimilisofbeldisatvika. Vandinn hefur einnig aðrar birtingamyndir, en samkvæmt Sameinuðu þjóðunum myndu tveimur milljónum kvenna vera meinaður aðgangur að getnaðarvörnum á þeim tíma.
Þar að auki hefur morðtíðni á meðal kvenna og transfólks hækkað, en konur í Bretlandi eru nú þrisvar sinnum líklegri til að vera myrtar en þær voru fyrir áratug síðan. Sömuleiðis hafa morð á transfólki aukist um sex prósent, en þar eru 98 prósent fórnarlambanna transkonur.
Þrátt fyrir þessar vísbendingar hefur litlu sem engu fé verið varið í að bæta stöðu þessara þjóðfélagshópa í sérstökum aðgerðarpökkum stjórnvalda, en samkvæmt Oxfam hefur 0,0002 prósent af viðbragðsaðgerðum þeirra vegna veirunnar farið til að berjast gegn kynbundnu ofbeldi.