Elon Musk, eigandi Twitter og ríkasti maður í heimi, ætlar að veita öllum þeim sem hafa verið bannaðir á samfélagsmiðlinum, fyrir nær hvaða sakir sem er, heimild til að snúa aftur á miðilinn.
Ákvörðunina tók Musk eftir að niðurstöðu óformlegrar skoðanakönnunar sem hann gerði á Twitter-aðgangi sínum í vikunni. Þegar 72 prósent svarenda sögðust fylgjandi því að hleypa brottrækum Twitter-notendum aftur á miðilinn lýsti Musk því yfir að bannaðir notendur fá að snúa aftur í næstu viku. Þó ekki þeir sem hafa brotið lög.
Trump, sem undirbýr sig nú fyrir forsetaframboð 2024, hyggst þó ekki snúa aftur, að minnsta kosti ekki í bráð. Twitter-aðgangi Trump var eytt eftir árásina á þinghúsið í Washington í janúar í fyrra.
Aðeins Trump sjálfur getur svarað af hverju hann vill ekki snúa aftur, en ástæðurnar eru líklega fyrst og fremst fjárhagslegar skuldbindingar sem Trump þarf að standa við sem tengjast hans eigin samfélagsmiðli, Truth Social.
„Fólkið hefur talað“
Yfir 3,1 milljón Twitter-notenda tók þátt í skoðanakönnun Musk og kusu 72,4 prósent með því að leyfa hinum brottræku að snúa aftur.
„Fólkið hefur talað. Sakaruppgjöfin hefst í næstu viku,“ tjáði Musk 118,9 milljón fylgjendum sínum.
The people have spoken.
— Elon Musk (@elonmusk) November 24, 2022
Amnesty begins next week.
Vox Populi, Vox Dei.
Ekki liggur fyrir hvernig nákvæmlega almenna sakaruppgjöfin mun fara fram. Musk hefur nú þegar gert aðganga rapparans Ye (áður Kanye) og umdeilda áhrifavaldsins Andrew Tate virka á ný. Samsæriskenningasmiðurinn Alex Jones verður hins vegar ekki boðinn velkominn aftur á Twitter. Jones hefur meðal annars verið gert að greiða 1,44 milljarða Bandaríkjadali í skaðabætur til aðstandenda fórnarlamba í skotárásinni í Sandy Hook-grunnskólanum árið 2012 fyrir að halda því statt og stöðugt fram að árásin hafi verið sviðsett. 20 börn og sex fullorðnir létust í skotárásinni.
Musk greiddi 44 milljarða bandaríkjadala fyrir Twitter. Kaupin gengu ekki snurðulaust fyrri sig. Musk keypti fyrst hlutabréf í Twitter í upphafi árs og í byrjun apríl var hlutur hans í fyrirtækinu kominn yfir níu prósent og var hann þar með orðinn meðal stærstu hluthafa í Twitter og bauðst að taka sæti í stjórn fyrirtækisins. Hann afþakkaði boðið og sagði ljóst að samfélagsmiðillinn gæti hvorki dafnað né þjónað tilgangi sínum í núverandi formi.
Í kjölfarið gerði hann yfirtökutilboð upp á 44 milljarða Bandaríkjadala sem stjórn Twitter hafnaði í fyrstu en ákvað svo að ganga að. Yfirtakan komst þó í nokkuð uppnám í maí, áður en hluthafar höfðu tekið afstöðu til tilboðsins, þegar Musk sakaði Twitter um að standa í vegi fyrir því að hann fengi upplýsingar um hversu hátt hlutfall notenda miðilsins eru gervimenni (e. bots).
Í tísti sem hann sendi frá sér greindi hann frá því að kaup hans á samfélagsmiðlinum hefðu verið sett á ís þar sem hann væri að bíða eftir gögnum sem gætu rökstutt fullyrðingar Twitter um að hlutfall gervimenna á samfélagsmiðlinum væri innan við fimm prósent.
Allt stefndi í að möguleg yfirtaka ríkasta manns heim yrði gerð upp fyrir dómstólum en í lok október gekk Musk loks frá kaupunum, degi áður en lokafrestur til þess rann út. „Fuglinn er frjáls!“ tísti Musk. Meðal fyrstu verka hans sem eigandi Twitter var að segja upp tæplega helmingi starfsfólks og leggja mannréttindadeild fyrirtækisins niður.
Aukin áreitni, hatur og upplýsingaóreiða
Nú hefur hann bætt í og ákveðið að hleypa fjölda notenda aftur á miðilinn sem hafði verið úthýst. AP-fréttastofan bendir á að skoðanakönnunin sem Musk byggir ákvörðun sína á er langt frá því að vera vísindaleg og að auðvelt sé fyrir gervimenni að hafa áhrif á niðurstöðuna.
Sérfræðingar á sviði netöryggis benda á að ákvörðun Musk mun leiða til aukinna áreitni, hatursorðræðu upplýsingaóreiðu á Twitter.
Musk var ekki lengi að bregðast við frétt AP eins og honum einum er lagið og sagði Twitter aldrei geta keppt við AP-fréttastofuna þegar kemur að upplýsingaóreiðu.
New Twitter owner Elon Musk said he is granting "amnesty” for suspended accounts, which online safety experts predict will spur a rise in harassment, hate speech and misinformation. https://t.co/aZ0NyUP7Fp
— The Associated Press (@AP) November 24, 2022