Bólusetningarhlutfall meðal óléttra kvenna í Bandaríkjunum er með því lægsta sem finnst í landinu. Læknar telja nokkrar ástæður vera fyrir því að óléttar konur láti ekki bólusetja sig en að rangar eða villandi upplýsingar um aukaverkanir spili þar hlutverk. Læknar í Texas segja að fjöldi óléttra kvenna sem lagðar hafi verið inn á sjúkrahús í ríkinu með COVID-19 upp á síðkastið sé meiri en nokkru sinni áður í faraldrinum.
Í byrjun september höfðu um 25 prósent barnshafandi kvenna á aldrinum 18-49 ára fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni. Bólusetningarhlutfallið í þessum aldurshópi almennt er hins vegar um 60 prósent.
Smitsjúkdómastofnun Bandaríkjanna hefur um hríð mælt með því að óléttar konur og konur með börn á brjósti láti bólusetja sig og studdi þá ákvörðun sína með vísindagögnum. En heilbrigðisstarfsfólk segir tregðu til bólusetningar í hópnum enn mikla.
Í grein Texas Tribune, þar sem fjallað er um þessi mál, segir að óléttar konur og konur með börn á brjósti séu sjaldan hafðar með í klínískum rannsóknum á bóluefnum. Hins vegar hafa nú komið fram gögn sem sýna að bólusetning veldur ekki aukinni hættu á fósturmissi eða á fósturskaða.
„Við erum að sjá sífellt fleiri þeirra veikjast alvarlega,“ hefur Texas Tribune eftir Manishu Gandhi, yfirlækni á kvennadeild Pavilion-sjúkrahússins og prófessor við Baylor-læknaháskólann í Houston.
Í ágúst í fyrra voru meira en fimmtán óléttar konur lagðar inn á sjúkrahúsið með COVID-19. Í sama mánuði í ár var fjöldinn næstum því tvöfalt meiri.
Gandhi segir að skýringin felist m.a. í útbreiðslu delta-afbrigðisins, sem leggist þyngra á óléttar konur „svo þær veikjast miklu hraðar“.
Falsfréttir á samfélagsmiðlum eru að sögn Jerald Goldstein, læknis og frjósemissérfræðings í Texas, á sveimi. Í þeim er því m.a. haldið fram að bólusetning gegn COVID-19 geti valdið ófrjósemi. Þetta hafi áhrif, margir taki þessu sem heilögum sannleik og neiti að láta bólusetja sig. Niðurstaða nýlegrar rannsóknar, sem birt var í vísindatímaritinu American Society for Reproductive Medicine journal, er sú að hvorki það að veikjast af COVID-19 eða bólusetning gegn sjúkdómnum valdi ófrjósemi.
Bandarísk yfirvöld hafa lent á vegg í bólusetningarátaki sínu. Stefnt var að því að um 75 prósent fullorðinna væru búnir að fá að minnsta kosti annan skammt bóluefnis í júlí. Hlutfallið er hins vegar enn langt undir því markmiði. Um 54 prósent þeirra eru fullbólusettir.
Biden breytir um tón
Joe Biden Bandaríkjaforseti, sem reynt hefur að nota föðurlegan tón og hvatningu til að fá fólk til að láta bólusetja sig, skipti hressilega um gír í síðustu viku og sagði nóg komið. Þær 80 milljónir manna sem ekki hefðu látið bólusetja sig væru að skapa hættu fyrir þjóðina; bæði heilsufarslega og efnahagslega. Því hefði hann ákveðið að skylda fólk sem starfar fyrir hið opinbera að vera bólusett. Einnig setti hann á allt að því sambærilega skyldu fyrir fyrirtæki þar sem vinna 100 manns eða fleiri.
Biden tilkynnti nokkru áður að allir sem fengið hefðu tvo skammta af bóluefni stæði til boða að fá þann þriðja. Mjög skiptar skoðanir eru um þörfina á slíkri örvun á þessum tímapunkti og hvorki Alþjóða heilbrigðismálastofnunin, Sóttvarnastofnun Evrópu né Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna hafa mælt með slíku.
Sérfræðinganefnd á vegum þeirrar síðastnefndu mun fjalla um áform Bidens á fundi sínum í dag og meta hvort tilefni sé til að breyta ráðleggingum, m.a. út frá gögnum frá Pfizer, lyfjafyrirtækinu sem framleiðir bóluefnið sem einna mest hefur verið notað í Bandaríkjunum. Samkvæmt þeim gögnum minnkar mótefnasvar líkamans nokkrum mánuðum eftir bólusetningu, sem er ekki óvænt, en spurningin er: Mun það minnka þá vörn sem bóluefnið veitir?
Svo umdeilt er málið innan stofnunarinnar að í það minnsta tveir hennar helstu sérfræðingar hafa sagt upp störfum eftir að Biden tilkynnti um örvunarherferðina sem á að hefjast í næstu viku.
FDA hefur samþykkt örvun bólusetninga hjá þeim sem vegna sjúkdóma eða aldurs eru með veiklað ónæmiskerfi. En hvort örvunarbólusetningar sé þörf og hvort hún sé örugg fyrir hraust fólk undir sextugu er mjög umdeilt.
Til að hámarka virkni hvers skammts af bóluefni sem er takmörkuð auðlind á heimsvísu ætti að gefa hann óbólusettum einstaklingi. Áskorunin vestanhafs fellst aðallega í því að vinda ofan af falsfréttunum og bólusetja allar þær milljónir sem engan skammt hafa þegið. Að örva þegar bólusetta með þeim þriðja kann að verða nauðsynlegt á einhverjum tímapunkti en ætti ekki að vera forgangsmál í augnablikinu.
Komið var að miður ánægjulegum tímamótum í faraldrinum í Bandaríkjunum í gær. Þá var svo komið að einn af hverjum 500 Bandaríkjamönnum hefði látist úr COVID-19. „Við erum eiginlega á þeim stað sem spár gerðu ráð fyrir ef við hefðum leyft faraldrinum að ganga yfir hindranalaust,“ hefur Washington Post eftir Jeffrey D. Klausner, prófessor í læknisfræði og lýðheilsufræðum við Háskóla í Suður-Kaliforníu.