Oksana Chusovitina var í sigurliði leikanna í Barselóna 1992 og býr sig nú undir að taka þátt í sínum áttundu Ólympíuleikum. Hún er 46 ára og verður elst til að taka þátt í fimleikakeppni Ólympíuleikanna, slær eigið met frá því í Ríó þegar hún keppti 41 árs. Chusovitina keppir nú fyrir heimaland sitt Úsbekistan.
Hóf ferilinn fyrir Sovétríkin
Þegar Chusovitina hóf sinn keppnisferil í fimleikum keppti hún undir merkjum Sovétríkjanna. Eftir að þau liðu undir lok keppti hún í eitt skipti fyrir Samveldi sjálfstæðra ríkja, en fyrrum Sovétlýðveldin sendu lið undir því nafni á Ólympíuleikana 1992, þá fyrstu sem Chusovitina keppti á. Á árunum 1993 til 2005 keppti hún fyrir Úsbekistan en flutti svo til Þýskalands og keppti með þýska landsliðinu í nokkur ár áður en hún sneri aftur í úsbeska landsliðið sem hún hefur keppt fyrir frá 2013.
Chusovitina státar af níu gullverðlaunum á stórmótum, 14 silfurpeningum og níu bronsmedalíum. Og hún er ekki hætt að komast á pall, hún vann til dæmis silfur í stökki á Asíuleikunum árið 2018, þá 43 ára. Stökk er hennar sérgrein og hún hefur sagt í viðtölum að hún telji sig eiga góða möguleika á að keppa um verðlaun í Tókýó. Hún varð sjöunda í keppni á stökki í Ríó, þannig að hún er sannarlega enn á meðal þeirra allra bestu. Besti einstaklingsárangur hennar á Ólympíuleikum er silfur á stökki á leikunum 2008.
Ferill hennar spannar lengri tíma en ævi flestra fimleikakvenna sem Chusovitina etur kappi við. Simone Biles, besta fimleikakona heims, er til dæmis fædd árið 1997. Chusovitina hafði þegar keppt á tvennum Ólympíuleikum þegar Biles kom í heiminn og býr sig nú undir sína áttundu og síðustu. Raunar voru aðeins þrjár fimleikakonur sem skráðar eru til leiks á Ólympíuleikunum í Tókýó fæddar þegar Chusovitina tók þátt í sínum fyrstu Ólympuleikum, engu að síður er hópurinn nú eldri en oftast áður.
Meðalaldur fer hækkandi
Meðalaldur kvennanna 98 sem taka þátt í fimleikakeppni á Ólympíuleikunum í Tókýó er 21 ár og 11 mánuðir. Á Ólympíuleikunum í Ríó 2016 var meðalaldur fimleikakvenna 20 ár og níu mánuðir og er um töluvert stökk að ræða. Meðalaldur í þessari vinsælustu keppni hverra Ólympíuleika hefur ekki verið svona hár frá árinu 1964, ef marka má frétt NBC Sports um málið.
Oft hefur ungur aldur fimleikakvenna verið gagnrýndur, en svo virðist sem margar þjóðir sendi nú eldri fimleikakonur til leiks en áður. Frá árinu 2000 hefur reglan verið sú að til að fá að keppa á Ólympíuleikum þurfi fimleikakona að hafa náð 16 ára aldri þegar hún keppir.
Áður var tilhneigingin sú að senda sífellt yngri stúlkur til leiks. Margir muna til dæmis eftir því þegar bandaríska kvennaliðið vann gull í fyrsta sinn á Ólympíuleikum. Það var á leikunum í Atlanta árið 1996, en margir muna eftir tilfinningaþrunginni stund þegar ljóst var að Kerri Strug hefði meiðst. Hún lauk engu að síður keppni, með slitin liðbönd, og liðið náði Ólympíugulli og hlaut heimsfrægð í kjölfarið. Sú elsta í bandaríska liðinu var á þessum tíma 19 ára og sú yngsta aðeins 14 ára.
Ljóst er því að margt hefur breyst frá því þegar alsiða var að senda unglinga á Ólympíuleika til að keppa í fimleikum kvenna. Meðalaldur kvenna í fimleikakeppninni á Ólympíuleikunum var 20 ár á leikunum í Mexíkóborg árið 1968, hann féll svo niður í 18 ára 1972 og á áttunda, níunda og tíunda áratugnum var meðalaldurinn jafnan á bilinu 16 til 18 ár, en hann hefur farið hækkandi frá árinu 2012.
Fimleikakonur yfir tvítugu í meirihluta
Oksana Chusovitina hífir meðaltalið vissulega upp, en það er ekki bara hennar aldur sem hefur áhrif. Í Tókýó verða konur 20 ára og eldri í meirihluta en táningar, 16 til 19 ára, í minnihluta. Það hefur ekkert gerst frá árinu 1968.
Tíðindum þykir sæta að tvö kvennalið sem skráð eru í ár, lið Hollands og Þýskalands, eru alfarið skipuð konum 20 ára og eldri. Síðast þegar þjóð sendi lið án táninga til keppni í fimleikum kvenna var árið 1964. Bandaríska liðið er einnig með óvenju háan meðalaldur en engin hinna bandarísku fimleikakvenna er yngri en 18 ára og fjórar eru yfir tvítugu. Aldursforsetar liðsins, Simone Biles og MayKayla Skinner, eru 24 ára gamlar. Fari þær að fordæmi Chusovitinu gætu þær enn verið í fullu fjöri á Ólympíuleikunum árið 2040.