Augu vísindamanna um allan heim beinast nú að Suður-Afríku og þróun faraldursins þar. Smitum af kórónuveirunni hefur fjölgað hratt í landinu og í ljós hefur komið að þau eru flest af veiruafbrigðinu nýja, ómíkron, sem þarlendir vísindamenn greindu fyrstir allra í lok nóvember. Afbrigðið hefur margar stökkbreytingar og hafa sumar þeirra valdið áhyggjum enda áður tengst breytingum á eiginleikum SARS-CoV-2 veirunnar hvað varðar smithæfni.
Enn er töluvert í að vísindin færi okkur fullvissu um ómíkron en fyrstu vísbendingar um alvarleika afbrigðisins eru „nokkuð uppörvandi“ sagði læknirinn Anthony Fauci, helsti ráðgjafi bandarískra stjórnvalda í faraldrinum, um helgina. Of snemmt sé þó „að hrósa happi“ enda aðeins nokkrir dagar frá því að afbrigðið uppgötvaðist og fór undir smásjánna á rannsóknarstofum vítt og breitt í veröldinni. Fyrstu vísbendingarnar sem Fauci vísaði til í viðtali um helgina eru þær að þrátt fyrir mikla fjölgun smita í Suður-Afríku hefur innlögnum á sjúkrahús ekki fjölgað ískyggilega – að minnsta kosti enn sem komið er. „Þótt það sé of snemmt að gefa út staðfestingu á þessu þá virðist ekki gríðarlegur alvarleiki fylgja [ómíkron],“ sagði Fauci. Hann ítrekaði að fara yrði varlega í allar ályktanir á þessari stundu. Ekki væri hægt að fullyrða að afbrigðið væri vægara en delta þrátt fyrir að virðast meira smitandi.
Meðal varnagla sem sérfræðingar hafa sett hvað varðar þessar fyrstu vísbendingar sem Fauci vísar til er sá að suðurafríska þjóðin er ung miðað við margar aðrar og margt ungt fólk hefur verið að greinast að undanförnu. Það sýnir flest væg og lítil einkenni en óvíst er hvaða áhrif ómíkron myndi hafa ef það yrði útbreitt í eldri aldurshópum.
Einhverja daga og jafnvel vikur þurfa að líða þar til þetta kemur í ljós og niðurstöður fást í rannsóknir á því hvort að ómíkron er raunverulega meira smitandi en delta, hvort að það sé búið eiginleikum til að komast frekar framhjá vörnum líkamans og valda alvarlegri sýkingu og hvort að bóluefnin veiti góða vörn gegn því.
„Nú þegar við erum að fara inn í fjórðu bylgju COVID-19 erum við að sjá fjölgun smita sem við höfum ekki upplifað áður,“ skrifar Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku í daglegu fréttabréfi sínu í morgun. Ómíkron sé að verða útbreiddasta afbrigði kórónuveirunnar á öllum svæðum í landinu. Af þessum sökum séu sjúkrahús landsins að undirbúa sig fyrir fjölgun innlagna. Fyrir viku greindust 2.300 manns með veiruna en á föstudag greindust yfir 16 þúsund ný smit.
Ýmsar vísbendingar en margt á huldu
Innan við 30 prósent íbúa Suður-Afríku eru bólusett. Forsetinn segir að loksins sé til nóg af bóluefni til í landinu og að bólusetning sé lykillinn að því að hefta útbreiðslu faraldursins. R-talan, sem segir til um hversu marga hver og einn sem er smitaður smitar, var 2 í Suður-Afríku í lok síðustu viku. Talan var vel undir 1 í september. Þessi þróun þykir benda til að ómíkron sé þrisvar til sex sinnum meira smitandi en delta-afbrigðið, hefur vísindatímaritið Nature eftir Richard Lessels, smitsjúkdómasérfræðingi við Durban-háskóla í Suður-Afríku. Margar breytur geta þó haft áhrif á þessa tölfræði. Ein er sú að mun fleiri sýni eru nú tekin í landinu en fyrir nokkrum mánuðum og fleiri eru raðgreind.
Sérfræðingar í Suður-Afríku hafa einnig sagt margt benda til þess að hætta á endursýkingu af COVID-19 sé þrisvar sinnum meiri vegna ómíkron en annarra afbrigða. Þeir segja hins vegar líka að hingað til virðist ómíkron ekki valda alvarlegri veikindum en delta-afbrigði veirunnar. „En við fylgjumst náið með fjölgun smita og innlagna,“ skrifar forsetinn.
Sóttvarnastofnun Evrópu hefur varað við því að miðað við fyrstu upplýsingar um smithæfni ómíkron gæti afbrigðið orðið ráðandi í Evrópu innan nokkurra mánaða. Mörg vestræn ríki eru að glíma við stóra bylgju faraldursins en af völdum delta-afbrigðisins. Sóttvarnaráðstafanir hafa á síðustu vikum verið hertar víða af þeim sökum.
Viðbrögðin við ómíkron voru svo þau að setja ferðabann á ríki í sunnanverðri Afríku. Framkvæmdastjórar Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar og Sameinuðu þjóðanna hafa hvatt til hófstilltari viðbragða og benda á að ferðabönn hafi hingað til lítið gagnast til lengri tíma. Enda hefur það þegar sýnt sig að ómíkron hefur breiðst út til á þriðja tug landa, þar með talið Íslands.
„Aðskilnaðarstefna“ ferðatakmarkana
Meðal þeirra ríkja sem ferðabönnin og takmarkanir bitna nú helst á er Nígería. Bresk stjórnvöld hafa sett Nígeríu á „rauðan lista“ sem þýðir að fólk sem ferðast þaðan þarf að fara í sóttkví í tíu daga við komuna til Bretlandseyja. Sarafa Tunji Isola, sendiherra Nígeríu í Bretlandi, segir ferðatakmarkanir á lönd Afríku vera „aðskilnaðarstefnu“. Nígería taki undir með framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í þessum efnum um að þessar takmarkanir skapi gjá milli ríkja heims á tímum þar sem samstaða sé mikilvægari en nokkru sinni áður.
Kit Malthouse, ráðherra stefnumála í bresku ríkisstjórninni, segir að orðið „aðskilnaðarstefna“ í þessu sambandi sé „óheppilegt orðalag“. Hann segir stjórnvöld í Bretlandi gera sér grein fyrir því að ferðatakmarkanir á einstök ríki valdi erfiðleikum „en við erum að reyna að kaupa okkur smá tíma svo að vísindamenn okkar geti rannsakað veiruna og metið hversu erfitt það á eftir að reynast okkur að fást við hana.“