Skammt frá miðborg Tókýó hefur keppnissvæði fyrir róður á komandi Ólympíuleikum, bæði róður á róðrabátum og á kanóum en gerður er greinarmunur á þessu tvennu. Framkvæmdir við Sea Forest Waterway keppnissvæðið gengu vonum framar og var svæðið tilbúið til notkunar í júní árið 2019. Þá var rúmt ár í að leikarnir áttu upphaflega að hefjast en sökum kórónuveirufaraldurs var þeim frestað um ár og hefjast þeir í þessari viku.
Stjórnendur keppnissvæðisins standa nú frammi fyrir nýrri áskorun. Ostrur hafa í stórum stíl komið sér fyrir á sérstökum flekum sem ætlað er að koma í veg fyrir að öldur myndist á keppnissvæðinu. Svo vel líkar ostrunum við dvölina á flekunum að þyngd þeirra er farin að reynast þeim um of, flekarnir hafa sumir hverjir færst í kaf. Frá þessu er sagt á vef BBC.
Óvæntur kostnaður upp á 160 milljónir
Vandamálið hefur reynst bæði dýrt og tímafrekt að leysa. Flekarnir hafa verið dregnir á land til viðgerða auk þess sem þeir hafa verið þrifnir af flokki kafara. Nú þegar hafa um 14 tonn af ostrum verið fjarlægðar af búnaði sem notaður er á keppnissvæðinu. Kostnaðurinn sem hlotist hefur af þessari óvæntu dvöl ostranna nemur hátt í 160 milljónum króna.
Ostrurnar sem um ræðir eru svokallaðar magaki ostrur. Þær eru ákaflega vinsæll matur á borðum Japana á veturna en ekki hefur verið talið skynsamlegt að koma þessari óvæntu uppskeru á markað.
Keppnissvæðið Sea Forest Waterway er það eina í Japan sem stenst alþjóðlega staðla fyrir róðrarkeppnir. Upphaflega stóð til að svæðið myndi verða keppnisstaður fyrir róðrarkeppnir eftir að Ólympíuleikunum lýkur. Áætlanir gera ráð fyrir að árlegur kostnaður við rekstur svæðisins nemi um 1,5 milljónum Bandaríkjadala eða tæpum 190 milljónum króna. Því ríður á að yfirvöld finni farsæla framtíðarlausn á þessu dýra vandamáli.
Leikarnir hefjast í vikunni
Setningarathöfn Ólympíuleikanna í Tókýo fer fram klukkan 11 að íslenskum tíma á föstudagsmorgun. Keppni í fótbolta og mjúkbolta, íþróttar sem svipar mjög til hafnabolta, hefst að vísu á miðvikudag. Keppt er á leikunum til 8. ágúst og fer lokahátíð leikanna fram þann sama dag, klukkan 11 fyrir hádegi að íslenskum tíma.
Enginn keppandi í íslenska hópnum mun þurfa að hafa áhyggjur af ostrunum í Tókýó en Íslendingar eiga fjóra fulltrúa á Ólympíuleikunum. Anton Sveinn Mckee keppir í 200m bringusundi, Ásgeir Sigurgeirsson keppir í skotfimi með loftskammbyssu, Guðni Valur Guðnason keppir í kringlukasti og Snæfríður Sól Jórunnardóttir keppir bæði í 100m og 200m skriðsundi.