„Ég er að sjálfsögðu mjög vonsvikinn yfir þessu áliti. Enn og aftur telur Skipulagsstofnun að það sé í lagi að gerðar séu tilraunir á íbúum Reykjanesbæjar sem margir hverjir upplifðu talsverð veikindi á meðan þessi rekstur var í gangi. Breyting á byggingu mun að mínu mati ekki breyta neinu þar um nema þá helst að dreifa menguninni yfir fleiri íbúa.“
Þannig kemst Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, að orði inntur eftir viðbrögðum við áliti Skipulagsstofnunar á matsskýrslu Stakksbergs á fyrirhuguðum endurbótum, endurræsingu og stækkun kísilverksmiðjunnar í Helguvík. Stakksberg, sem í eigu Arion banka, eignaðist verksmiðjuna og allt sem henni fylgir er Sameinað Sílikon ehf. varð gjaldþrota árið 2018. Verksmiðjan hafði aðeins verið rekin um tíu mánaða skeið á árunum 2016-2017. Ítrekaðar bilanir höfðu komið upp og ljósbogaofninn því oft keyrður á litlu afli með þeim afleiðingum að íbúar í nágrenni versins fundu oft fyrir heilsufarslegum óþægindum. Umhverfisstofnun stöðvaði reksturinn í september árið 2017. Arion banki hefur frá upphafi stefnt að því að selja kísilverið og þegar árið 2019 lagði hann fram matsáætlun um endurbætur versins og stækkun. Mati á umhverfisáhrifum þeirra fyrirhuguðu framkvæmda eru nú lokið.
Skipulagsstofnun býður í óvissuferð
Fyrirhugaðar endurbætur Stakksbergs ehf. á kísilverksmiðjunni í Helguvík eru að mati Skipulagsstofnunar líklegar til að fækka tilvikum sem ljósbogaofn er stöðvaður og stytta tíma sem hann keyrir á skertu afli. Þá eru áform um að losa útblástur um skorsteina en ekki um rjáfur síuhúss, sem bætt var við vegna aðfinnslu Umhverfisstofnunar, líkleg til að leiða til mun betri dreifingar útblástursefna, stöðugri reksturs verksmiðjunnar og stuðla að bættum loftgæðum frá því sem áður var. Engu að síður er það álit stofnunarinnar að áhrif við rekstur 1. áfanga, þ.e. eins ljósbogaofns, verði nokkuð neikvæð og áhrif fullrar framleiðslu fjögurra ofna talsvert neikvæð.
„Ég var að sjálfsögðu að vonast til þess að Skipulagsstofnun tæki af öll tvímæli í þessu máli,“ segir Guðbrandur ennfremur um niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Þó nefni stofnunin nokkur atriði sem hún telji vera neikvæð og upp í verulega neikvæð. „Engu að síður telja embættismenn Skipulagsstofnunar rétt að bjóða íbúum Reykjanesbæjar upp á óvissuferð sem hún hefði aldrei átt að heimila í byrjun.“
Guðbrandur segir að íbúar Reykjanesbæjar muni „aldrei sættast á að rekstur þessarar verksmiðju fari í gang aftur og ég óttast að verulegur ófriður muni verða nái þetta fram að ganga“.
Segir túlkun Stakksbergs ranga
Hönnun verksmiðjunnar hefur verið breytt frá því að Stakksberg lagði fram frummatsskýrslu árið 2020 og rúmast nú allar nýjar byggingar innan heimilda gildandi deiliskipulags að mati félagsins. Þetta þýði að ekki þurfi að gera nýtt deiliskipulag – aðeins breyta því í samræmi við þær byggingar sem fyrir eru og voru ekki í takti við fyrirliggjandi leyfi á sínum tíma.
Guðbrandur mótmælir þessari túlkun Stakksbergs og segir það rangt að byggingarinnar rúmist innan núgildandi deiliskipulags og „að einungis þurfi að þurfi að samræma deiliskipulagið núverandi mannvirkjum sem reist voru á grundvelli byggingarleyfa útgefnum af Reykjanesbæ.
Því er til að svara að byggingarleyfið var gefið út í góðri trú á grundvelli rangra teikninga sem lagðar voru fram af hálfu United Silicon. Því má velta því fyrir sér hver eigi að bera ábyrgð á þessum ólöglegu teikningum.“
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur ítrekað lýst yfir andstöðu sinni við að kísilverið í Helguvík verði endurræst. Spurður hvort að bæjaryfirvöld geti hindrað endurræsingu miðað við þá stöðu sem nú er komin upp segir Guðbrandur að það verði að sjálfsögðu skoðað.
„En mér finnst þetta ekki bara vera mál Reykjanesbæjar, heldur líka ríkisins sem ber ábyrgð á þeim stofnunum sem veittu heimild fyrir þessum rekstri í byrjun. Það getur engan veginn þjónað hagsmunum okkar að brenna þúsundum tonna af kolum á hverju ári í bakgarðinum hjá okkur fyrir utan aðra mengun sem af þessu hlýst.“
Guðbrandur segist einnig vilja beina ábyrgðinni á Arion banka sem geti ekki „bara falið sig á bak við eitthvert dótturfélag. Hvar eru hin grænu gildi Arion banka? Eru þau bara til að skreyta sig með?“
Álit Skipulagsstofnunar verður fljótlega sett á dagskrá bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.