Atvik sem áttu sér stað í apríl, þegar lögregla fylgdi í tvígang eftir ábendingu sem sneri að strokufanga sem lögregla leitaði að, er til rannsóknar hjá nefnd um eftirlit með lögreglu.
Í bæði skiptin reyndist ekki um eftirlýsta manninn að ræða heldur sextán ára dreng, sem er dökkur á hörund og með svipaða hárgreiðslu og umræddur strokufangi. Atvikin ýfðu upp umræðuna um kynþáttamörkun (e. racial profiling).
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri segir í ítarlegu viðtali við Kjarnann sem birt var um helgina að lögreglan geti dregið ýmsan lærdóm af atburðunum í apríl. Ríkislögreglustjóri kom fyrir allsherjar- og menntamálanefnd í maí þar sem hún ræddi verklag lögreglu í málinu sem og fræðslu og menntun lögreglumanna um fjölmenningu og fordóma. Á fundinum sagði hún að ekki hafi verið um kynþáttamiðaða löggæslu að ræða tilfelli 16 ára drengsins. Hún stendur við þá fullyrðingu en bætir við að málið sé til skoðunar hjá eftirlitsaðila.
„Við erum ekki rétta fólkið til að meta okkur“
„Við erum ekki rétta fólkið til að meta okkur. Það er enginn þar. Málið er komið til nefndar um eftirlit með lögreglu sem mun leggja óháð mat á þetta mál og afskipti lögreglu,“ segir Sigríður Björk. Ekki liggur fyrir hvenær von er á niðurstöðu nefndarinnar, ríkislögreglustjóri á enn eftir að afhenda ýmis gögn vegna rannsóknarinnar sem nefndin mun fara yfir áður en niðurstaða liggur fyrir.
Um tveir mánuðir eru nú liðnir frá því að lögregla lýsti eftir strokufanganum. Í kjölfarið spratt upp umræða, meðal annars á samfélagsmiðlum, þar sem margir fordæmdu vinnubrögð lögreglunnar og lýstu yfir vanþóknun.
Sigríður Björk fagnar umræðunni sem fór af stað og telur hana mikilvæga. Hún segir hins vegar að í raun hafi ekki verið um afskipti lögreglu að ræða, líkt og fram hefur komið í fjölmiðlum.
„Við vorum að leita að manni sem var talinn hættulegur samkvæmt sögu hans og við erum að tala um alvöru hættu. Við óskuðum eftir atbeina almennings og aðstoðar almennings, eins og við gerum oft,“ segir Sigríður Björk og bætir að samband lögreglu við almenning hafi bjargað mannslífum. Oft.
Lögreglu ber að endurskoða verklag
Sigríður Björk segir lögregluna gera sér fyllilega grein fyrir því að reynslan hafi verið drengnum erfið og lögreglu beri að endurskoða verklag í málum sem þessum. „Hefði sérsveitin ekki átt að vera kölluð út í fyrra skiptið? Við gátum ekki annað vegna þess að við erum með óvopnaða lögreglu á Íslandi. Þegar við erum að leita að manni sem hefur beitt vopnum þá sendum við ekki óvopnað fólk í það. Það er bara vinnuregla því við þurfum líka að hugsa um okkar starfsmenn. Hins vegar fórum við varlegar í seinna skiptið þannig að sérsveitin var til stuðnings.“
Ríkislögreglustjóri fundaði í tvígang með drengnum og móður hans eftir atvikin tvö. „Það sem við lærum af þessu máli er mjög margt og það má í rauninni skipta þessu viðfangsefni sem horfir við okkur í tvennt. Annars vegar viðmót og framkoma íslensku lögreglunnar en hins vegar sú menning sem fólk tekur með sér frá sínu heimalandi jafnvel, þar sem það er með ákveðna reynslu eða jafnvel væntingar eða traust sem síðan yfirfærist á okkur. Við getum ekki horft á okkar þátt afmarkaðan. Í huga fólks er lögregla lögregla og við þurfum að vinna upp það traust. Við þurfum að sanna það að við séum ekki að mismuna, sýna fordóma eða vera með óeðlileg afskipti. Til þess þurfum við aukna fræðslu, eftirlit og fylgja eftir hverju einasta máli.“
Því hafi málið verið sent til nefndar um eftirlit með lögreglu. „Við viljum að það verði farið yfir þetta allt saman. Og ef að það kemur í ljós að við hefðum getað gert hlutina öðruvísi þá að sjálfsögðu lærum við af því. Það sem ég hef verið að koma með inn í þessa umræðu er að sjálfstætt mat lögreglu hefur aldrei farið fram, við vorum að bregðast við ábendingum,“ segir Sigríður Björk.
Hér er hægt að lesa viðtalið við Sigríði Björk ríkislögreglustjóra í heild sinni.