Martha Imalwa ríkissaksóknari Namibíu telur að íslenskir sakborningar í Samherjamálinu í Namibíu séu, með fullyrðingum sínum um að Jóhannes Stefánsson uppljóstrari muni ekki koma til landsins að bera vitni, að reyna að veiða fram upplýsingar um það hvað gerist er Jóhannes kemur til landsins.
„Þetta virðist vera veiðitúr til þess að komast að því hvaða skilyrði eða lagalega fyrirkomulag verðir viðhaft varðandi Hr. Stefánsson er hann kemur til Namibíu og ber vitni,“ segir saksóknarinn meðal annars í viðbrögðum sínum við eiðsvarinni yfirlýsingu frá Ingvari Júlíussyni, fjármálastjóra hjá Samherjasamstæðunni, fyrir namibískum dómstólum. Þar er nú tekist á um kyrrsetningarkröfu sem ákæruvaldið hefur lagt fram á hendur sakborningum í málinu.
Imalwa segir að málflutningur Samherjamanna um að Jóhannes komi ekki byggi á órökstuddum fullyrðingum og getgátum, en Jóhannes sjálfur hefur ítrekað sagt að hann ætli sér að koma til landsins og bera vitni.
„Ég fór í þetta til að klára þetta og ég mun vitna í öllum málunum. Það er ekkert sem að stoppar mig. Rannsakendur í Namibíu eru ekki í nokkrum vafa um að ég muni koma," sagði Jóhannes við Stundina í upphafi mánaðar.
Efstur á vitnalista ákæruvaldsins
Í nýrri greinargerð ríkissaksóknarans sem birt var á vef namibískra dómstóla í vikunni má einmitt sjá vitnalista ákæruvaldsins í málinu.
Þar er nafn Jóhannesar efst á blaði, en ljóst er að málatilbúnaður yfirvalda í Namibíu í málinu gegn þarlendum áhrifamönnum hvílir að miklu leyti á vitnisburði Jóhannesar, auk þeirra gagna sem hann lét yfirvöldum þar í landi og hér á landi í té um meintar mútugreiðslur.
Segir Ísland ekki geta hafnað framsali manna sem eru ekki á Íslandi
Í málsvörn Samherjamanna hefur verið byggt á því að sökum þess að armur laganna í Namibíu hafi ekki haft hendur í hári Íslendinganna þriggja sé ekki hægt að ganga lengra með málið gegn þeim, þar sem ekki sé hægt að sækja þá til saka í Namibíu nema til þeirra náist.
Ríkissaksóknarinn hafnar því að búið sé að tæma allar leiðir sem namibísk yfirvöld hafa til þess að reyna að nálgast Íslendingana þrjá og segir jafnframt ekkert koma í veg fyrir að þeir verði síðar dregnir fyrir dóm, þó það yrði í öðru réttarhaldi en því sem nú er í undirbúningi.
Hún segir ennfremur að ekki sé hægt að túlka bréf sem fékkst frá embætti ríkissaksóknara á Íslandi, um að Íslendingar yrðu ekki framseldir héðan til Namibíu, sem formlega höfnun um framsal mannanna þriggja, enda geti Íslendingar ekki hafnað framsali manna sem ekki séu staddir á Íslandi.
Ákæruvaldið í Namibíu hefur áður lýst því að það hafi reynst erfitt að hafa upp á staðsetningu mannanna þriggja, sem eru fyrrverandi stjórnendur félaga á vegum Samherja í Namibíu. Auk áðurnefnds Ingvars eru þeir Egill Helgi Árnason og Aðalsteinn Helgason sakborningar í málinu ytra.
Dómsmálaráðuneyti sagt draga lappirnar
Í frétt á vef blaðsins Namibian í dag segir reyndar frá því að rannsakendur hjá ACC, namibísku spillingarlögreglunni, séu orðnir langeygir eftir því að dómsmálaráðuneyti landsins sendi formlega beiðni um framsal mannanna til Íslands.
Erna van der Merwe, næstæðsti yfirmaður spillingarlögreglunnar segir að staðfesting hafi þegar fengist á því frá héraðssaksóknara á Íslandi að tveir af þremur mannanna dvelji hér á landi og að dómsmálaráðuneytið, sem hafi formlegar beiðnir til annarra landa á sinni könnu, eigi að hætta að spá í því hvar mennirnir séu og einfaldlega koma framsalsbeiðninni til Íslands. Í frétt blaðsins kemur fram að dómsmálaráðuneytið líti svo á að framsalsbeiðnin sé einungis formsatriði, sem svar þurfi að fást við, þrátt fyrir að það blasi við að það verði neikvætt.
Dómsmálaráðuneytið kýs þó, samkvæmt frétt blaðsins sem vitnar til bréfaskrifta á milli ráðuneytis og spillingarlögreglunnar, fremur að fara þá leið að gefa út alþjóðlega handtökuskipun vegna Íslendinganna þriggja. Í frétt Namibian kemur ennfremur fram að ráðherra alþjóðasamskipta í ríkisstjórn landsins hafi átt fund með íslenskum sendiherra þar sem skýr svör hafi fengist um að íslenskir ríkisborgarar verði ekki framseldir.