Framboð bóluefnis samkvæmt afhendingaráætlunum miðað við samninga sem gerðir hafa verið fyrir hönd þjóðarinnar „leyfir að hugað sé að því að efla svörun ákveðinna hópa með örvunarbólusetningu,“ segir í minnisblaði Kamillu Jósefsdóttur staðgengils sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra þar sem hvatt er til að gefa fólki bólusettu með Janssen-bóluefninu skammt af öðru bóluefni, annað hvort frá Pfizer eða Moderna. Yfir 95 þúsund skammtar af bóluefni eru til í landinu og von er á 129 þúsund til viðbótar á næstu vikum.
Ísland er í hópi þeirra landa sem ákveðið hafa að gefa fullbólusettum örvunarskammta. Hin löndin sem þetta hafa ákveðið eru m.a. Ísrael, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Þýskaland. Hvorki sóttvarnastofnun Bandaríkjanna eða Evrópu mæla með örvunarskömmtum, að minnsta kosti ekki að svo komnu máli.
Forstjóri Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar biðlaði enn og aftur til auðugri ríkja í gær að bíða með að gefa örvunarskammta – að minnsta kosti til loka september. Ástæðan er sú að sú djúpa gjá sem myndast hefur milli ríkra og fátækra þjóða þegar kemur að bólusetningum er enn að dýpka. „Ég skil áhyggjur allra ríkisstjórna að verja sitt fólk gegn delta-afbrigðinu,“ sagði forstjórinn, Tedros Adhanom Ghebreyesus, í ávarpi sínu í gær. „En við getum ekki sætt okkur við að lönd sem þegar hafa notað stærstan hluta af öllu bóluefni sem framleitt hefur verið í heiminum til að nota enn meira af því.“
Elin Hoffmann Dahl, smitsjúkdómasérfræðingur mannúðarsamtakanna Læknar án landamæra sagði við Reuters-fréttastofuna í kjölfar ákalls forstjóra WHO að „sú staðreynd að við erum að bólusetja heilbrigða fullorðna með örvunarskömmtum af COVID-19 bóluefnum er skammsýni“ því ef við höldum áfram að skilja meirihluta heimsbyggðarinnar eftir óbólusettan munum við „án vafa“ þurfa ný og ný bóluefni í framtíðinni.
Engar vísindarannsóknir
Kamilla sagði í skriflegu svari til Kjarnans í síðustu viku að það hafi enn „engar vísindarannsóknir“ verið birtar um örvun Janssen-bólusetningar en að rök fyrir ákvörðuninni um að gera það engu að síður kæmu fram í minnisblaði sem sent hefur verið ráðherra.
Minnisblaðið hefur ekki verið birt á vef heilbrigðisráðuneytisins þótt ákvörðunin hafi verið tekin og örvunarherferðin þegar hafin.
Kjarninn fékk minnisblaðið afhent í gær. Þar kemur m.a. fram að markmið um bólusetningu sextán ára og eldri sem lagt var upp með hafi verið náð og að nærri 90 prósent einstaklinga á þessum aldri verið bólusett.
„Fyrsti hópurinn sem sóttvarnalæknir mælir með að verði boðin örvunarbólusetning eru einstaklingar án sögu um COVID-19/mótefni sem bólusettir voru með Janssen bóluefni,“ segir þar ennfremur og að mælt sé með að hópnum veðri boðinn einn skammtur af bóluefni frá Pfizer/BioNTech a.m.k. 8 vikum eftir Janssen bólusetningu.
Í minnisblaðinu er svo farið yfir rök sóttvarnayfirvalda fyrir þessum meðmælum og í fyrsta lagi kemur fram að vörn eftir einn skammt af Janssen-bóluefni sé svipuð og vörn eftir einn skammt af öðrum COVID-19 bóluefnum sem notuð hafa verið hér, um 66 prósent á móti 74-80 prósent vörn gegn smiti af upprunalega afbrigði veirunnar. „En Janssen er með markaðsleyfi sem eins skammts bóluefni og var því notað þannig.“
Þessar upplýsingar lágu fyrir þegar Janssen-bóluefnið kom á markað í mars.
Í frekari rökstuðningi staðgengils sóttvarnalæknis kemur fram að framleiðandi Janssen hafi prófað tveggja skammta áætlun í fasa 1-2 rannsóknum og hafi átta vikur verið látnar líða á milli skammta. Niðurstaðan hafi verið sú að annar skammtur örvaði mótefnasvar en að rannsóknir á áhrifum hvað smitlíkur varðar vanti.
Rannsóknir á örvun annarra mRNA-efna lofi góðu
Rannsóknir á lengra millibili við grunnbólusetningu með tveggja skammta bóluefnum (bóluefnum Pfizer og Astra Zeneca) hafa sýnt að svar er ekki síðra þótt lengra líði frá fyrsta skammti að seinni skammti en upphaflegar rannsóknir gerðu ráð fyrir, skrifar Kamilla. Hún bendir ennfremur á í minnisblaðinu að rannsóknir á örvun bóluefnis AstraZeneca með mRNA-bóluefnum (Pfizer/BioNTech) hafi sýnt „mjög góða örvun þegar horft er til mótefnamyndunar“.
Kamilla bendir svo á að „mjög litlar upplýsingar“ liggi fyrir um virkni Janssen-bóluefnis gegn delta-afbrigði veirunnar sem nú hefur náð yfirhöndinni hér eins og víðar. Hins vegar liggi fyrir upplýsingar „um ágæta virkni bóluefnis Pfizer/BioNTech gegn þessu afbrigði“.
40 prósent bólusettra meðal smitaðra fengu Janssen
Minnisblaðið skrifar Kamilla 27. júlí, fyrir rúmri viku. Þá höfðu um 40 prósent bólusettra sem greinst höfðu með veiruna verið bólusettir með Janssen. „Það ber þó að túlka með varúð,“ skrifar Kamilla. „Aldurshópur sá sem nú er mest áberandi hvað smit varðar, 18-49 ára, var að miklu leyti bólusettur með Janssen, um 36%, en 21% af öllum bólusettum fengu Janssen.“
Rúmlega 53 þúsund manns fengu bóluefni Janssen í vor og byrjun sumars. Margir leik- og grunnskólakennarar voru í þeim hópi. „Þar sem deltaafbrigðið virðist hafa náð mikilli samfélagslegri útbreiðslu er brýnt að efla varnir þessa[rra] starfsstétta áður en skólahald hefst, sérstaklega í ljósi þess að börn í leik- og grunnskólum hafa ekki verið bólusett í almennum bólusetningum ennþá,“ skrifar Kamilla en endurbólusetning kennara og annarra starfsmanna er þegar hafin hér á landi.