Sjávarútvegsrisinn Samherji segir, í yfirlýsingu sem birst á vef fyrirtækisins í dag, ljóst að stjórnendur félagsins hafi gengið „of langt“ í viðbrögðum við „neikvæðri umfjöllun um félagið“.
„Af þeim sökum vill Samherji biðjast afsökunar á þeirri framgöngu,“ segir í yfirlýsingu fyrirtækisins, en ekki er útskýrt í frekari smáatriðum að hvaða leyti gengið hafi verið of langt eða nákvæmlega hverju verið sé að biðjast afsökunar á.
Í yfirlýsingunni segir einnig að stjórnendum og starfsfólki Samherja hafi þótt umfjöllun og umræða um fyrirtækið á undanförnum árum „einhliða, ósanngjörn og ekki alltaf byggð á staðreyndum.“ Þegar svo sé – og „vegið að starfsheiðri með ósanngjörnum hætti á opinberum vettvangi“ – geti reynst erfitt að bregðast ekki við.
Umræða „skæruliðadeildarinnar“ hafi verið „óheppileg“
Samherji vísar til fjölmiðlaumfjöllunar um þau samskiptagögn fyrirtækisins sem Kjarninn og Stundin hafa undir höndum og fjallað um undanfarna viku í fréttum og fréttaskýringum. Fyrirtækið segir að „þau orð“ og „sú umræða sem þar var viðhöfð“ hafi verið „óheppileg“.
„Þarna var um að ræða persónuleg samskipti á milli starfsfélaga og vina sem enginn gerði ráð fyrir að yrðu opinber,“ segir í yfirlýsingu Samherja, en fyrirtækið hafnaði því að svara spurningum Kjarnans um það sem kemur fram í gögnunum á þeim grundvelli að gögnunum hefði verið stolið.
Í svari sem Arnar Þór Stefánsson, lögmaður á Lex, sendi fyrir hönd Samherja síðdegis fimmtudaginn 20. maí kom fram að fyrir lægi að þau gögn sem umfjöllun Kjarnans byggði á hefðu fengist með innbroti í síma og tölvu Páls Steingrímssonar, starfsmanns Samherja.
Páll hefði kært innbrotið og meðferð gagnanna til lögreglu og það biði lögreglurannsóknar. „Hvorki Samherji hf. né fyrirsvarsmenn félagsins munu fjalla um inntak gagna sem aflað hefur verið með refsiverðum hætti. Með því væri verið að ljá umfjöllun vægi sem hún á ekki skilið. Fyrirspurnum yðar verður því ekki svarað,“ sagði í svari lögmannsins.
Yfirlýsingin frá Samherja í heild sinni:
Undanfarin mörg ár hefur mikið verið fjallað um ýmis málefni er tengjast starfsemi Samherja. Samherji hefur á að skipa mjög hæfu starfsfólki á mörgum stöðum á landinu og í heiminum. Þetta starfsfólk hefur verið í forystu við uppbyggingu eins öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins og í fremstu röð í harðri samkeppni á alþjóðavísu. Bæði stjórnendum og starfsfólki hefur sviðið þessi umfjöllun og umræða um fyrirtækið og störf sín enda þykir þeim umfjöllunin hafa verið einhliða, ósanngjörn og ekki alltaf byggð á staðreyndum.
Í slíkum aðstæðum, þegar vegið er að starfsheiðri með ósanngjörnum hætti á opinberum vettvangi, þá getur reynst erfitt að bregðast ekki við. Í fjölmiðlum að undanförnu hefur verið fjallað um samskipti fólks sem skiptist á skoðunum og ræddi hvernig best væri að bregðast við þessum aðstæðum. Þarna var um að ræða persónuleg samskipti á milli starfsfélaga og vina sem enginn gerði ráð fyrir að yrðu opinber. Það breytir því þó ekki að þau orð og sú umræða sem þar var viðhöfð voru óheppileg.
Þá hafa stjórnendur Samherja brugðist harkalega við neikvæðri umfjöllun um félagið og ljóst að of langt hefur verið gengið í þeim viðbrögðum. Af þeim sökum vill Samherji biðjast afsökunar á þeirri framgöngu.