Boðað hefur verið til alþjóðlegs samstöðufundar með afgönsku þjóðinni klukkan 14:30 á morgun. Solaris - hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, No Borders og Refugees in Iceland boða til fundarins og hefst hann á Hlemmi og þaðan verður gengið niður á Austurvöll.
Samstöðufundurinn skorar á íslensk stjórnvöld að beita sér tafarlaust og eindregið fyrir flutningi afganskra borgara á flótta undan því hættuástandi sem ríkir í heimalandi þeirra eftir valdarán Talíbana.
Til viðbótar við það sem sem stjórnvöld hafa ákveðið að gera er skorað á íslensk stjórnvöld í fyrsta lagi að tryggja að Afganir búsettir á Íslandi og sem sótt hafa um vernd á Íslandi en ekki hlotið jákvæða niðurstöðu fái pólitískt hæli skilyrðislaust. Umsóknir þessara einstaklinga verði settar í forgang og afgreiðslu þeirra hraðað.
Í öðru lagi að reglur um fjölskyldusameiningu verði rýmkaðar þannig að sem flestir landflótta Afganir með fjölskyldutengingu við Ísland fái hér vernd. Íslensk yfirvöld beiti sér fyrir flutningi þeirra til landsins. Sett hefur verið af stað undirskriftasöfnun með sömu kröfum til íslenskra stjórnvalda.
Samskonar samstöðufundir með afgönsku þjóðinni verða um allan heim á morgun, til dæmis í Amsterdam, Helsinki, London, San Francisco, Montreal og Melbourne.
Féllust á tillögur flóttamannanefndar
Íslensk stjórnvöld greindu frá því síðastliðinn þriðjudag að þau hefðu fallist á tillögur flóttamannanefndar að taka á móti „allt að 120 manns“ frá Afganistan. Samkvæmt tillögum nefndarinnar á í fyrsta lagi að taka á móti starfsfólki sem vann með og fyrir Atlantshafsbandalagið, ásamt mökum þeirra og börnum. Horft verður sérstaklega til þeirra sem störfuðu með íslensku friðargæslunni.
Í öðru lagi verður fyrrverandi nemendum frá Afganistan við jafnréttisskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, ásamt mökum og börnum, boðið til landsins. Í þriðja lagi munu íslensk stjórnvöld aðstoða þá Afgana sem eiga rétt á fjölskyldusameiningu eða eru komnir nú þegar með dvalarleyfi hér á landi en geta ekki ferðast á eigin vegum að komast til landsins. Um er að ræða einstaklinga sem hafa fjölskyldutengsl hér, sem og einstaklinga sem hyggjast hefja hér nám.
Í fjórða lagi verða umsóknir um fjölskyldusameiningu, samkvæmt lögum um útlendinga, við Afgana búsetta hér landi settar í forgang og aukið við fjárveitingar til þess að hraða umsóknunum. Nánustu aðstandendur í skilningi útlendingalaga eru makar, sambúðarmakar, börn yngri en 18 ára í forsjá og á framfæri viðkomandi, foreldrar 67 ára eða eldri, og foreldrar barn yngri en 18 ára.
Fjölskyldusameining þarf að ná til fleiri aðila
Benjamín Julian, Elínborg Harpa Önundardóttir, Sema Erla Serdar og Eyrún Ólöf Sigurðardóttir útskýra kröfur samstöðufundarins nánar í aðsendri grein á Vísi í dag.
Í greininni segir að ef íslenskum yfirvöldum sé alvara með yfirlýsingum um vilja til að „leggja sitt af mörkum nú þegar“ væri eðlilegt að þær aðgerðir hæfust strax hér á landi og þeim Afgönum sem þegar eru staddir á Íslandi, og bíða úrlausnar sinna mála hjá Útlendingastofnun, væri veitt alþjóðleg vernd án tafar.
„Fjölskyldusameining þarf svo að ná til fleiri aðila, til þess að sem flestir landflótta Afganir með fjölskyldutengingu við Ísland geti sameinast fjölskyldumeðlimum sínum hér á landi og lifað í öryggi,“ segir í greininni.