Snemma í gærmorgun, 19. júlí, kom hvalveiðiskipið Hvalur 9 með langreyði að landi í hvalstöðinni í Hvalfirði og hafði hún sprengiskutul í síðu sinni – ósprunginn. Þetta er í annað sinn á nokkrum dögum sem skot hvalveiðimannanna geigar, að því er virðist, á yfirstandandi vertíð.
Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf. virti skutulinn fyrir sér í dýrinu áður en að hann var fjarlægður. Sprengjan í skutlinum, sem er lögbundið drápstól við veiðarnar, á að deyða dýrið samstundis. Ef hún springur ekki þarf að hlaða byssuna aftur og hleypa af. Það getur tekið margar mínútur og lengt dauðastríð hvalsins.
„Skyttunni um borð í Hval 9 mistókst augljóslega að skjóta banaskoti í fyrstu tilraun,“ segir Arne Feuerhahn, framkvæmdastjóri sjávarverndarsamtakanna Hard to Port, sem fylgdist líkt og fleiri dýraverndunarsinnar með því þegar langreyðurin, kvendýr, var dregin á land með þau ummerki á skrokk sínum sem að framan er lýst. Hann segir að annars staðar á skrokki hennar hafi sést merki um seinna skotið. „Við göngum út frá því að annað skot hafi þurft til að enda þjáningar dýrsins.“
Hins vegar, bendir hann á, sjáist auk ummerkja eftir tvö skot úr sprengjuskutli, mun minna sár við annað bægsli langreyðarinnar. Hugsanlega, segir í fréttatilkynningu samtakanna, er þar um að ræða sár eftir byssukúlu. Feuerhahn segist ekki fullviss að svo sé en hvalveiðibátar eru útbúnir rifflum sem eru notaðir til þrautavara ef ekki tekst að drepa dýrið með skutli.
Hard to Port hafa fylgst náið með því sem fram fer vegna hvalveiðanna við hvalstöðina í Hvalfirði. Það voru einnig þau sem urðu vitni að því þegar annað kvendýr var dregið á land 4. júlí með skutulinn í síðu sinni. Kjarninn fékk það staðfest hjá yfirdýralækni Matvælastofnunar að þá hefði skot veiðimannanna geigað og hafnað í beini, höfuðkúpu dýrsins.
Miðað við þær myndir sem Hard to Port sendu með fréttatilkynningu sinni hefur það sama gerst í gær.
Líkt og Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir lýsti í samtali við Kjarnann um helgina þarf sprengiskutull að komast inn í hold til að hann springi. Eftirlitsdýralæknir frá MAST skoðar sérhvern hval sem dreginn er á land. Ekki fyrr en að eftirliti hans loknu má verka hvalinn.
Sævar Guðmundsson, deildarstjóri landeftirlits hjá Fiskistofu, sagði við Kjarnann að skyttur sem annist veiðar og aflífun dýra eigi að sækja viðurkennt námskeið í meðferð skutulbyssa og sprengiskutla og í aflífunaraðferðum við hvalveiðar.
Hvalur hf. eina fyrirtækið á veiðum
Á Íslandi gilda sérstök lög um hvalveiðar. Í grunninn eru þau frá árinu 1949. Þeim var síðast breytt árið 2012. Samkvæmt þeim mega þeir einir stunda slíkar veiðar sem til þess hafa leyfi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Núverandi veiðiheimildir sem fyrirtækið Hvalur hf. eitt nýtir, gilda út árið 2023.
Í byrjun júlí lagði matvælaráðuneytið til breytingu á reglugerð um hvalveiðar sem fela m.a. í sér að skipstjórum hvalveiðiskipa verði gert að tilnefna dýravelferðarfulltrúa sem beri ábyrgð á því að rétt verði staðið að velferð hvala við veiðar.
Í núgildandi reglugerð kemur fram að einungis skuli nota skutulsprengjur af gerðinni hvalgranat-99 og skal dýr aflífað „eins fljótt og kostur er“.
En það eru fleiri lög sem gilda um hvalveiðar en sérlögin fyrrnefndu.
Sigurborg yfirdýralæknir benti í því sambandi á að í lögum um velferð dýra er sérstakt ákvæði um veiðar í 27. gr. en þar segir:
„Ávallt skal staðið að veiðum þannig að það valdi dýrunum sem minnstum sársauka og aflífun þeirra taki sem skemmstan tíma. Skylt er veiðimönnum að gera það sem í þeirra valdi stendur til að aflífa þau dýr sem þeir hafa valdið áverkum.
Við veiðar er óheimilt að beita aðferðum sem valda dýri óþarfa limlestingum eða kvölum. Við veiðar á villtum dýrum skal að auki fara að fyrirmælum gildandi laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.“
Næststærsta spendýr jarðar
Hvalir eru sannarlega villt spendýr. Og þau langstærstu sem fyrirfinnast á plánetunni Jörð. Langreyður, sem Hvalur hf. veiðir nú af miklum móð, er næststærsta spendýr jarðar. Einungis frænka hennar, steypireyðurin, er stærri. Þær eru fullvaxnar 24-26 metrar að lengd og vega þá 60-75 tonn. Þetta eru langlífar skepnur, geta orðið 80-90 ára. Svipað gamlar og mannskepnan.
„Við höfum orðið vitni að og skráð augljós og endurtekin brot á lögum um dýravernd,“ segir Feuerhahn í nýjustu fréttatilkynningu Hard to Port. „Myndefni okkar sýnir svo ekki verður um villst að hvalir eru ekki drepnir „eins fljótt og kostur er“ á þessum veiðum. Við óskum eftir því að ráðherra sjávarútvegs og landbúnaðar stöðvi veiðarnar þar til þess mál eru að fullu rannsökuð.“
Í rannsókn sem Fiskistofa lét gera árið 2014 kom í ljós að af 50 langreyðum sem fylgst var með veiðum á dóu 42 samstundis. Það þýðir að sprengjuskutullinn hafi hafnað í holdi. En átta dýranna dóu ekki strax og voru þá skotin aftur. Sú langreyður sem lengst tórði eftir fyrra skotið lifði í fimmtán mínútur.