Núgildandi reglur á landamærunum gilda til 15. janúar 2022 en í minnisblaði sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir skilaði heilbrigðisráðherra í gær telur hann mikilvægt að skoða betur möguleikann á hertari aðgerðum á landamærum, bæði til styttri og lengri tíma.
Ástæðan er hröð útbreiðsla ómíkron-afbrigðis kórónuveirunnar sem sóttvarnalæknir telur að verði allsráðandi hér á landi áður en langt um líður. Stærsta breytingin sem hann leggur til á landamærunum snýr að sóttkví farþega sem koma til landsins. Í núgildandi reglum eru íslenskir ríkisborgarar undanþegnir þeirri skyldu að framvísa neikvæðu PCR- eða hraðgreiningarprófi en þurfa þess í stað að undirgangast slík próf innan tveggja sólarhringa eftir komu til landsins.
Sóttvarnalæknir leggur til breytinguna þar sem flestir sem nú eru að greinast á landamærum tilheyra þessum hópi farþega og jafnvel eru margir með neikvætt próf við komu og greinast ekki fyrr en að nokkrum dögum liðnum og hafa þannig náð að smita aðra. PCR-próf tekið um það bil sólarhring eftir komu á að tryggja betur að þessir einstaklingar greinist fyrr en ella að mati sóttvarnalæknis. Þá segir hann PCR-próf mun áreiðanlegri en hraðgreiningapróf og því þurfi að skoða hvort ekki eigi að krefja alla um PCR próf fyrir brottför en ekki gefa kost á hraðgreiningarprófi.
Þá telur sóttvarnalæknir einnig að kanna þurfi möguleika á því að prófa alla farþega fyrir kórónuveirunni við komuna til landsins eins og áður hefur verið gert. „Á þessari stundu er erfitt að sjá að það sé gerlegt vegna takmarkaðrar sýnatökugetu á landamærunum og takmarkaðrar greiningargetu. Þetta þarf hins vegar að skoða betur,“ segir í minnisblaðinu. Sóttvarnalæknir segir að skoða þurfi þá leið að sýni séu tekin af ferðamönnum á landamærum en af öðrum á heilsugæslustöð. Einnig þurfi að kanna hvernig auka megi greiningargetu.
Landamærahópur forsætisráðuneytisins fær það verkefni að skoða þær tillögur á landamærunum sem sóttvarnalæknir leggur til.