Vel yfir 50 þúsund evrópsk stafræn COVID-vottorð hafa verið gefin út hér á landi, bæði til íslenskra ríkisborgara og erlendra ferðamanna sem hér hafa viðdvöl. Reglugerð um stafræn COVID-19 vottorð tók gildi hér á landi 1. júlí en þau gilda í þrjátíu löndum; öllum ríkjum Evrópusambandsins auk Íslands, Noregs, Liecthenstein og Sviss. Markmið er að auka frjálsa för fólks milli ríkja og auka öryggi einstaklinga meðan á COVID-19 faraldrinum stendur.
Reglugerðin setur ramma um útgáfu, sannprófun og viðurkenningu á sambærilegum vottorðum um bólusetningu, próf og bata til að auðvelda frjálsa för á meðan COVID-19 heimsfaraldurinn stendur yfir. Stafræn COVID-19 vottorð innihalda upplýsingar um bólusetningar gegn COVID-19, niðurstöður úr PCR-skimunum, hafi þær verið neikvæðar, og bata, hafi viðkomandi sýkst.
eHealth Network hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur staðið fyrir samvinnu Evrópuríkja um samræmd stafræn COVID-vottorð með undirrituðum QR-kóða. Vottorðin eru kölluð EU DCC-vottorð (EU Digitial COVID Certificate) eða evrópskt stafrænt COVID-vottorð á íslensku.
Vinnuheiti var „Digital Green Certificate“ – „stafræn grænt vottorð“ eða „græni passinn“– en Evrópusambandið valdi að endingu að kalla það ekki „græna“ vottorðið heldur einfaldlega „COVID vottorðið“.
Mikilvægt er að hafa í huga að stafrænu COVID-vottorðin eru ekki ferðapassi, segir Ingi Steinn Ingason, sviðsstjóri hjá landlækni sem leiðir uppbyggingu evrópsku stafrænu COVID-vottorðanna fyrir embættið, í samstarfi við sóttvarnarlækni og ráðuneytin. „Vottorðin sem slík gefa ekki réttindi, þau staðfesta bara bólusetningu, neikvæða niðurstöðu prófs eða fyrri sýkingu. Farþegar þurfa í flestum tilvikum að hlíta takmörkunum í komulandi, en þær takmarkanir eru töluvert breytilegar í Evrópulöndum.“
Hann segir notkun á votturðunum vera „framar vonum“ og að mjög lítið sé um vandkvæði við útgáfu þeirra og sannprófun. „Sem sagt; þau virka mjög vel.“
Ingi Steinn segir í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans að hingað til hafi um 10 prósent allra flugfarþega frá Evrópu sem hingað hafa komið framvísað hinu evrópska stafræna COVID-vottorði. QR-kóðinn er lesinn við landamærin og sannprófaður með því að staðfesta rétta undirskrift. „Við erum búin að gefa út meira en 30.000 bólusetningarvottorð með QR-kóðanum og meira en 20.000 próf-vottorð.“
Hann segir allar þjóðirnar 30 taka vottorðin gild og að eitt af lykilatriðunum í því sambandi séu reglugerðir frá Evrópuþinginu sem hafi verið innleiddar í þeim öllum til að tryggja persónuvernd og lagalegar forsendur vottorðanna.
Hægt er að nálgast stafrænt COVID-19 vottorð á heilsuvera.is.