Guðlaugur Þór Þórðarson hefur skipað Stefán Guðmundsson, sem gegnt hefur embætti skrifstofustjóra á skrifstofu fjármála og rekstrar í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, sem ráðuneytisstjóra frá og með 1. september næstkomandi.
Staðan var ekki auglýst heldur var Stefán fluttur í embættið á grundvelli laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þar sem kveðið er á um heimild til flutnings embættismanna ríkisins milli embætta.
Sigríður Auður Arnardóttir, sem hafði gegnt embætti ráðuneytisstjóra í ráðuneytinu frá árinu 2014 hefur ráðið sig til Orkuveitu Reykjavíkur sem stjórnandi á nýju fagsviði Samhæfingar og stjórnsýslu sem heyrir undir forstjóra.
Í tilkynningu frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu kemur fram að Stefán sé menntaður viðskiptafræðingur með kandídatspróf í stjórnun frá Háskóla Íslands. Hann starfaði áður sem forstöðumaður rekstrar- og mannauðssviðs Matvælastofnunar, áður Landbúnaðarstofnunar, frá árinu 2006 til 2014.
Lilja mátti skipa Skúla Eggert
Þetta er ekki í fyrsta sinn á þessu kjörtímabili sem ráðherra skipar ráðuneytisstjóra á grundvelli laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, skipaði Skúla Eggert Þórðarson, þáverandi ríkisendurskoðanda, í það embætti innan síns ráðuneyti snemma á þessu ári.
Umboðsmaður Alþingis, Skúli Magnússon, óskaði eftir skýringum á lagalegum grundvelli fyrir skipan hans og á brefum hans til ráðherrans mátti merkja að hann áttaði sig ekki fyllilega á hvaða lagalegi grundvöllur hafi verið fyrir skipuninni.
Í bréfinu sagði meðal annars að í ljósi aðkomu og afstöðu þingsins gagnvart tilfærslu Skúla Eggerts úr embætti ríkisendurskoðanda yrði ekki hjá því komist að líta svo á að það félli utan við starfssvið umboðsmanns, þar sem það taki ekki til starfa Alþingis, að fjalla um ákvörðun ráðherra að skipa viðkomandi með þeim hætti sem gert var og án undangenginnar auglýsingar. Ekki væri því lagaskilyrði til þess að embætti umboðsmanns geti haldið athugun sinni áfram.
Umboðsmaður tók þó fram að með niðurstöðunni hefði engin efnisleg afstaða verið tekin til atvika málsins eða þeirra skýringa sem hefðu verið færðar fram vegna þess.
Áslaug Arna braut gegn lögum
Þetta var ekki eina málið sem varðaði skipan ráðuneytisstjóra sem umboðsmaður Alþingis skipti sér að. Hann óskaði einnig eftir skýringum á tímabundinni skipan Ásdísar Höllu Bragadóttur sem ráðuneytisstjóra í háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu til þriggja mánaða fyrr á þessu ári.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir skipaði Ásdísi Höllu, sem er fyrrverandi bæjarstjóri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ, í embættið í janúarlok 2022.
Í bréfi Umboðsmanns Alþingis til Áslaugar Örnu sagði að ekki yrði annað ráðið, í ljósi þess að verið væri að setja á fót nýtt ráðuneyti, að um nýtt embætti innan ráðuneytisins væri að ræða.
Umboðsmaður óskaði því eftir upplýsingum „um hvort umrætt embætti hafi verið auglýst til umsóknar“ og ef svo hafi ekki verið, óskaði hann eftir skýringum frá ráðherra á því á hvaða lagagrundvelli það hafi verið gert.
Í byrjun mars birti umboðsmaður álit þess efnis að Áslaugu Örnu hefði ekki verið heimilt að setja Ásdísi Höllu í embættið án auglýsingar. Ráðherrann hafi því brotið gegn lögum með ákvörðun sinni.
Áslaug Halla sótti um embættið í byrjun mars og var tekin fram yfir aðra umsækjendur þegar Áslaug Arna ákvað að skipa hana í embætti ráðuneytisstjóra í apríl. Alls sóttu átta um embættið, fjórir drógu umsókn sína til baka og tveir voru metnir hæfastir. Á meðal umsækjenda var Sigríður Auður, þá ráðuneytisstjóri í umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu.